Book of Common Prayer
85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.
2 Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,
3 þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]
4 Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.
5 Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.
6 Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?
7 Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?
8 Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!
9 Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.
10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.
11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.
12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.
13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.
14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.
87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.
2 Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.
3 Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]
4 Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.
5 En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.
6 Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]
7 Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."
89 Etans-maskíl Esraíta.
2 Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,
3 því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.
4 Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:
5 "Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]
6 Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.
7 Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?
8 Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.
9 Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.
10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.
11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.
12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.
13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.
14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.
15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.
16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.
17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu,
18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,
19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.
20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.
21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.
22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.
23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,
24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.
25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.
26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.
27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.
28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.
29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.
14 Fólkið tók sig nú upp úr tjöldum sínum til þess að fara yfir um Jórdan, og prestarnir, sem báru sáttmálsörkina, fóru fyrir lýðnum.
15 Og er þeir, sem örkina báru, komu að Jórdan, og prestarnir, sem báru örkina, drápu fótum sínum í vatnsbrúnina (en Jórdan flóði yfir alla bakka allan kornskurðartímann),
16 þá stóð vatnið kyrrt, það er ofan að kom, og hófst upp sem veggur mjög langt burtu, við Adam, borgina, sem liggur hjá Sartan. En það sem rann niður til vatnsins á sléttlendinu, Saltasjós, rann allt til þurrðar. Og lýðurinn fór yfir um gegnt Jeríkó.
17 En prestarnir, sem báru sáttmálsörk Drottins, stóðu kyrrir á þurru mitt í Jórdan, meðan allur Ísrael fór yfir um á þurru, þar til er allt fólkið var komið yfir um Jórdan.
4 Er allt fólkið var komið yfir um Jórdan, mælti Drottinn við Jósúa á þessa leið:
2 "Veljið yður tólf menn af lýðnum, einn mann af ættkvísl hverri,
3 og bjóðið þeim og segið: Takið upp tólf steina hér úr Jórdan miðri, á þeim stað, þar sem prestarnir stóðu kyrrir, og berið þá yfir um með yður og setjið þá niður þar sem þér hafið náttstað í nótt."
4 Þá kallaði Jósúa tólf menn, sem hann kvaddi til af Ísraelsmönnum, einn mann af ættkvísl hverri.
5 Og Jósúa sagði við þá: "Farið fyrir örk Drottins, Guðs yðar, út í Jórdan miðja, og taki hver yðar einn stein sér á herðar, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna.
6 Skal þetta vera tákn meðal yðar. Þegar synir yðar spyrja á síðan og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?`
7 þá skuluð þér segja við þá: ,Það, að vatnið í Jórdan stöðvaðist fyrir sáttmálsörk Drottins, þá er hún fór yfir Jórdan. Vatnið í Jórdan stöðvaðist, og þessir steinar skulu vera Ísraelsmönnum til minningar ævinlega."`
5 Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.
2 Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.
3 En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum.
4 Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð.
5 Því að það skuluð þér vita og festa yður í minni, að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn, _ sem er sama og að dýrka hjáguði _, á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.
6 Enginn tæli yður með marklausum orðum, því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá, sem hlýða honum ekki.
7 Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra.
8 Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. _
9 Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. _
10 Metið rétt, hvað Drottni þóknast.
11 Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim.
12 Því að það, sem slíkir menn fremja í leyndum, er jafnvel svívirðilegt um að tala.
13 En allt það, sem ljósið flettir ofan af, verður augljóst. Því að allt, sem er augljóst, er ljós.
14 Því segir svo: Vakna þú, sem sefur, og rís upp frá dauðum, og þá mun Kristur lýsa þér.
15 Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir.
16 Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.
17 Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins.
18 Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum,
19 og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar,
20 og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.
9 Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu.
2 Lærisveinar hans spurðu hann: "Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?"
3 Jesús svaraði: "Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.
4 Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið.
5 Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins."
6 Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans
7 og sagði við hann: "Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam." (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.
8 Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: "Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?"
9 Sumir sögðu: "Sá er maðurinn," en aðrir sögðu: "Nei, en líkur er hann honum." Sjálfur sagði hann: "Ég er sá."
10 Þá sögðu þeir við hann: "Hvernig opnuðust augu þín?"
11 Hann svaraði: "Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér."
12 Þeir sögðu við hann: "Hvar er hann?" Hann svaraði: "Það veit ég ekki."
35 Jesús heyrði, að þeir hefðu rekið hann út. Hann fann hann og sagði við hann: "Trúir þú á Mannssoninn?"
36 Hinn svaraði: "Herra, hver er sá, að ég megi trúa á hann?"
37 Jesús sagði við hann: "Þú hefur séð hann, hann er sá sem er nú að tala við þig."
38 En hann sagði: "Ég trúi, herra," og féll fram fyrir honum.
by Icelandic Bible Society