Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 146-147

146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!

Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.

Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.

Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,

sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,

Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.

Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.

147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.

Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.

Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.

Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.

Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.

Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.

Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.

Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.

Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.

10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.

11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.

12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,

13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.

14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.

15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.

16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.

17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?

18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.

19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.

20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.

Sálmarnir 111-113

111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.

Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.

Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.

Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.

Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.

Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,

örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.

Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.

10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.

112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.

Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.

Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.

Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,

því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.

Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.

Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.

Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.

10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.

113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.

Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.

Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.

Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt

og horfir djúpt á himni og á jörðu.

Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum

og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.

Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.

Amos 1:1-5

Orð Amosar, sem var einn af fjárhirðunum í Tekóa, það er honum vitraðist um Ísrael á dögum Ússía Júdakonungs og á dögum Jeróbóams Jóassonar, Ísraelskonungs, tveimur árum fyrir jarðskjálftann.

Hann sagði: Drottinn þrumar frá Síon og lætur raust sína gjalla frá Jerúsalem. Þá munu hagar hjarðmannanna drúpa og Karmeltindur skrælna.

Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Damaskusborgar vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir þresktu Gíleað með þreskisleðum af járni,

mun ég senda eld á hús Hasaels, og hann mun eyða höllum Benhadads.

Ég mun brjóta slagbrand Damaskus og útrýma íbúunum úr Glæpadal og þeim, er ber veldissprotann, frá Yndishúsum, og Sýrlendingar skulu herleiddir verða til Kír, _ segir Drottinn.

Amos 1:13-2:8

13 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Ammóníta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir ristu á kvið þungaðar konurnar í Gíleað til þess að færa út landamerki sín,

14 vil ég kveikja eld í múrum Rabba, og hann skal eyða höllum hennar, þegar æpt verður heróp á orustudeginum, þegar stormurinn geisar á degi fellibyljanna.

15 Og konungur þeirra verður að fara í útlegð með hinum, hann og höfðingjar hans, _ segir Drottinn.

Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Móabíta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir brenndu bein Edómítakonungs að kalki,

vil ég senda eld gegn Móab, og hann mun eyða höllum Keríjótborgar. Og Móabítar munu deyja í vopnagný, við heróp og lúðurhljóm.

Ég vil afmá stjórnandann meðal þeirra og deyða alla höfðingja þeirra með honum, _ segir Drottinn.

Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Júdamanna vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir hafa hafnað lögmáli Drottins og eigi haldið boðorð hans, heldur látið falsgoð sín villa sig, þau er feður þeirra eltu,

vil ég senda eld gegn Júda, og hann mun eyða höllum Jerúsalem.

Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Ísraelsmanna vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir selja saklausan manninn fyrir silfur og fátæklinginn fyrir eina ilskó,

þeir fíkjast í moldarkornin á höfði hinna snauðu og hrinda aumingjunum í ógæfu, faðir og sonur ganga til kvensniftar til þess að vanhelga mitt heilaga nafn,

þeir liggja á veðteknum klæðum hjá hverju altari og drekka sektarvín í húsi Guðs síns.

Fyrra bréf Páls til Þessa 5:1-11

En um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað.

Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu.

Þegar menn segja: "Friður og engin hætta", þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.

En þér, bræður, eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur.

Þér eruð allir synir ljóssins og synir dagsins. Vér heyrum ekki nóttunni til né myrkrinu.

Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.

Þeir, sem sofa, sofa á nóttunni og þeir, sem drekka sig drukkna, drekka á nóttunni.

En vér, sem heyrum deginum til, skulum vera algáðir, klæddir brynju trúar og kærleika og von hjálpræðis sem hjálmi.

Guð hefur ekki ætlað oss til að verða reiðinni að bráð, heldur til að öðlast sáluhjálp fyrir Drottin vorn Jesú Krist,

10 sem dó fyrir oss, til þess að vér mættum lifa með honum, hvort sem vér vökum eða sofum.

11 Áminnið því hver annan og uppbyggið hver annan, eins og þér og gjörið.

Lúkasarguðspjall 21:5-19

Einhverjir höfðu orð á, að helgidómurinn væri prýddur fögrum steinum og heitgjöfum. Þá sagði Jesús:

"Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."

En þeir spurðu hann: "Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?"

Hann svaraði: "Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!` og ,Tíminn er í nánd!` Fylgið þeim ekki.

En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis."

10 Síðan sagði hann við þá: "Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki,

11 þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.

12 En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns.

13 Þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar.

14 En festið það vel í huga að vera ekki fyrirfram að hugsa um, hvernig þér eigið að verjast,

15 því ég mun gefa yður orð og visku, sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið.

16 Jafnvel foreldrar og bræður, frændur og vinir munu framselja yður, og sumir yðar munu líflátnir.

17 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns,

18 en ekki mun týnast eitt hár á höfði yðar.

19 Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society