Book of Common Prayer
83 Ljóð. Asafs-sálmur.
2 Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!
3 Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið,
4 þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.
5 Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"
6 Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag:
7 Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar,
8 Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum.
9 Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]
10 Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,
11 þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina.
12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,
13 þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."
14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi.
15 Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,
16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum.
17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!
18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast,
19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.
23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
3 Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.
5 Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.
6 Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?
2 Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.
3 Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.
4 Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.
5 Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.
6 Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.
7 Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!
8 Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
9 Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.
10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.
12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.
13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!
14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.
85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.
2 Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,
3 þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]
4 Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.
5 Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.
6 Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?
7 Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?
8 Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!
9 Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.
10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.
11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.
12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.
13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.
14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.
86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.
2 Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.
3 Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.
4 Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.
5 Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.
6 Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.
7 Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.
8 Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.
9 Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.
10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.
12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,
13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.
14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.
15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.
16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.
17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.
19 Eftir þetta heyrði ég sem sterkan ym mikils fjölda á himni. Þeir sögðu: "Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors.
2 Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna."
3 Og aftur var sagt: "Hallelúja! Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda."
4 Og öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar féllu fram og tilbáðu Guð, sem í hásætinu situr, og sögðu: "Amen, hallelúja!"
5 Og frá hásætinu barst rödd, er sagði: "Lofsyngið Guði vorum, allir þér þjónar hans, þér sem hann óttist, smáir og stórir."
6 Þá heyrði ég raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: "Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.
7 Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig.
8 Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra."
9 Og hann segir við mig: "Rita þú: Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins." Og hann segir við mig: "Þetta eru hin sönnu orð Guðs."
10 Og ég féll fram fyrir fætur honum til að tilbiðja hann og hann segir við mig: "Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, sem hafa vitnisburð Jesú. Tilbið þú Guð. Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar."
16 Þá komu farísear og saddúkear, vildu freista hans og báðu hann að sýna sér tákn af himni.
2 Hann svaraði þeim: "Að kvöldi segið þér: ,Það verður góðviðri, því að roði er á lofti.`
3 Og að morgni: ,Illviðri í dag, himinninn er rauður og þungbúinn.` Útlit loftsins kunnið þér að ráða, en ekki tákn tímanna.
4 Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar." Síðan skildi hann við þá og fór.
5 Þegar lærisveinarnir fóru yfir um vatnið, höfðu þeir gleymt að taka með sér brauð.
6 Jesús sagði við þá: "Gætið yðar, varist súrdeig farísea og saddúkea."
7 En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki tekið brauð.
8 Jesús varð þess vís og sagði: "Hvað eruð þér að tala um það, trúlitlir menn, að þér hafið ekki brauð?
9 Skynjið þér ekki enn? Minnist þér ekki brauðanna fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þér tókuð saman?
10 Eða brauðanna sjö handa fjórum þúsundum og hve margar körfur þér tókuð saman?
11 Hvernig má það vera, að þér skynjið ekki, að ég var ekki að tala um brauð við yður. Varist súrdeig farísea og saddúkea."
12 Þá skildu þeir, að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði, heldur kenningu farísea og saddúkea.
by Icelandic Bible Society