Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 5-6

Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.

Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.

Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.

Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.

Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.

Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.

Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.

En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.

Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér.

10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir.

11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.

12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér.

13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.

Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.

Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?

Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?

Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.

Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.

Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.

10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.

11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.

Sálmarnir 10-11

10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?

Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.

Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.

Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.

Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.

Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."

Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.

Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.

Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.

10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.

11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."

12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.

13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?

14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.

15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.

16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.

17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.

18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.

11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"

Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.

Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?

Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.

Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.

Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.

Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.

Fyrsta bók Móse 3

Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: "Er það satt, að Guð hafi sagt: ,Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum`?"

Þá sagði konan við höggorminn: "Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta,

en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ,af honum,` sagði Guð, ,megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja."`

Þá sagði höggormurinn við konuna: "Vissulega munuð þið ekki deyja!

En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills."

En er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át.

Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur.

En er þau heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum, þá reyndi maðurinn og kona hans að fela sig fyrir Drottni Guði millum trjánna í aldingarðinum.

Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: "Hvar ertu?"

10 Hann svaraði: "Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig."

11 En hann mælti: "Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?"

12 Þá svaraði maðurinn: "Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át."

13 Þá sagði Drottinn Guð við konuna: "Hvað hefir þú gjört?" Og konan svaraði: "Höggormurinn tældi mig, svo að ég át."

14 Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: "Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skalt þú skríða og mold eta alla þína lífdaga.

15 Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess."

16 En við konuna sagði hann: "Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér."

17 Og við manninn sagði hann: "Af því að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af því tré, sem ég bannaði þér, er ég sagði: ,Þú mátt ekki eta af því,` þá sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga.

18 Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar.

19 Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!"

20 Og maðurinn nefndi konu sína Evu, því að hún varð móðir allra, sem lifa.

21 Og Drottinn Guð gjörði manninum og konu hans skinnkyrtla og lét þau klæðast þeim.

22 Drottinn Guð sagði: "Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!"

23 Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af.

24 Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.

Bréfið til Hebrea 2:1-10

Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis.

Því að hafi orðið af englum talað reynst stöðugt og hvert afbrot og óhlýðni hlotið réttlátt endurgjald,

hvernig fáum vér þá undan komist, ef vér vanrækjum slíkt hjálpræði sem Drottinn flutti fyrst og var staðfest fyrir oss af þeim, er heyrðu?

Guð bar jafnframt vitni með þeim með táknum og undrum og margs konar kraftaverkum og gjöfum heilags anda, sem hann útbýtti að vild sinni.

Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim, sem vér tölum um.

Einhvers staðar er vitnað: Hvað er maður, að þú minnist hans? Eða mannssonur, að þú vitjir hans?

Skamma stund gjörðir þú hann englunum lægri. Þú hefur krýnt hann vegsemd og heiðri. Og þú hefur skipað hann yfir verk handa þinna.

Allt hefur þú lagt undir fætur hans. Með því að leggja allt undir hann, þá hefur hann ekkert það eftir skilið, er ekki sé undir hann lagt. Ennþá sjáum vér ekki, að allir hlutir séu undir hann lagðir.

En vér sjáum, að Jesús, sem "skamma stund var gjörður englunum lægri," er "krýndur vegsemd og heiðri" vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla.

10 Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis.

Jóhannesarguðspjall 1:19-28

19 Þessi er vitnisburður Jóhannesar, þegar Gyðingar sendu til hans presta og levíta frá Jerúsalem að spyrja hann: "Hver ert þú?"

20 Hann svaraði ótvírætt og játaði: "Ekki er ég Kristur."

21 Þeir spurðu hann: "Hvað þá? Ertu Elía?" Hann svarar: "Ekki er ég hann." "Ertu spámaðurinn?" Hann kvað nei við.

22 Þá sögðu þeir við hann: "Hver ertu? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig?"

23 Hann sagði: "Ég er rödd hrópanda í eyðimörk: Gjörið beinan veg Drottins, eins og Jesaja spámaður segir."

24 Sendir voru menn af flokki farísea.

25 Þeir spurðu hann: "Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?"

26 Jóhannes svaraði: "Ég skíri með vatni. Mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki,

27 hann, sem kemur eftir mig, og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa."

28 Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society