Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 87

87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.

Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.

Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]

Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.

En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.

Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]

Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."

Sálmarnir 90

90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.

Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"

Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.

Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.

Vér hverfum fyrir reiði þinni, skelfumst fyrir bræði þinni.

Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér, vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns.

Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp.

10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.

11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar og bræði þína, svo sem hana ber að óttast?

12 Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.

13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?

14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.

15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.

16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.

17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.

Sálmarnir 136

136 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu,

sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu,

tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu,

10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu,

12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu,

13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu,

14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu,

15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu,

16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu,

17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,

18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,

19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu,

20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu,

21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu,

22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu,

23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu,

24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu,

25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu.

26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.

Error: Book name not found: 1Macc for the version: Icelandic Bible
Opinberun Jóhannesar 20:1-6

20 Nú sá ég engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér.

Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár.

Hann kastaði honum í undirdjúpið og læsti og setti innsigli yfir, svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega, allt til þess er fullnuðust þúsund árin. Eftir það á hann að vera leystur um stuttan tíma.

Og ég sá hásæti og menn settust í þau og dómsvald var þeim fengið, og ég sá sálir þeirra, sem hálshöggnir höfðu verið sakir vitnisburðar Jesú og sakir orðs Guðs. Það voru þeir hinir sömu sem höfðu ekki tilbeðið dýrið né líkneski þess og ekki fengið merki á enni sér og hönd. Og þeir lifnuðu og ríktu með Kristi um þúsund ár.

En aðrir dauðir lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin. Þetta er fyrri upprisan.

Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.

Matteusarguðspjall 16:21-28

21 Upp frá þessu tók Jesús að sýna lærisveinum sínum fram á, að hann ætti að fara til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi.

22 En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: "Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma."

23 Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: "Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er."

24 Þá mælti Jesús við lærisveina sína: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.

25 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.

26 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?

27 Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans.

28 Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society