Book of Common Prayer
88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.
2 Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.
3 Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,
4 því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.
5 Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.
6 Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.
7 Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.
8 Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]
9 Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,
10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.
11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]
12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?
13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?
14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.
15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?
16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.
17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.
18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.
19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.
91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,
2 sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"
3 Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,
4 hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.
5 Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,
6 drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.
7 Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.
8 Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.
9 Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.
10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.
11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.
12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.
13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.
14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.
15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.
16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."
92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
2 að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur
3 á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.
4 Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.
5 Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.
6 Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.
7 Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,
8 en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.
9 Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.
10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.
11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.
12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.
13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.
14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.
15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.
11 Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi.
12 Augu hans eru sem eldslogi og á höfði hans eru mörg ennisdjásn. Og hann ber nafn ritað, sem enginn þekkir nema hann sjálfur.
13 Hann er skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er: Orðið Guðs.
14 Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni.
15 Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda.
16 Og á skikkju sinni og lend sinni hefur hann ritað nafn: "Konungur konunga og Drottinn drottna."
13 Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: "Hvern segja menn Mannssoninn vera?"
14 Þeir svöruðu: "Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum."
15 Hann spyr: "En þér, hvern segið þér mig vera?"
16 Símon Pétur svarar: "Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs."
17 Þá segir Jesús við hann: "Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum.
18 Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.
19 Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum."
20 Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum, að hann væri Kristur.
by Icelandic Bible Society