Book of Common Prayer
56 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.
2 Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.
3 Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.
4 Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.
5 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?
6 Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.
7 Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.
8 Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.
9 Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.
10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.
11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.
12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,
14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.
57 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál.
2 Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.
3 Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.
4 Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti.
5 Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!
7 Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela]
8 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.
9 Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.
10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,
11 því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.
12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.
58 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam.
2 Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir? Dæmið þér mennina með sanngirni?
3 Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu, hendur yðar vega út ofbeldi.
4 Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið, lygarar fara villir vegar frá móðurskauti.
5 Eitur þeirra er eins og höggormseitur, þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum
6 til þess að heyra ekki raust særingamannsins né hins slungna töframanns.
7 Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra, mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn!
8 Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt; miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir,
9 eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur, ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina.
10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum, hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi, feykir hann hinum illa burt.
11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina, hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu.
12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt; það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.
64 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Heyr, ó Guð, raust mína, er ég kveina, varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins.
3 Skýl mér fyrir bandalagi bófanna, fyrir óaldarflokki illvirkjanna,
4 er hvetja tungur sínar sem sverð, leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng
5 til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda, skjóta á hann allt í einu, hvergi hræddir.
6 Þeir binda fastmælum með sér ill áform, tala um að leggja leynisnörur, þeir hugsa: "Hver ætli sjái það?"
7 Þeir upphugsa ranglæti: "Vér erum tilbúnir, vel ráðin ráð!" því að hugskot hvers eins og hjarta er fullt véla.
8 Þá lýstur Guð þá með örinni, allt í einu verða þeir sárir,
9 og tunga þeirra verður þeim að falli. Allir þeir er sjá þá, munu hrista höfuðið.
10 Þá mun hver maður óttast og kunngjöra dáðir Guðs og gefa gætur að verkum hans.
11 Hinn réttláti mun gleðjast yfir Drottni og leita hælis hjá honum, og allir hjartahreinir munu sigri hrósa.
65 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.
2 Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd.
3 Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.
4 Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.
5 Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.
6 Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda,
7 þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika,
8 þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,
9 svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.
10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.
11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.
12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.
13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.
14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.
19 Englarnir tveir komu um kveldið til Sódómu. Sat Lot í borgarhliði. Og er hann sá þá, stóð hann upp í móti þeim og hneigði ásjónu sína til jarðar.
2 Því næst mælti hann: "Heyrið, herrar mínir, sýnið lítillæti og komið inn í hús þjóns ykkar, og verið hér í nótt og þvoið fætur ykkar. Getið þið þá risið árla á morgun og farið leiðar ykkar." En þeir sögðu: "Nei, við ætlum að hafast við á strætinu í nótt."
3 Þá lagði hann mikið að þeim, uns þeir fóru inn til hans og gengu inn í hús hans. Og hann bjó þeim máltíð og bakaði ósýrt brauð, og þeir neyttu.
4 En áður en þeir gengu til hvíldar, slógu borgarmenn, mennirnir í Sódómu, hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn hvaðanæva.
5 Og þeir kölluðu á Lot og sögðu við hann: "Hvar eru mennirnir, sem komu til þín í kveld? Leið þú þá út til vor, að vér megum kenna þeirra."
6 Lot gekk þá út til þeirra, út fyrir dyrnar, og lokaði hurðinni að baki sér.
7 Og hann sagði: "Fyrir hvern mun, bræður mínir, fremjið ekki óhæfu.
8 Sjá, ég á tvær dætur, sem ekki hafa karlmanns kennt. Ég skal leiða þær út til yðar, gjörið við þær sem yður gott þykir. Aðeins megið þér ekkert gjöra þessum mönnum, úr því að þeir eru komnir undir skugga þaks míns."
9 Þá æptu þeir: "Haf þig á burt!" og sögðu: "Þessi náungi er hingað kominn sem útlendingur og vill nú stöðugt vera að siða oss. Nú skulum vér leika þig enn verr en þá." Og þeir gjörðu ákaflega þröng að honum, að Lot, og gengu nær til að brjóta upp dyrnar.
10 Þá seildust mennirnir út og drógu Lot til sín inn í húsið og lokuðu dyrunum.
11 En þá, sem voru úti fyrir dyrum hússins, slógu þeir með blindu, smáa og stóra, svo að þeir urðu að gefast upp við að finna dyrnar.
12 Mennirnir sögðu við Lot: "Átt þú hér nokkra fleiri þér nákomna? Tengdasyni, syni, dætur? Alla í borginni, sem þér eru áhangandi, skalt þú hafa á burt héðan,
13 því að við munum eyða þennan stað, af því að hrópið yfir þeim fyrir Drottni er mikið, og Drottinn hefir sent okkur til að eyða borgina."
