Book of Common Prayer
118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
3 Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
4 Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
7 Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.
8 Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,
9 betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.
10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.
14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.
15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.
18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.
19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.
21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.
22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.
23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.
24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.
25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!
26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.
27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.
28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.
29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
7 Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.
11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.
12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.
17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.
21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
19 Á þeim degi mun vera altari handa Drottni í miðju Egyptalandi og merkissteinn handa Drottni við landamærin.
20 Það skal vera til merkis og vitnisburðar um Drottin allsherjar í Egyptalandi. Þegar þeir hrópa til Drottins undan kúgurunum, mun hann senda þeim fulltingjara og forvígismann, er frelsar þá.
21 Drottinn mun kunnur verða Egyptalandi, og Egyptar munu þekkja Drottin á þeim degi. Þeir munu dýrka hann með sláturfórnum og matfórnum og vinna Drottni heit og efna þau.
22 Og Drottinn mun slá Egyptaland, slá og græða, og þeir munu snúa sér til Drottins, og hann mun bænheyra þá og græða þá.
23 Á þeim degi skal vera brautarvegur frá Egyptalandi til Assýríu, og Assýringar skulu koma til Egyptalands og Egyptar til Assýríu, og Egyptar munu tilbiðja ásamt Assýringum.
24 Á þeim degi munu þessir þrír taka saman, Ísrael, Egyptaland og Assýría, og vera blessun á jörðinni miðri.
25 Drottinn allsherjar blessar þá og segir: Blessuð sé þjóð mín Egyptar, verkið handa minna Assýría og arfleifð mín Ísrael!
5 En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú,
6 til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.
7 Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar.
8 Ég segi, að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs, til þess að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin,
9 en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er: "Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni."
10 Og enn segir: "Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans,"
11 og enn: "Lofið Drottin, allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir,"
12 og enn segir Jesaja: "Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona."
13 Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.
11 Meðan þeir hlýddu á, bætti hann við dæmisögu, því að hann var í nánd við Jerúsalem, og þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast.
12 Hann sagði: "Maður nokkur tiginborinn fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur.
13 Hann kallaði tíu þjóna sína, seldi þeim í hendur tíu pund og sagði við þá: ,Verslið með þetta, þangað til ég kem.`
14 En landar hans hötuðu hann og gerðu sendimann á eftir honum til að segja: ,Vér viljum ekki, að þessi maður verði konungur yfir oss.`
15 Nú kom hann aftur og hafði tekið konungdóm. Þá lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt.
16 Hinn fyrsti kom og sagði: ,Herra, pund þitt hefur ávaxtast um tíu pund.`
17 Konungur sagði við hann: ,Gott, þú góði þjónn, þú varst trúr í mjög litlu og því skaltu ráða fyrir tíu borgum.`
18 Annar kom og sagði: ,Pund þitt, herra, hefur gefið af sér fimm pund.`
19 Hann sagði eins við hann: ,Þú skalt og vera yfir fimm borgum.`
20 Enn kom einn og sagði: ,Herra, hér er pund þitt. Ég hef haft það geymt í dúki,
21 því að ég var hræddur við þig, en þú ert maður strangur og tekur það út, sem þú lagðir ekki inn, og uppsker það, sem þú sáðir ekki.`
22 Hann segir við hann: ,Illi þjónn, eftir orðum þínum dæmi ég þig. Þú vissir, að ég er maður strangur, sem tek það út, sem ég lagði ekki inn, og uppsker það, sem ég sáði ekki.
23 Hvers vegna léstu þá ekki fé mitt í banka? Þá hefði ég fengið það með vöxtum, er ég kom heim.`
24 Og hann sagði við þá er hjá voru: ,Takið af honum pundið, og fáið þeim, sem hefur tíu pundin.`
25 En þeir sögðu við hann: ,Herra, hann hefur tíu pund.`
26 Ég segi yður: Hverjum sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.
27 En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér."
by Icelandic Bible Society