Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 38

38 Davíðssálmur. Minningarljóð.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.

Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.

Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.

Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.

Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.

Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.

Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.

10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.

11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.

12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.

13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.

14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,

15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.

16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,

17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."

18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.

19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,

20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.

21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.

22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,

23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.

Sálmarnir 119:25-48

25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu.

26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín.

27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.

28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu.

29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.

30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.

31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.

32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.

33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.

34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.

35 Leið mig götu boða þinna, því að af henni hefi ég yndi.

36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.

37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum.

38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum, sem gefið er þeim er þig óttast.

39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við, því að ákvæði þín eru góð.

40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín, lífga mig með réttlæti þínu.

41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,

42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.

43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.

44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,

45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,

46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,

47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,

48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.

Amos 8

Drottinn Guð lét þessa sýn bera fyrir mig: Ég sá körfu með sumarávöxtum.

Þá sagði hann: "Hvað sér þú, Amos?" Ég svaraði: "Körfu með sumarávöxtum." Þá sagði Drottinn við mig: "Endirinn er kominn yfir lýð minn Ísrael, ég vil eigi lengur umbera hann.

Og musterissöngmeyjarnar skulu kveina á þeim degi _ segir Drottinn Guð. _ Líkin eru mörg. Alls staðar fleygja menn þeim út í kyrrþey!"

Heyrið þetta, þér sem sundur merjið hina fátæku og ætlið að gjöra út af við alla aumingja í landinu, _

sem segið: "Hvenær mun tunglkomuhátíðin líða, svo að vér megum selja korn, og hvíldardagurinn, svo að vér megum opna kornhlöðurnar?" _ sem minnkið mælinn og hækkið verðið og falsið svikavogina,

og kaupið hina snauðu fyrir silfur og fátæklinginn fyrir eina ilskó, _ sem segið: "Vér seljum þeim aðeins úrganginn úr korninu."

Drottinn hefir svarið við vegsemd Jakobs: Aldrei skal ég gleyma öllu því, er þeir hafa gjört.

Hlaut ekki jörðin að nötra af slíku og allir þeir, sem þar búa, að verða sorgbitnir, svo að hún hófst upp alls staðar eins og Níl-fljótið og lækkaði eins og fljótið á Egyptalandi?

Á þeim degi, _ segir Drottinn Guð _ vil ég láta sólina ganga til viðar um miðjan dag og senda myrkur yfir landið á ljósum degi.

10 Ég vil snúa hátíðum yðar í sorg og öllum ljóðum yðar í harmkvæði, klæða allar mjaðmir í sorgarbúning og gjöra öll höfuð sköllótt. Ég læt það verða eins og sorg eftir einkason og endalok þess sem beiskan dag.

11 Sjá, þeir dagar munu koma, _ segir Drottinn Guð, _ að ég mun senda hungur inn í landið, ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð Drottins,

12 svo að menn skulu reika frá einu hafinu til annars og renna frá norðri til austurs til þess að leita eftir orði Drottins. En þeir skulu ekki finna það.

13 Á þeim degi skulu fríðar meyjar og æskumenn vanmegnast af þorsta.

14 Þeir er sverja við vansæmd Samaríu og segja: "Svo sannarlega sem Guð þinn lifir, Dan!" og: "Svo sannarlega sem Guð þinn lifir, Beerseba!" _ þeir skulu falla og ekki framar á fætur rísa.

Opinberun Jóhannesar 1:17-2:7

17 Þegar ég sá hann, féll ég fyrir fætur honum sem dauður væri. Og hann lagði hægri hönd sína yfir mig og sagði: "Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti

18 og hinn lifandi." Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda, og ég hef lykla dauðans og Heljar.

19 Rita þú nú það er þú hefur séð, bæði það sem er og það sem verða mun eftir þetta.

20 Þessi er leyndardómurinn um stjörnurnar sjö, sem þú hefur séð í hægri hendi minni, og um gullstikurnar sjö. Stjörnurnar sjö eru englar þeirra sjö safnaða, og ljósastikurnar sjö eru söfnuðirnir sjö.

Engli safnaðarins í Efesus skalt þú rita: Þetta segir sá sem heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi sér, sá sem gengur á milli gullstikanna sjö:

Ég þekki verkin þín og erfiðið og þolgæði þitt og veit, að eigi getur þú sætt þig við vonda menn. Þú hefur reynt þá, sem segja sjálfa sig vera postula, en eru það ekki, og þú hefur komist að því, að þeir eru lygarar.

Þú ert þolgóður og byrðar hefur þú borið fyrir sakir nafns míns og ekki þreytst.

En það hef ég á móti þér, að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika.

Minnst þú því, úr hvaða hæð þú hefur hrapað, og gjör iðrun og breyttu eins og fyrrum. Að öðrum kosti kem ég til þín og færi ljósastiku þína úr stað, ef þú gjörir ekki iðrun.

En það mátt þú eiga, að þú hatar verk Nikólaítanna, sem ég sjálfur hata.

Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar, honum mun ég gefa að eta af lífsins tré, sem er í Paradís Guðs.

Matteusarguðspjall 23:1-12

23 Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna:

"Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear.

Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.

Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.

Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana.

Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum,

láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum.

En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður.

Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum.

10 Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.

11 Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar.

12 Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society