14 Þá gekk Lot út og talaði við tengdasyni sína, sem ætluðu að ganga að eiga dætur hans, og mælti: "Standið upp skjótt og farið úr þessum stað, því að Drottinn mun eyða borgina." En tengdasynir hans hugðu, að hann væri að gjöra að gamni sínu.
15 En er dagur rann, ráku englarnir eftir Lot og sögðu: "Statt þú upp skjótt! Tak þú konu þína og báðar dætur þínar, sem hjá þér eru, svo að þú fyrirfarist ekki vegna syndar borgarinnar."
16 En er hann hikaði við, tóku mennirnir í hönd honum og í hönd konu hans og í hönd báðum dætrum hans, af því að Drottinn vildi þyrma honum, og leiddu hann út og létu hann út fyrir borgina.
17 Og er þeir höfðu leitt þau út, sögðu þeir: "Forða þér, líf þitt liggur við! Lít ekki aftur fyrir þig og nem hvergi staðar á öllu sléttlendinu, forða þér á fjöll upp, að þú farist eigi."
18 Þá sagði Lot við þá: "Æ nei, herra!
19 Sjá, þjónn þinn hefir fundið náð í augum þínum, og þú hefir sýnt á mér mikla miskunn að láta mig halda lífi. En ég get ekki forðað mér á fjöll upp, ógæfan getur komið yfir mig og ég dáið.
20 Sjá, þarna er borg í nánd, þangað gæti ég flúið, og hún er lítil. Ég vil forða mér þangað _ er hún ekki lítil? _ og ég mun halda lífi."
21 Drottinn sagði við hann: "Sjá, ég hefi einnig veitt þér þessa bæn, að leggja ekki í eyði borgina, sem þú talaðir um.
22 Flýt þér! Forða þér þangað, því að ég get ekkert gjört, fyrr en þú kemst þangað." Vegna þessa nefna menn borgina Sóar.
23 Sólin var runnin upp yfir jörðina, er Lot kom til Sóar.
24 Og Drottinn lét rigna yfir Sódómu og Gómorru brennisteini og eldi frá Drottni, af himni.
25 Og hann gjöreyddi þessar borgir og allt sléttlendið og alla íbúa borganna og gróður jarðarinnar.
26 En kona hans leit við að baki honum og varð að saltstöpli.
27 Abraham gekk snemma morguns þangað, er hann hafði staðið frammi fyrir Drottni.
28 Og hann horfði niður á Sódómu og Gómorru og yfir allt sléttlendið og sá, að reyk lagði upp af jörðinni, því líkast sem reykur úr ofni.
29 En er Guð eyddi borgirnar á sléttlendinu, minntist Guð Abrahams og leiddi Lot út úr eyðingunni, þá er hann lagði í eyði borgirnar, sem Lot hafði búið í.
11 Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.
2 Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð.
3 Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.
4 Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar vitni um fórn hans. Með trú sinni talar hann enn, þótt dauður sé.
5 Fyrir trú var Enok burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta. "Ekki var hann framar að finna, af því að Guð hafði numið hann burt." Áður en hann var burt numinn, hafði hann fengið þann vitnisburð, "að hann hefði verið Guði þóknanlegur."
6 En án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.
7 Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni.
8 Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar, sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá.
9 Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum, ásamt Ísak og Jakob, er voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti.
10 Því að hann vænti þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.
11 Fyrir trú öðlaðist Abraham kraft til að eignast son, og þó var Sara óbyrja og hann kominn yfir aldur. Hann treysti þeim, sem fyrirheitið hafði gefið.
12 Þess vegna kom út af honum, einum manni, og það mjög ellihrumum, slík niðja mergð sem stjörnur eru á himni og sandkorn á sjávarströnd, er ekki verður tölu á komið.
27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt."
28 Þá sögðu þeir við hann: "Hvað eigum vér að gjöra, svo að vér vinnum verk Guðs?"
29 Jesús svaraði þeim: "Þetta er verk Guðs, að þér trúið á þann, sem hann sendi."
30 Þeir spurðu hann þá: "Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú?
31 Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: ,Brauð af himni gaf hann þeim að eta."`
32 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni.
33 Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf."
34 Þá sögðu þeir við hann: "Herra, gef oss ætíð þetta brauð."
35 Jesús sagði þeim: "Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.
36 En ég hef sagt við yður: Þér hafið séð mig og trúið þó ekki.
37 Allt sem faðirinn gefur mér, mun koma til mín, og þann sem kemur til mín, mun ég alls eigi brott reka.
38 Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.
39 En sá er vilji þess, sem sendi mig, að ég glati engu af öllu því, sem hann hefur gefið mér, heldur reisi það upp á efsta degi.
40 Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi."
by Icelandic Bible Society