Book of Common Prayer
20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.
3 Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.
4 Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]
5 Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.
6 Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.
7 Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.
8 Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.
9 Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.
10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.
21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!
3 Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]
4 Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.
5 Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.
6 Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.
7 Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.
8 Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.
9 Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.
10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.
11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,
12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.
13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.
14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!
110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."
2 Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!
3 Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.
4 Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."
5 Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.
6 Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.
7 Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.
116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.
3 Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.
4 Þá ákallaði ég nafn Drottins: "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"
5 Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.
6 Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.
7 Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.
8 Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.
9 Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.
10 Ég trúði, þó ég segði: "Ég er mjög beygður."
11 Ég sagði í angist minni: "Allir menn ljúga."
12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?
13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.
14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.
15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.
16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.
17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.
18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,
19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.
117 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir,
2 því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.
9 Þetta er saga Nóa: Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði.
10 Og Nói gat þrjá sonu: Sem, Kam og Jafet.
11 Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum.
12 Og Guð leit á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.
13 Þá mælti Guð við Nóa: "Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni.
14 Gjör þú þér örk af góferviði. Smáhýsi skalt þú gjöra í örkinni og bræða hana biki utan og innan.
15 Og gjör hana svo: Lengd arkarinnar sé þrjú hundruð álnir, breidd hennar fimmtíu álnir og hæð hennar þrjátíu álnir.
16 Glugga skalt þú gjöra á örkinni og búa hann til á henni ofanverðri, allt að alin á hæð, og dyr arkarinnar skalt þú setja á hlið hennar og búa til þrjú loft í henni: neðst, í miðju og efst.
17 Því sjá, ég læt vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi er í. Allt, sem á jörðinni er, skal deyja.
18 En við þig mun ég gjöra sáttmála minn, og þú skalt ganga í örkina, þú og synir þínir, og kona þín og sonakonur þínar með þér.
19 Af öllum lifandi skepnum, af öllu holdi, skalt þú láta inn í örkina tvennt af hverju, svo að það haldi lífi með þér. Karldýr og kvendýr skulu þau vera:
20 Af fuglunum eftir þeirra tegund, af fénaðinum eftir hans tegund og af öllum skriðkvikindum jarðarinnar eftir þeirra tegund. Tvennt af öllu skal til þín inn ganga, til þess að það haldi lífi.
21 En tak þú þér af allri fæðu, sem etin er, og safna að þér, að það sé þér og þeim til viðurværis."
22 Og Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.
4 Fyrirheitið um það að ganga inn til hvíldar hans stendur enn, vörumst því að nokkur yðar verði til þess að dragast aftur úr.
2 Fagnaðarerindið var oss boðað eigi síður en þeim. En orðið, sem þeir heyrðu, kom þeim eigi að haldi vegna þess, að þeir tóku ekki við því í trú.
3 En vér, sem trú höfum tekið, göngum inn til hvíldarinnar eins og hann hefur sagt: "Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar." Þó voru verk Guðs fullgjör frá grundvöllun heims.
4 Því að einhvers staðar er svo að orði kveðið um hinn sjöunda dag: "Og Guð hvíldist hinn sjöunda dag eftir öll verk sín."
5 Og aftur á þessum stað: "Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar."
6 Enn stendur því til boða, að nokkrir gangi inn til hvíldar Guðs. Þeir, sem fagnaðarerindið var fyrr boðað, gengu ekki inn sakir óhlýðni.
7 Því ákveður Guð aftur dag einn, er hann segir löngu síðar fyrir munn Davíðs: "Í dag." Eins og fyrr hefur sagt verið: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar."
8 Hefði Jósúa leitt þá til hvíldar, þá hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag.
9 Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.
10 Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk.
11 Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.
12 Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.
13 Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.
13 Nú fóru páskar Gyðinga í hönd, og Jesús hélt upp til Jerúsalem.
14 Þar sá hann í helgidóminum þá, er seldu naut, sauði og dúfur, og víxlarana, sem sátu þar.
15 Þá gjörði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra,
16 og við dúfnasalana sagði hann: "Burt með þetta héðan. Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð."
17 Lærisveinum hans kom í hug, að ritað er: "Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp."
18 Gyðingar sögðu þá við hann: "Hvaða tákn getur þú sýnt oss um það, að þú megir gjöra þetta?"
19 Jesús svaraði þeim: "Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum."
20 Þá sögðu Gyðingar: "Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum, og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!"
21 En hann var að tala um musteri líkama síns.
22 Þegar hann var risinn upp frá dauðum, minntust lærisveinar hans, að hann hafði sagt þetta, og trúðu ritningunni og orðinu, sem Jesús hafði talað.
by Icelandic Bible Society