Book of Common Prayer
1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
2 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."
4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."
7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."
10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
3 Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.
2 Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.
3 Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]
4 En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.
5 Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]
6 Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.
7 Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.
8 Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.
9 Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]
4 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.
2 Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína.
3 Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]
4 Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.
5 Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela]
6 Færið réttar fórnir og treystið Drottni.
7 Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?" Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.
8 Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.
9 Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.
7 Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.
2 Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,
3 svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.
4 Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,
5 hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,
6 þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]
7 Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.
8 Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.
9 Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.
10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!
11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.
12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.
13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,
14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.
15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.
16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.
17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.
18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.
4 Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar, er þau voru sköpuð.
5 Þegar Drottinn Guð gjörði jörðina og himininn, var enn alls enginn runnur merkurinnar til á jörðinni, og engar jurtir spruttu enn á mörkinni, því að Drottinn Guð hafði ekki enn látið rigna á jörðina og engir menn voru til þess að yrkja hana,
6 en þoku lagði upp af jörðinni, og vökvaði hún allt yfirborð jarðarinnar.
7 Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.
8 Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað.
9 Og Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills.
10 Fljót rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og þaðan kvíslaðist það og varð að fjórum stórám.
11 Hin fyrsta heitir Píson; hún fellur um allt landið Havíla, þar sem gullið fæst.
12 Og gull lands þess er gott. Þar fæst bedolakharpeis og sjóamsteinar.
13 Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland.
14 Þriðja stóráin heitir Kíddekel. Hún fellur fyrir vestan Assýríu. Fjórða stóráin er Efrat.
15 Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.
16 Og Drottinn Guð bauð manninum og sagði: "Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild,
17 en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja."
18 Drottinn Guð sagði: "Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi."
19 Þá myndaði Drottinn Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra.
20 Og maðurinn gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar. En meðhjálp fyrir mann fann hann enga við sitt hæfi.
21 Þá lét Drottinn Guð fastan svefn falla á manninn. Og er hann var sofnaður, tók hann eitt af rifjum hans og fyllti aftur með holdi.
22 Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu, er hann hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins.
23 Þá sagði maðurinn: "Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin."
24 Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.
25 Og þau voru bæði nakin, maðurinn og kona hans, og blygðuðust sín ekki.
1 Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna.
2 En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört.
3 Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði oss af syndum vorum og settist til hægri handar hátigninni á hæðum.
4 Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir.
5 Því við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig. Eða: Ég vil vera honum faðir, og hann skal vera mér sonur!
6 Og aftur er hann leiðir hinn frumgetna inn í heimsbyggðina segir hann: Og allir englar Guðs skulu tilbiðja hann.
7 Og um englana segir hann: Hann sem gjörir engla sína að vindum og þjóna sína að eldslogum.
8 En um soninn: Hásæti þitt, ó Guð, er um aldir alda, og sproti réttvísinnar er sproti ríkis þíns.
9 Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti. Því hefur Guð, þinn Guð, smurt þig gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja.
10 Og: Þú, Drottinn, hefur í upphafi grundvallað jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
11 Þeir munu farast, en þú varir. Allir munu þeir fyrnast sem fat,
12 og þú munt þá saman vefja eins og möttul, um þá verður skipt sem klæði. En þú ert hinn sami, og þín ár taka aldrei enda.
13 En við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Set þig mér til hægri handar, uns ég gjöri óvini þína að fótskör þinni?
14 Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?
1 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.
2 Hann var í upphafi hjá Guði.
3 Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.
4 Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.
5 Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.
6 Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.
7 Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.
8 Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
9 Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.
10 Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.
11 Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.
12 En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.
13 Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.
14 Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.
15 Jóhannes vitnar um hann og hrópar: "Þetta er sá sem ég átti við, þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig, var á undan mér, enda fyrri en ég."
16 Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan.
17 Lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist.
18 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.
by Icelandic Bible Society