Book of Common Prayer
38 Davíðssálmur. Minningarljóð.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.
4 Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.
5 Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.
6 Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.
7 Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.
8 Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.
9 Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.
10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.
11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.
12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.
13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.
14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,
15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.
16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,
17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."
18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.
19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,
20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.
21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.
22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,
23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.
25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín.
27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.
28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu.
29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.
30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.
31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.
32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.
33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.
34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.
35 Leið mig götu boða þinna, því að af henni hefi ég yndi.
36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.
37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum.
38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum, sem gefið er þeim er þig óttast.
39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við, því að ákvæði þín eru góð.
40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín, lífga mig með réttlæti þínu.
41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,
42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.
43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.
44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,
45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,
46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,
47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,
48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.
18 Synir Nóa, sem gengu úr örkinni, voru þeir Sem, Kam og Jafet, en Kam var faðir Kanaans.
19 Þessir eru synir Nóa þrír, og frá þeim byggðist öll jörðin.
20 Nói gjörðist akuryrkjumaður og plantaði víngarð.
21 Og hann drakk af víninu og varð drukkinn og lá nakinn í tjaldi sínu.
22 Og Kam, faðir Kanaans, sá nekt föður síns og sagði báðum bræðrum sínum frá, sem úti voru.
23 Þá tóku þeir Sem og Jafet skikkjuna og lögðu á herðar sér og gengu aftur á bak og huldu nekt föður síns, en andlit þeirra sneru undan, svo að þeir sáu ekki nekt föður síns.
24 Er Nói vaknaði af vímunni, varð hann þess áskynja, hvað sonur hans hinn yngri hafði gjört honum.
25 Þá mælti hann: Bölvaður sé Kanaan, auvirðilegur þræll sé hann bræðra sinna.
26 Og hann sagði: Lofaður sé Drottinn, Sems Guð, en Kanaan sé þræll þeirra.
27 Guð gefi Jafet mikið landrými, og hann búi í tjaldbúðum Sems, en Kanaan sé þræll þeirra.
28 Nói lifði eftir flóðið þrjú hundruð og fimmtíu ár.
29 Og allir dagar Nóa voru níu hundruð og fimmtíu ár. Þá andaðist hann.
6 Þess vegna skulum vér sleppa byrjunar-kenningunum um Krist og sækja fram til fullkomleikans.
2 Vér förum ekki að byrja aftur á undirstöðuatriðum eins og afturhvarfi frá dauðum verkum og trú á Guð, kenningunni um skírnir og handayfirlagningar, upprisu dauðra og eilífan dóm.
3 Og þetta munum vér gjöra, ef Guð lofar.
4 Ef menn eru eitt sinn orðnir upplýstir og hafa smakkað hina himnesku gjöf, fengið hlutdeild í heilögum anda
5 og reynt Guðs góða orð og krafta komandi aldar,
6 en hafa síðan fallið frá, þá er ógerlegt að endurnýja þá til afturhvarfs. Þeir eru að krossfesta Guðs son að nýju og smána hann.
7 Jörð sú, er drukkið hefur í sig regnið, sem á hana fellur hvað eftir annað, og ber gróður til gagns fyrir þá, sem yrkja hana, fær blessun frá Guði.
8 En beri hún þyrna og þistla, er hún ónýt. Yfir henni vofir bölvun og hennar bíður að lokum að verða brennd.
9 En hvað yður snertir, þér elskaðir, þá erum vér sannfærðir um að yður er betur farið og þér nær hjálpræðinu, þó að vér mælum svo.
10 Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.
11 Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan allt til enda, þar til von yðar fullkomnast.
12 Gjörist ekki sljóir. Breytið heldur eftir þeim, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin.
22 Eftir þetta fór Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði.
23 Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím, en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast.
24 Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi.
25 Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins.
26 Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: "Rabbí, sá sem var hjá þér handan við Jórdan og þú barst vitni um, hann er að skíra, og allir koma til hans."
27 Jóhannes svaraði þeim: "Enginn getur tekið neitt, nema honum sé gefið það af himni.
28 Þér getið sjálfir vitnað um, að ég sagði: ,Ég er ekki Kristur, heldur er ég sendur á undan honum.`
29 Sá er brúðguminn, sem á brúðina, en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu.
30 Hann á að vaxa, en ég að minnka.
31 Sá sem kemur að ofan, er yfir öllum. Sá sem er af jörðu, hann er af jörðu og talar af jörðu. Sá sem kemur af himni, er yfir öllum
32 og vitnar um það, sem hann hefur séð og heyrt, og enginn tekur á móti vitnisburði hans.
33 En sá sem hefur tekið á móti vitnisburði hans, hefur staðfest, að Guð sé sannorður.
34 Sá sem Guð sendi, talar Guðs orð, því ómælt gefur Guð andann.
35 Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hönd honum.
36 Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum."
by Icelandic Bible Society