Book of Common Prayer
45 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.
2 Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans.
3 Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.
4 Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd.
5 Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.
6 Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir.
7 Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.
8 Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.
9 Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.
10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.
11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,
12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.
13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."
14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.
15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.
16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.
17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.
18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.
47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.
2 Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.
3 Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.
4 Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.
5 Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]
6 Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.
7 Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!
8 Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!
9 Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.
10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
2 Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar fjögur horn voru.
2 Þá spurði ég engilinn, sem við mig talaði: "Hvað merkja þessi?" Hann svaraði mér: "Þetta eru hornin, sem tvístrað hafa Júda, Ísrael og Jerúsalem."
3 Því næst lét Drottinn mig sjá fjóra smiði,
4 og er ég spurði: "Hvað ætla þessir að gjöra?" svaraði hann á þessa leið: "Þetta eru hornin, sem tvístruðu Júda svo, að enginn bar höfuð hátt, en þessir eru komnir til þess að skelfa þau, til þess að varpa niður hornum þeirra þjóða, er hófu horn gegn Júdalandi til þess að tvístra því."
5 Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar maður var. Hann hélt á mæliþræði í hendi sér.
6 Þá spurði ég: "Hvert ætlar þú?" Hann svaraði mér: "Að mæla Jerúsalem til þess að sjá, hve löng og hve breið hún er."
7 Þá gekk engillinn, er við mig talaði, allt í einu fram, og annar engill gekk fram á móti honum.
8 Við hann sagði hann: "Hlaup þú og tala þú svo til þessa unga manns: ,Jerúsalem skal liggja opin og ógirt sökum þess fjölda manna og skepna, sem í henni verða,
9 og ég sjálfur skal vera eins og eldveggur kringum hana _ segir Drottinn _ og ég skal sýna mig dýrlegan í henni."`
10 Upp, upp, flýið úr norðurlandinu _ segir Drottinn _ því að ég hefi tvístrað yður í allar áttir _ segir Drottinn.
11 Upp, forðið yður til Síonar, þér sem búið í Babýlon!
12 Svo segir Drottinn allsherjar, hinn vegsamlegi, sem hefir sent mig til þjóðanna sem rændu yður: Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn.
13 Því sjá, ég mun veifa hendi minni yfir þeim, og þá skulu þeir verða þrælum sínum að herfangi, og þér skuluð viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig.
14 Fagna þú og gleð þig, dóttirin Síon! Því sjá, ég kem og vil búa mitt í þér _ segir Drottinn.
15 Á þeim degi munu margar þjóðir ganga Drottni á hönd og verða hans lýður og búa mitt á meðal þín, og þú munt viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til þín.
16 Þá mun Drottinn taka Júda til eignar sem arfleifð sína í hinu heilaga landi og enn útvelja Jerúsalem.
17 Allt hold veri hljótt fyrir Drottni! Því að hann er risinn upp frá sínum heilaga bústað.
14 Og engli safnaðarins í Laódíkeu skalt þú rita: Þetta segir hann, sem er amen, votturinn trúi og sanni, upphaf sköpunar Guðs:
15 Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur.
16 En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum.
17 Þú segir: "Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis." Og þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn.
18 Ég ræð þér, að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú verðir auðugur, og hvít klæði til að skýla þér með, að eigi komi í ljós vanvirða nektar þinnar, og smyrsl að smyrja með augu þín, til þess að þú verðir sjáandi.
19 Alla þá, sem ég elska, tyfta ég og aga. Ver því heilhuga og gjör iðrun.
20 Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.
21 Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.
22 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
32 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd.
33 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum.
34 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.
35 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.
36 En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.
37 Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins.
38 Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina.
39 Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.
40 Þá verða tveir á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.
41 Tvær munu mala á kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin.
42 Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.
43 Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi.
44 Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.
by Icelandic Bible Society