Book of Common Prayer
63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.
2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.
5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.
9 Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.
10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.
11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.
12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.
98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.
4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
2 Abram var stórauðugur að kvikfé, silfri og gulli.
3 Og hann flutti sig smátt og smátt sunnan að allt til Betel, til þess staðar, er tjald hans hafði áður verið, milli Betel og Aí,
4 til þess staðar, þar sem hann áður hafði reist altarið. Og Abram ákallaði þar nafn Drottins.
5 Lot, sem fór með Abram, átti og sauði, naut og tjöld.
6 Og landið bar þá ekki, svo að þeir gætu saman verið, því að eign þeirra var mikil, og þeir gátu ekki saman verið.
7 Og sundurþykkja reis milli fjárhirða Abrams og fjárhirða Lots. _ En Kanaanítar og Peresítar bjuggu þá í landinu.
8 Þá mælti Abram við Lot: "Engin misklíð sé milli mín og þín og milli minna og þinna fjárhirða, því að við erum frændur.
9 Liggur ekki allt landið opið fyrir þér? Skil þig heldur við mig. Viljir þú fara til vinstri handar, þá fer ég til hægri; og viljir þú fara til hægri handar, þá fer ég til vinstri."
10 Þá hóf Lot upp augu sín og sá, að allt Jórdansléttlendið, allt til Sóar, var vatnsríkt land, eins og aldingarður Drottins, eins og Egyptaland. (Þetta var áður en Drottinn eyddi Sódómu og Gómorru.)
11 Og Lot kaus sér allt Jórdansléttlendið, og Lot flutti sig austur á við, og þannig skildu þeir.
12 Abram bjó í Kanaanlandi, en Lot bjó í borgunum á sléttlendinu og færði tjöld sín allt til Sódómu.
13 En mennirnir í Sódómu voru vondir og stórsyndarar fyrir Drottni.
14 Drottinn sagði við Abram, eftir að Lot hafði skilið við hann: "Hef þú upp augu þín, og litast um frá þeim stað, sem þú ert á, til norðurs, suðurs, austurs og vesturs.
15 Því að allt landið, sem þú sér, mun ég gefa þér og niðjum þínum ævinlega.
16 Og ég mun gjöra niðja þína sem duft jarðar, svo að geti nokkur talið duft jarðarinnar, þá skulu einnig niðjar þínir verða taldir.
17 Tak þig nú upp og far þú um landið þvert og endilangt, því að þér mun ég gefa það."
18 Og Abram færði sig með tjöld sín og kom og settist að í Mamrelundi, sem er í Hebron, og reisti Drottni þar altari.
2 Síðan fór ég að fjórtán árum liðnum aftur upp til Jerúsalem ásamt Barnabasi og tók líka Títus með mér.
2 Ég fór þangað eftir opinberun og lagði fram fyrir þá fagnaðarerindið, sem ég prédika meðal heiðingjanna. Ég lagði það einslega fyrir þá, sem í áliti voru; það mátti eigi henda, að ég hlypi og hefði hlaupið til einskis.
3 En ekki var einu sinni Títus, sem með mér var og var grískur maður, neyddur til að láta umskerast.
4 Það hefði þá verið fyrir tilverknað falsbræðranna, er illu heilli hafði verið hleypt inn og laumast höfðu inn til að njósna um frelsi vort, það er vér höfum í Kristi Jesú, til þess að þeir gætu hneppt oss í þrældóm.
5 Undan þeim létum vér ekki einu sinni eitt andartak, til þess að sannleiki fagnaðarerindisins skyldi haldast við hjá yður.
6 Og þeir, sem í áliti voru, _ hvað þeir einu sinni voru, skiptir mig engu, Guð fer ekki í manngreinarálit, _ þeir, sem í áliti voru, lögðu ekkert frekara fyrir mig.
7 Þvert á móti, þeir sáu, að mér var trúað fyrir fagnaðarerindinu til óumskorinna manna, eins og Pétri til umskorinna,
8 því að sá, sem hefur eflt Pétur til postuladóms meðal hinna umskornu, hefur einnig eflt mig til postuladóms meðal heiðingjanna.
9 Og er þeir höfðu komist að raun um, hvílík náð mér var veitt, þá réttu þeir Jakob, Kefas og Jóhannes, sem álitnir voru máttarstólparnir, mér og Barnabasi hönd sína til bræðralags: Við skyldum fara til heiðingjanna, en þeir til hinna umskornu.
10 Það eitt var til skilið, að við skyldum minnast hinna fátæku, og einmitt þetta hef ég líka kappkostað að gjöra.
31 Síðan hélt hann úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns.
32 Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann.
33 Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu.
34 Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: "Effaþa," það er: Opnist þú.
35 Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt.
36 Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum, en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því.
37 Menn undruðust næsta mjög og sögðu: "Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla."
by Icelandic Bible Society