Book of Common Prayer
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.
2 Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.
3 Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.
5 Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,
6 því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.
7 Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.
8 Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.
9 Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.
10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.
113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.
2 Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.
3 Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.
4 Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.
5 Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt
6 og horfir djúpt á himni og á jörðu.
7 Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum
8 og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.
9 Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.
1 Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.
2 Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum.
3 Guð sagði: "Verði ljós!" Og það varð ljós.
4 Guð sá, að ljósið var gott, og Guð greindi ljósið frá myrkrinu.
5 Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.
6 Guð sagði: "Verði festing milli vatnanna, og hún greini vötn frá vötnum."
7 Þá gjörði Guð festinguna og greindi vötnin, sem voru undir festingunni, frá þeim vötnum, sem voru yfir henni. Og það varð svo.
8 Og Guð kallaði festinguna himin. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn annar dagur.
9 Guð sagði: "Safnist vötnin undir himninum í einn stað, svo að þurrlendið sjáist." Og það varð svo.
10 Guð kallaði þurrlendið jörð, en safn vatnanna kallaði hann sjó. Og Guð sá, að það var gott.
11 Guð sagði: "Láti jörðin af sér spretta græn grös, sáðjurtir og aldintré, sem hvert beri ávöxt eftir sinni tegund með sæði í á jörðinni." Og það varð svo.
12 Jörðin lét af sér spretta græn grös, jurtir með sæði í, hverja eftir sinni tegund, og aldintré með sæði í sér, hvert eftir sinni tegund. Og Guð sá, að það var gott.
13 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn þriðji dagur.
14 Guð sagði: "Verði ljós á festingu himinsins, að þau greini dag frá nóttu og séu til tákns og til að marka tíðir, daga og ár.
15 Og þau séu ljós á festingu himinsins til að lýsa jörðina." Og það varð svo.
16 Guð gjörði tvö stóru ljósin: hið stærra ljósið til að ráða degi og hið minna ljósið til að ráða nóttu, svo og stjörnurnar.
17 Og Guð setti þau á festingu himinsins, að þau skyldu lýsa jörðinni
18 og ráða degi og nóttu og greina sundur ljós og myrkur. Og Guð sá, að það var gott.
19 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fjórði dagur.
20 Guð sagði: "Vötnin verði kvik af lifandi skepnum, og fuglar fljúgi yfir jörðina undir festingu himinsins."
21 Þá skapaði Guð hin stóru lagardýr og allar hinar lifandi skepnur, sem hrærast og vötnin eru kvik af, eftir þeirra tegund, og alla fleyga fugla eftir þeirra tegund. Og Guð sá, að það var gott.
22 Og Guð blessaði þau og sagði: "Frjóvgist og vaxið og fyllið vötn sjávarins, og fuglum fjölgi á jörðinni."
23 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fimmti dagur.
24 Guð sagði: "Jörðin leiði fram lifandi skepnur, hverja eftir sinni tegund: fénað, skriðkvikindi og villidýr, hvert eftir sinni tegund." Og það varð svo.
25 Guð gjörði villidýrin, hvert eftir sinni tegund, fénaðinn eftir sinni tegund og alls konar skriðkvikindi jarðarinnar eftir sinni tegund. Og Guð sá, að það var gott.
26 Guð sagði: "Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni."
27 Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.
28 Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: "Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni."
29 Og Guð sagði: "Sjá, ég gef ykkur alls konar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og alls konar tré, sem bera ávöxtu með sæði í. Það sé ykkur til fæðu.
30 Og öllum villidýrum og öllum fuglum loftsins og öllum skriðkvikindum á jörðinni, öllu því, sem hefir lifandi sál, gef ég öll grös og jurtir til fæðu." Og það varð svo.
31 Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur.
2 Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði.
2 Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört.
3 Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem í Kristi hefur blessað oss með hvers konar andlegri blessun í himinhæðum.
4 Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum. Í kærleika sínum
5 ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun
6 til vegsemdar dýrð hans og náð, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni.
7 Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra.
8 Svo auðug er náð hans, sem hann gaf oss ríkulega með hvers konar vísdómi og skilningi.
9 Og hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun,
10 sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.
11 Í honum höfum vér þá líka öðlast arfleifðina, eins og oss var fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans, er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns,
12 til þess að vér, sem áður höfum sett von vora til Krists, skyldum vera dýrð hans til vegsemdar.
13 Í honum eruð og þér, eftir að hafa heyrt orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann og verið merktir innsigli heilags anda, sem yður var fyrirheitið.
14 Hann er pantur arfleifðar vorrar, að vér verðum endurleystir Guði til eignar, dýrð hans til vegsemdar.
29 Daginn eftir sér hann Jesú koma til sín og segir: "Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.
30 Þar er sá er ég sagði um: ,Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.`
31 Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael."
32 Og Jóhannes vitnaði: "Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum.
33 Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ,Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.`
34 Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs."
by Icelandic Bible Society