Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 30

30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.

Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.

Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.

Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.

Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.

Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.

En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."

Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.

Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:

10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?

11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"

12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,

13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.

Sálmarnir 32

32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.

Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.

Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,

því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]

Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]

Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.

Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]

Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:

Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.

10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.

11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!

Sálmarnir 42-43

42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?

Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.

Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.

Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.

10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"

11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.

Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?

Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,

svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Fyrsta bók Móse 12:9-13:1

Og Abram færði sig smátt og smátt til Suðurlandsins.

10 En hallæri varð í landinu. Þá fór Abram til Egyptalands til að dveljast þar um hríð, því að hallærið var mikið í landinu.

11 Og er hann var kominn langt á leið til Egyptalands, sagði hann við Saraí konu sína: "Sjá, ég veit að þú ert kona fríð sýnum.

12 Það mun því fara svo, að þegar Egyptar sjá þig, þá munu þeir segja: ,Þetta er kona hans,` og drepa mig, en þig munu þeir láta lífi halda.

13 Segðu fyrir hvern mun, að þú sért systir mín, svo að mér megi líða vel fyrir þínar sakir og ég megi lífi halda þín vegna."

14 Er Abram kom til Egyptalands, sáu Egyptar, að konan var mjög fríð.

15 Og höfðingjar Faraós sáu hana og létu mikið af henni við Faraó, og konan var tekin í hús Faraós.

16 Og hann gjörði vel við Abram hennar vegna, og hann eignaðist sauði, naut og asna, þræla og ambáttir, ösnur og úlfalda.

17 En Drottinn þjáði Faraó og hús hans með miklum plágum vegna Saraí, konu Abrams.

18 Þá kallaði Faraó Abram til sín og mælti: "Hví hefir þú gjört mér þetta? Hví sagðir þú mér ekki, að hún væri kona þín?

19 Hví sagðir þú: ,Hún er systir mín,` svo að ég tók hana mér fyrir konu? En þarna er nú konan þín, tak þú hana og far burt."

20 Og Faraó skipaði svo fyrir um Abram, að menn sínir skyldu fylgja honum á braut og konu hans með öllu, sem hann átti.

13 Og Abram fór frá Egyptalandi með konu sína og allt, sem hann átti, og Lot fór með honum, til Suðurlandsins.

Bréfið til Hebrea 7:18-28

18 Hið fyrra boðorð er þar með ógilt, af því að það var vanmáttugt og gagnslaust.

19 Lögmálið gjörði ekkert fullkomið. En jafnframt er leidd inn betri von. Fyrir hana nálgumst vér Guð.

20 Þetta varð ekki án eiðs. Hinir urðu prestar án eiðs,

21 en hann með eiði, þegar Guð sagði við hann: "Drottinn sór, og ekki mun hann iðra þess: Þú ert prestur að eilífu."

22 Þessi samanburður sýnir, að Jesús er orðinn ábyrgðarmaður betri sáttmála.

23 Enn fremur urðu hinir prestarnir margir af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram.

24 En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti.

25 Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim.

26 Slíks æðsta prests höfðum vér þörf, sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri.

27 Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gjörði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér.

28 Lögmálið skipar menn æðstu presta, sem eru veikleika háðir, en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar son, fullkominn gjörðan að eilífu.

Jóhannesarguðspjall 4:27-42

27 Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því, að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: "Hvað viltu?" eða: "Hvað ertu að tala við hana?"

28 Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn:

29 "Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört. Skyldi hann vera Kristur?"

30 Þeir fóru úr borginni og komu til hans.

31 Meðan þessu fór fram, báðu lærisveinarnir hann: "Rabbí, fá þér að eta."

32 Hann svaraði þeim: "Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um."

33 Þá sögðu lærisveinarnir sín á milli: "Skyldi nokkur hafa fært honum að eta?"

34 Jesús sagði við þá: "Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.

35 Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru.

36 Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker.

37 Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp.

38 Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra."

39 Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar, sem vitnaði um það, að hann hefði sagt henni allt, sem hún hafði gjört.

40 Þegar því Samverjarnir komu til hans, báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga.

41 Og miklu fleiri tóku trú, þegar þeir heyrðu hann sjálfan.

42 Þeir sögðu við konuna: "Það er ekki lengur sakir orða þinna, að vér trúum, því að vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society