Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 137

137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.

Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.

Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"

Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?

Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.

Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.

Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"

Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!

Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.

Sálmarnir 144

144 Eftir Davíð. Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu.

Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf, hann leggur þjóðir undir mig.

Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann, mannsins barn, að þú gefir því gaum.

Maðurinn er sem vindblær, dagar hans sem hverfandi skuggi.

Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður, snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.

Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum, skjót örvum þínum og skelf þá.

Rétt út hönd þína frá hæðum, hríf mig burt og bjarga mér úr hinum miklu vötnum, af hendi útlendinganna.

Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.

10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.

11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.

13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,

14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.

15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.

Sálmarnir 104

104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.

Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.

Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.

Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.

Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.

Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,

en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.

Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.

Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.

10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,

11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.

12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.

13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.

14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni

15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.

16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett

17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.

18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.

19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.

20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.

21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.

22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,

23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.

24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.

25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.

26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.

27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.

29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.

30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,

32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.

33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.

35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.

Míka 7:11-19

11 Sá dagur kemur, að múrar þínir verða endurreistir, þann dag munu landamerki þín færast mikið út.

12 Á þeim degi munu menn koma til þín frá Assýríu allt til Egyptalands og frá Egyptalandi allt til Efrats, frá hafi til hafs og frá fjalli til fjalls.

13 En jörðin mun verða að auðn vegna íbúa hennar, sökum ávaxtarins af gjörðum þeirra.

14 Gæt þú þjóðar þinnar með staf þínum, sauða arfleifðar þinnar, þeirra sem byggja einir sér kjarrskóginn innan um aldingarðana. Lát þá ganga í Basanshaglendi og í Gíleað eins og forðum daga.

15 Lát hana sjá undur, eins og þegar þú fórst af Egyptalandi.

16 Þjóðirnar skulu sjá það og verða til skammar, þrátt fyrir allan styrkleika sinn. Þær munu leggja höndina á munninn, eyru þeirra munu verða heyrnarlaus.

17 Þær munu sleikja duft eins og höggormur, eins og kvikindi, sem skríða á jörðinni, skjálfandi skulu þær koma fram úr fylgsnum sínum, líta hræddar til Drottins, Guðs vors, og óttast þig.

18 Hver er slíkur Guð sem þú, sá er fyrirgefur leifum arfleifðar sinnar misgjörð þeirra og umber fráhvarf þeirra, _ sem eigi heldur fast við reiði sína eilíflega, heldur hefir unun af að vera miskunnsamur?

19 Þú munt aftur miskunna oss, troða niður misgjörðir vorar. Já, þú munt varpa öllum syndum vorum í djúp hafsins.

Fyrra almenna bréf Péturs 4:7-19

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna.

Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.

Verið gestrisnir hver við annan án möglunar.

10 Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.

11 Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

12 Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.

13 Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans.

14 Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.

15 Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við.

16 En ef hann líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur gjöri Guð vegsamlegan með þessu nafni.

17 Því að nú er tíminn kominn, að dómurinn byrji á húsi Guðs. En ef hann byrjar á oss, hver munu þá verða afdrif þeirra, sem ekki hlýðnast fagnaðarerindi Guðs?

18 Ef hinn réttláti naumlega frelsast, hvar mun þá hinn óguðlegi og syndarinn lenda?

19 Þess vegna skulu þeir, sem líða eftir vilja Guðs, fela sálir sínar á hendur hinum trúa skapara og halda áfram að gjöra hið góða.

Matteusarguðspjall 20:29-34

29 Þegar þeir fóru frá Jeríkó, fylgdi honum mikill mannfjöldi.

30 Tveir menn blindir sátu þar við veginn. Þegar þeir heyrðu, að þar færi Jesús, hrópuðu þeir: "Herra, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!"

31 Fólkið hastaði á þá, að þeir þegðu, en þeir hrópuðu því meir: "Herra, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!"

32 Jesús nam staðar, kallaði á þá og sagði: "Hvað viljið þið að ég gjöri fyrir ykkur?"

33 Þeir mæltu: "Herra, lát augu okkar opnast."

34 Jesús kenndi í brjósti um þá og snart augu þeirra. Jafnskjótt fengu þeir sjónina og fylgdu honum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society