Book of Common Prayer
16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.
2 Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."
3 Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.
4 Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.
5 Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.
6 Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.
7 Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.
8 Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.
9 Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,
10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.
11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.
3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.
6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.
8 Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna
9 fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.
10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.
11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.
12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.
13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.
14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.
2 Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.
3 "Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.
4 Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.
5 Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,
6 til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.
7 En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.
8 Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.
9 "Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"
10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.
11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.
12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.
13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.
14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.
15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;
16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.
17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.
18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,
19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.
20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,
21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.
22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!
23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!
24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!
25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.
26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.
27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.
28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.
29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.
30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,
31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,
32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.
5 Heyrið þetta orð, sem ég mæli yfir yður sem harmkvæði, þér Ísraelsmenn!
2 Fallin er mærin Ísrael, rís aldrei aftur, flöt liggur hún á sínu eigin landi, enginn reisir hana.
3 Svo segir Drottinn Guð: Sú borg, sem sendir frá sér þúsund manns, mun hafa eftir hundrað, og sú sem sendir frá sér hundrað, mun hafa eftir tíu í Ísraelsríki.
4 Svo segir Drottinn við Ísraels hús: Leitið mín, til þess að þér megið lífi halda.
5 En leitið ekki til Betel! Og til Gilgal skuluð þér ekki fara og yfir til Beerseba skuluð þér ekki halda. Því að Gilgal skal fara í útlegð og Betel verða að auðn.
6 Leitið Drottins, til þess að þér megið lífi halda. Ella mun hann ráðast á Jósefs hús eins og eldur og eyða, án þess að nokkur sé í Betel, sem slökkvi.
7 Þeir sem umhverfa réttinum í malurt og varpa réttlætinu til jarðar,
8 Hann, sem skóp sjöstjörnuna og Óríon, sem gjörir niðmyrkrið að björtum morgni og dag að dimmri nótt, sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina, Drottinn er nafn hans.
9 Hann lætur eyðing leiftra yfir hina sterku, og eyðing kemur yfir vígi.
10 þeir hata þann, sem ver réttinn í borgarhliðinu, og hafa viðbjóð á þeim, sem talar satt.
11 Sökum þess að þér fótum troðið hina snauðu og takið af þeim gjafir í korni, þá skuluð þér að vísu byggja hús úr höggnu grjóti, en eigi búa í þeim, skuluð planta yndislega víngarða, en ekki drekka vínið, sem úr þeim kemur.
12 Því að ég veit, að misgjörðir yðar eru margar og syndir yðar miklar. Þér þröngvið hinum saklausa, þiggið mútur og hallið rétti hinna fátæku í borgarhliðinu.
13 Fyrir því þegir hygginn maður á slíkri tíð, því að það er vond tíð.
14 Leitið hins góða, en ekki hins illa, til þess að þér megið lífi halda, og þá mun Drottinn, Guð allsherjar vera með yður, eins og þér hafið sagt.
15 Hatið hið illa og elskið hið góða, eflið réttinn í borgarhliðinu. Má vera að Drottinn, Guð allsherjar miskunni sig þá yfir leifar Jósefs.
16 Fyrir því segir Drottinn, Guð allsherjar, Drottinn: Á öllum torgum skal vera harmakvein, og á öllum strætum skal sagt verða: "Vei, vei!" Og akurmennirnir skulu kalla þá er kveina kunna, til sorgarathafnar og harmakveins,
17 og í öllum víngörðum skal vera harmakvein, þá er ég fer um land þitt, _ segir Drottinn.
1 Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, heilsar hinum kölluðu, sem eru elskaðir af Guði föður og varðveittir Jesú Kristi.
2 Miskunn, friður og kærleiki margfaldist yður til handa.
3 Þér elskaðir, mér var það ríkt í huga að rita yður um sameiginlegt hjálpræði vort. En nú kemst ég ekki hjá því að skrifa og hvetja yður til að berjast fyrir þeirri trú, sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld.
4 Því að inn hafa læðst nokkrir menn, sem fyrir löngu var ritað um að þessi dómur biði þeirra. Þeir eru óguðlegir menn, sem misnota náð Guðs vors til taumleysis og afneita vorum einasta lávarði og Drottni, Jesú Kristi.
5 Ég vil minna yður á, þótt þér nú einu sinni vitið það allt, að Drottinn frelsaði lýðinn úr Egyptalandi, en tortímdi samt síðar þeim, sem ekki trúðu.
6 Og englana, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað, hefur hann í myrkri geymt í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.
7 Eins og Sódóma og Gómorra og borgirnar umhverfis þær, sem drýgt höfðu saurlifnað á líkan hátt og þeir og stunduðu óleyfilegar lystisemdir, þær liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds.
8 Á sama hátt saurga og þessir draumvilltu menn líkamann, meta að engu drottinvald og lastmæla tignum.
9 Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Míkael að leggja lastmælisdóm á djöfulinn, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: "Drottinn refsi þér!"
10 En þessir menn lastmæla öllu því, sem þeir þekkja ekki, en spilla sér á því sem þeir skilja af eðlisávísun eins og skynlausar skepnur.
11 Vei þeim, því að þeir hafa gengið á vegi Kains og hrapað í villu Bíleams fyrir ávinnings sakir og tortímst í þverúð Kóra.
12 Þessir menn eru blindsker við kærleiksmáltíðir yðar, er þeir sitja að veislum með yður og háma í sig blygðunarlaust. Þeir eru vatnslaus ský, sem rekast fyrir vindum, tré, sem bera ekki ávöxt að hausti, tvisvar dauð og rifin upp með rótum.
13 Þeir eru ofsalegar hafsbylgjur, sem freyða eigin skömmum, reikandi stjörnur, sem eiga dýpsta myrkur í vændum til eilífðar.
14 Um þessa menn spáði líka Enok, sjöundi maður frá Adam, er hann segir: "Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra
15 til að halda dóm yfir öllum og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk, sem þeir hafa drýgt, og um öll þau hörðu orð, sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum."
16 Þessir menn eru möglarar, umkvörtunarsamir og lifa eftir girndum sínum. Munnur þeirra mælir ofstopaorð og þeir meta menn eftir hagnaði.
22 Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti:
2 "Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns.
3 Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma.
4 Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: ,Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.`
5 En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns,
6 en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.
7 Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra.
8 Síðan segir hann við þjóna sína: ,Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir.
9 Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið.`
10 Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.
11 Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum.
12 Hann segir við hann: ,Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum?` Maðurinn gat engu svarað.
13 Konungur sagði þá við þjóna sína: ,Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.`
14 Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir."
by Icelandic Bible Society