Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 148-150

148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.

Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.

Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.

Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.

Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.

Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.

Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,

eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,

fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,

10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,

11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,

12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!

13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.

14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.

149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.

Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.

Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.

Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.

Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum

með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum

til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,

til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,

til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.

150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!

Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!

Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!

Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!

Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!

Sálmarnir 114-115

114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,

varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.

Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.

Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.

Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,

þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?

Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,

hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.

115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.

Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"

En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.

Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.

Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.

Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.

Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.

En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,

13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.

14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.

15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.

16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.

17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,

18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.

Fyrsta bók Móse 7:1-10

Drottinn sagði við Nóa: "Gakk þú og allt fólk þitt í örkina, því að þig hefi ég séð réttlátan fyrir augliti mínu í þessari kynslóð.

Tak þú til þín af öllum hreinum dýrum sjö og sjö, karldýr og kvendýr, en af þeim dýrum, sem ekki eru hrein, tvö og tvö, karldýr og kvendýr.

Einnig af fuglum loftsins sjö og sjö, karlkyns og kvenkyns, til að viðhalda lífsstofni á allri jörðinni.

Því að sjö dögum liðnum mun ég láta rigna á jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og ég mun afmá af jörðinni sérhverja skepnu, sem ég hefi gjört."

Og Nói gjörði allt eins og Drottinn bauð honum.

En Nói var sex hundruð ára gamall, þegar vatnsflóðið kom yfir jörðina.

Og Nói gekk í örkina, og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum, undan vatnsflóðinu.

Af hreinum dýrum og af þeim dýrum, sem ekki voru hrein, og af fuglum og af öllu, sem skríður á jörðinni,

kom tvennt og tvennt til Nóa í örkina, karlkyns og kvenkyns, eins og Guð hafði boðið Nóa.

10 Eftir sjö daga kom vatnsflóðið yfir jörðina.

Fyrsta bók Móse 7:17-23

17 Og flóðið var á jörðinni fjörutíu daga. Vatnið óx og lyfti örkinni, og hún hófst yfir jörðina.

18 Og vötnin mögnuðust og uxu stórum á jörðinni, en örkin flaut ofan á vatninu.

19 Og vötnin mögnuðust ákaflega á jörðinni, svo að öll hin háu fjöll, sem eru undir öllum himninum, fóru í kaf.

20 Fimmtán álna hátt óx vatnið, svo að fjöllin fóru í kaf.

21 Þá dó allt hold, sem hreyfðist á jörðinni, bæði fuglar, fénaður, villidýr og allir ormar, sem skriðu á jörðinni, og allir menn.

22 Allt sem hafði lífsanda í nösum sínum, allt sem var á þurrlendinu, það dó.

23 Og þannig afmáði hann sérhverja skepnu, sem var á jörðinni, bæði menn og fénað, skriðkvikindi og fugla loftsins. Það var afmáð af jörðinni. En Nói einn varð eftir, og það sem með honum var í örkinni.

Bréf Páls til Efesusmanna 4:1-16

Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið.

Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika.

Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.

Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar.

Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn,

einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.

Sérhverjum af oss var náðin veitt eftir því, sem Kristur úthlutaði honum.

Því segir ritningin: "Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir." (

En "steig upp", hvað merkir það annað en að hann hefur einnig stigið niður í djúp jarðarinnar?

10 Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fylla allt.)

11 Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar.

12 Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar,

13 þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.

14 Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.

15 Vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, _ Kristur.

16 Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.

Markúsarguðspjall 3:7-19

Jesús fór með lærisveinum sínum út að vatninu, og fylgdi mikill fjöldi úr Galíleu og úr Júdeu,

frá Jerúsalem, Ídúmeu, landinu handan Jórdanar, og úr byggðum Týrusar og Sídonar kom til hans fjöldi manna, er heyrt höfðu, hve mikið hann gjörði.

Og hann bauð lærisveinum sínum að hafa til bát fyrir sig, svo að mannfjöldinn þrengdi eigi að honum.

10 En marga hafði hann læknað, og því þustu að honum allir þeir, sem einhver mein höfðu, til að snerta hann.

11 Og hvenær sem óhreinir andar sáu hann, féllu þeir fram fyrir honum og æptu upp: "Þú ert sonur Guðs."

12 En hann lagði ríkt á við þá, að þeir gjörðu hann eigi kunnan.

13 Síðan fór hann til fjalls og kallaði til sín þá er hann sjálfur vildi, og þeir komu til hans.

14 Hann skipaði tólf, er skyldu vera með honum og hann gæti sent út að prédika,

15 með valdi að reka út illa anda.

16 Hann skipaði þá tólf: Símon, er hann gaf nafnið Pétur,

17 Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, en þeim gaf hann nafnið Boanerges, sem þýðir þrumusynir,

18 og Andrés, Filippus og Bartólómeus, Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson, Taddeus og Símon vandlætara

19 og Júdas Ískaríot, þann er sveik hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society