Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 37

37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,

því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,

þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.

Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.

Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.

Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.

10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.

11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.

12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.

13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.

14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.

15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.

16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,

17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.

18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.

19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.

20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.

21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.

22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.

23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans.

24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans.

25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.

26 Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar.

27 Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur,

28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast.

29 Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.

30 Munnur réttláts manns mælir speki og tunga hans talar það sem rétt er.

31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.

32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta og situr um að drepa hann,

33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.

34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.

35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum,

36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans, en hann fannst ekki.

37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum,

38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.

39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.

40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.

Amos 9:1-10

Ég sá Drottin standa við altarið, og hann sagði: Slá þú á súluhöfuðið, svo að þröskuldarnir skjálfi. Brjót þá sundur og kasta í höfuð þeim öllum. Og síðustu leifar þeirra vil ég deyða með sverði, enginn þeirra skal komast undan á flótta og enginn þeirra bjargast.

Þótt þeir brjótist niður í undirheima, þá skal hönd mín sækja þá þangað, þótt þeir stígi upp til himins, þá skal ég steypa þeim ofan þaðan.

Þótt þeir feli sig á Karmeltindi, þá skal ég leita þá þar uppi og sækja þá þangað, og þótt þeir vilji leynast fyrir augum mínum á mararbotni, skal ég þar bjóða höggorminum að bíta þá.

Og þótt þeir fari á undan óvinum sínum í útlegð, skal ég þar bjóða sverðinu að deyða þá, og ég vil beina augum mínum á þá, þeim til óhamingju, en ekki til hamingju.

Drottinn, Guð allsherjar, hann sem snertir jörðina, svo að hún riðar, og allir þeir, sem á henni búa, verða sorgbitnir, svo að hún hefst upp alls staðar eins og Níl-fljótið og lækkar eins og fljótið á Egyptalandi,

hann sem reist hefir á himnum sali sína og grundvallað hvelfing sína á jörðinni, hann sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina _ Drottinn er nafn hans.

Eruð þér, Ísraelsmenn, mér mætari en Blálendingar? _ segir Drottinn. Hefi ég eigi flutt Ísrael af Egyptalandi og Filista frá Kaftór og Sýrlendinga frá Kír?

Sjá, auga Drottins Guðs hvílir á þessu glæpafulla konungsríki. Ég skal afmá það af jörðinni, _ og þó vil ég ekki með öllu afmá Jakobs niðja _ segir Drottinn.

Nei, ég skal svo um bjóða, að Ísraels hús verði hrist út á meðal allra þjóða, eins og korn er hrist í sáldi, án þess að nokkur steinvala falli til jarðar.

10 Allir syndarar þjóðar minnar skulu falla fyrir sverði, þeir sem segja: "Ógæfan mun eigi ná oss né yfir oss koma!"

Opinberun Jóhannesar 2:8-17

Og engli safnaðarins í Smýrnu skalt þú rita: Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi:

Ég þekki þrengingu þína og fátækt _ en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim, sem segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur samkunda Satans.

10 Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.

11 Hver sem eyra hefur, hann heyri, hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.

12 Og engli safnaðarins í Pergamos skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og bitra:

13 Ég veit hvar þú býrð, þar sem hásæti Satans er. Þú heldur stöðugt við nafn mitt og afneitar ekki trúnni á mig, jafnvel ekki á dögum Antípasar, míns trúa vottar, sem deyddur var hjá yður, þar sem Satan býr.

14 En þó hef ég nokkuð á móti þér. Þú hefur hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Bíleams, þess er kenndi Balak að tæla Ísraelsmenn, svo að þeir neyttu kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgðu hór.

15 Þannig hefur þú líka hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Nikólaíta.

16 Gjör því iðrun! Að öðrum kosti kem ég skjótt til þín og mun berjast við þá með sverði munns míns.

17 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun ég gefa af hinu hulda "manna", og ég mun gefa honum hvítan stein, og á steininn ritað nýtt nafn, sem enginn þekkir nema sá, er við tekur.

Matteusarguðspjall 23:13-26

13 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast. [

14 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér etið upp heimili ekkna og flytjið langar bænir að yfirskini. Þér munuð fá því þyngri dóm.]

15 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð.

16 Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: ,Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.`

17 Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið, sem helgar gullið?

18 Þér segið: ,Ef einhver sver við altarið, þá er það ógilt, en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður.`

19 Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið, sem helgar fórnina?

20 Sá sem sver við altarið, sver við það og allt, sem á því er.

21 Sá sem sver við musterið, sver við það og við þann, sem í því býr.

22 Og sá sem sver við himininn, sver við hásæti Guðs og við þann, sem í því situr.

23 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.

24 Blindu leiðtogar, þér síið mýfluguna, en svelgið úlfaldann!

25 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs.

26 Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society