Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 68

68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.

Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.

En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.

Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.

Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.

Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.

Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]

þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.

10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.

11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.

12 Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her:

13 "Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi.

14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli."

15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon.

16 Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall.

17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?

18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.

19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.

20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]

21 Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.

22 Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna, hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni.

23 Drottinn hefir sagt: "Ég vil sækja þá til Basan, flytja þá frá djúpi hafsins,

24 að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum."

25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.

26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.

27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.

28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.

29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss

30 frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir.

31 Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!

32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.

33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, [Sela]

34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.

35 Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum.

36 Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum, Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin. Lofaður sé Guð!

Sálmarnir 72

72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,

að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.

Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.

Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.

Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.

Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.

Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.

Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.

Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.

10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.

11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.

12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.

13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.

14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.

15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.

16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.

17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.

18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,

19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.

20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.

Fyrri bók konunganna 19:9-18

Þar gekk hann inn í helli og hafðist þar við um nóttina. Þá kom orð Drottins til hans: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?"

10 Hann svaraði: "Ég hefi verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar, því að Ísraelsmenn hafa virt að vettugi sáttmála þinn, rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði, svo að ég er einn eftir orðinn, og sitja þeir nú um líf mitt."

11 Þá sagði Drottinn: "Gakk þú út og nem staðar á fjallinu frammi fyrir mér." Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum.

12 Og eftir storminn kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum. Og eftir landskjálftann kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla.

13 Og er Elía heyrði það, huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og nam staðar við hellisdyrnar. Sjá, þá barst rödd að eyrum honum og mælti: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?"

14 Hann svaraði: "Ég hefi verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar, því að Ísraelsmenn hafa virt að vettugi sáttmála þinn, rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði, svo að ég er einn eftir orðinn, og sitja þeir nú um líf mitt."

15 En Drottinn sagði við hann: "Far þú aftur leiðar þinnar til Damaskuseyðimerkur og far inn í borgina og smyr Hasael til konungs yfir Sýrland.

16 Jehú Nimsíson skalt þú smyrja til konungs yfir Ísrael, og Elísa Safatsson frá Abel Mehóla skalt þú smyrja til spámanns í þinn stað.

17 Hvern þann, er kemst undan sverði Hasaels, mun Jehú drepa, og hvern þann, er kemst undan sverði Jehú, mun Elísa drepa.

18 Þó vil ég láta eftir verða í Ísrael sjö þúsundir, öll þau kné, sem eigi hafa beygt sig fyrir Baal, og alla þá munna, er eigi hafa kysst hann."

Bréf Páls til Efesusmanna 4:17-32

17 Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus,

18 skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta.

19 Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.

20 En svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist.

21 Því að ég veit, að þér hafið heyrt um hann og hafið verið um hann fræddir eins og sannleikurinn er í Jesú:

22 Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum,

23 en endurnýjast í anda og hugsun og

24 íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

25 Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.

26 Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.

27 Gefið djöflinum ekkert færi.

28 Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.

29 Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.

30 Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins.

31 Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.

32 Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Jóhannesarguðspjall 6:15-27

15 Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.

16 Þegar kvöld var komið, fóru lærisveinar hans niður að vatninu,

17 stigu út í bát og lögðu af stað yfir um vatnið til Kapernaum. Myrkur var skollið á, og Jesús var ekki enn kominn til þeirra.

18 Vind gerði hvassan, og tók vatnið að æsast.

19 Þegar þeir höfðu róið hér um bil tuttugu og fimm eða þrjátíu skeiðrúm, sáu þeir Jesú gangandi á vatninu og nálgast bátinn. Þeir urðu hræddir,

20 en hann sagði við þá: "Það er ég, óttist eigi."

21 Þeir vildu þá taka hann í bátinn, en í sömu svifum rann báturinn að landi, þar sem þeir ætluðu að lenda.

22 Daginn eftir sá fólkið, sem eftir var handan vatnsins, að þar hafði ekki verið nema einn bátur og að Jesús hafði ekki stigið í bátinn með lærisveinum sínum, heldur höfðu þeir farið burt einir saman.

23 Aðrir bátar komu frá Tíberías í nánd við staðinn, þar sem þeir höfðu etið brauðið, þegar Drottinn gjörði þakkir.

24 Nú sáu menn, að Jesús var ekki þarna fremur en lærisveinar hans. Þeir stigu því í bátana og komu til Kapernaum í leit að Jesú.

25 Þeir fundu hann hinum megin við vatnið og spurðu hann: "Rabbí, nær komstu hingað?"

26 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.

27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society