Book of Common Prayer
16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.
2 Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."
3 Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.
4 Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.
5 Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.
6 Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.
7 Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.
8 Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.
9 Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,
10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.
11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.
3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.
6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.
8 Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna
9 fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.
10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.
11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.
12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.
13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.
14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.
2 Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.
3 "Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.
4 Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.
5 Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,
6 til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.
7 En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.
8 Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.
9 "Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"
10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.
11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.
12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.
13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.
14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.
15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;
16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.
17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.
18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,
19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.
20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,
21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.
22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!
23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!
24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!
25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.
26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.
27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.
28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.
29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.
30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,
31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,
32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.
6 Er mönnunum tók að fjölga á jörðinni og þeim fæddust dætur,
2 sáu synir Guðs, að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust.
3 Þá sagði Drottinn: "Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold. Veri dagar hans nú hundrað og tuttugu ár."
4 Á þeim tímum voru risarnir á jörðinni, og einnig síðar, er synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og þær fæddu þeim sonu. Það eru kapparnir, sem í fyrndinni voru víðfrægir.
5 Er Drottinn sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga,
6 þá iðraðist Drottinn þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu.
7 Og Drottinn sagði: "Ég vil afmá af jörðinni mennina, sem ég skapaði, bæði mennina, fénaðinn, skriðkvikindin og fugla loftsins, því að mig iðrar, að ég hefi skapað þau."
8 En Nói fann náð í augum Drottins.
12 Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði.
13 Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir "í dag", til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar.
14 Því að vér erum orðnir hluttakar Krists, svo framarlega sem vér höldum staðfastlega allt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi.
15 Sagt er: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í uppreisninni" _
16 Hverjir voru þá þeir, sem heyrt höfðu og gjörðu þó uppreisn? Voru það ekki einmitt allir þeir, sem út höfðu farið af Egyptalandi fyrir tilstilli Móse?
17 Og hverjum "var hann gramur í fjörutíu ár"? Var það ekki þeim, sem syndgað höfðu og báru beinin á eyðimörkinni?
18 Og hverjum "sór hann, að eigi skyldu þeir ganga inn til hvíldar hans," nema hinum óhlýðnu?
19 Vér sjáum, að sakir vantrúar fengu þeir eigi gengið inn.
2 Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar.
2 Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans.
3 En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: "Þeir hafa ekki vín."
4 Jesús svarar: "Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn."
5 Móðir hans sagði þá við þjónana: "Gjörið það, sem hann kann að segja yður."
6 Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.
7 Jesús segir við þá: "Fyllið kerin vatni." Þeir fylltu þau á barma.
8 Síðan segir hann: "Ausið nú af og færið veislustjóra." Þeir gjörðu svo.
9 Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann
10 og sagði: "Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú."
11 Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann.
12 Eftir þetta fór hann ofan til Kapernaum ásamt móður sinni, bræðrum og lærisveinum. Þar voru þau nokkra daga.
by Icelandic Bible Society