Book of Common Prayer
97 Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.
98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð.
99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.
100 Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín.
101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns.
102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið, því að þú hefir frætt mig.
103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum.
104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.
105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.
106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.
107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.
109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.
110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.
111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.
112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.
113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.
114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.
115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.
116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.
117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.
118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.
119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.
120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.
81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.
2 Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.
3 Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.
4 Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.
5 Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.
6 Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:
7 "Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.
8 Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]
9 Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!
10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.
11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.
12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.
13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.
14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,
15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.
16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.
17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum."
82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:
2 "Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]
3 Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,
4 bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."
5 Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.
6 Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,
7 en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."
8 Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.
73 Þannig tóku prestarnir og levítarnir og hliðverðirnir og söngvararnir og nokkrir af lýðnum og musterisþjónarnir og allur Ísrael sér bólfestu í borgum sínum. En er sjöundi mánuðurinn kom, voru Ísraelsmenn í borgum sínum.
8 Allur lýðurinn safnaðist saman eins og einn maður á torginu fyrir framan Vatnshliðið. Og þeir báðu Esra fræðimann að sækja lögmálsbók Móse, er Drottinn hafði sett Ísrael.
2 Þá kom Esra prestur með lögmálið fram fyrir söfnuðinn, bæði karla og konur og alla þá, er vit höfðu á að taka eftir, á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar.
3 Og hann las upp úr því á torginu, sem er fyrir framan Vatnshliðið, frá birtingu til hádegis, í viðurvist karla og kvenna og þeirra barna, er vit höfðu á, og eyru alls lýðsins hlýddu á lögmálsbókina.
5 Og Esra lauk upp bókinni í augsýn alls fólksins, því að hann stóð hærra en allur lýðurinn, og þegar hann lauk henni upp, stóð allur lýðurinn upp.
6 Og Esra lofaði Drottin, hinn mikla Guð, og allur lýðurinn svaraði: "Amen! amen!" og fórnuðu þeir um leið upp höndunum og beygðu sig og féllu fram á ásjónur sínar til jarðar fyrir Drottni.
7 Og levítarnir Jesúa, Baní, Serebja, Jamín, Akkúb, Sabtaí, Hódía, Maaseja, Kelíta, Asarja, Jósabad, Hanan og Pelaja skýrðu lögmálið fyrir lýðnum, en fólkið var kyrrt á sínum stað.
8 Þeir lásu skýrt upp úr bókinni, lögmáli Guðs, og útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.
9 Og Nehemía _ það er landstjórinn _ og Esra prestur, fræðimaðurinn, og levítarnir, sem fræddu lýðinn, sögðu við gjörvallan lýðinn: "Þessi dagur er helgaður Drottni, Guði yðar. Sýtið eigi né grátið!" Því að allur lýðurinn grét, þegar þeir heyrðu orð lögmálsins.
10 Og Esra sagði við þá: "Farið og etið feitan mat og drekkið sæt vín og sendið þeim skammta, sem ekkert er tilreitt fyrir, því að þessi dagur er helgaður Drottni vorum. Verið því eigi hryggir, því að gleði Drottins er hlífiskjöldur yðar."
11 Og levítarnir sefuðu allan lýðinn með því að segja: "Verið hljóðir, því að þessi dagur er heilagur. Verið því eigi hryggir."
12 Þá fór allt fólkið til þess að eta og drekka og senda skammta og halda mikla gleðihátíð, því að þeir höfðu skilið þau orð, er menn höfðu kunngjört þeim.
13 Daginn eftir söfnuðust ætthöfðingjar alls lýðsins, prestarnir og levítarnir saman hjá Esra fræðimanni til þess að gefa gaum að orðum lögmálsins.
14 Þá fundu þeir ritað í lögmálinu, er Drottinn hafði sett þeim fyrir Móse, að Ísraelsmenn skyldu búa í laufskálum á hátíðinni í sjöunda mánuðinum,
15 og að þeir ættu að kunngjöra og láta boð út ganga í öllum borgum sínum og í Jerúsalem á þessa leið: "Farið upp í fjöll og komið með greinar af olíuviði og greinar af villi-olíuviði og greinar af mýrtusviði og greinar af pálmaviði og greinar af þéttlaufguðum trjám, til þess að gjöra af laufskála, eins og skrifað er."
16 Og fólkið fór og sótti greinar, og þeir gjörðu sér laufskála hver á sínu húsþaki og í forgörðum sínum og í forgörðum Guðs húss og á torginu fyrir framan Vatnshliðið og á torginu fyrir framan Efraímhliðið.
17 Og allur söfnuðurinn, þeir er aftur voru heim komnir úr herleiðingunni, byggðu laufskála og bjuggu í laufskálunum. Því að Ísraelsmenn höfðu eigi gjört það síðan á dögum Jósúa Núnssonar allt til þessa dags, og varð þar því mjög mikil gleði.
18 Og það var lesið upp úr lögmálsbók Guðs á degi hverjum, frá fyrsta degi til hins síðasta dags. Og þeir héldu hátíð í sjö daga, og áttunda daginn var hátíðasamkoma, eins og fyrirskipað var.
21 Og einn sterkur engill tók upp stein, eins og mikinn kvarnarstein, og kastaði í hafið og sagði: "Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða.
22 Og hörpusláttur og sönglist, pípuhljómur og lúðurþytur skal ekki framar heyrast í þér og engir iðnaðarmenn og iðnir skulu framar í þér finnast og kvarnarhljóð skal eigi framar í þér heyrast.
23 Lampaljós skal eigi framar í þér lýsa og raust brúðguma og brúðar skal eigi framar heyrast í þér. Kaupmenn þínir voru höfðingjar jarðarinnar, af því að allar þjóðir leiddust í villu af töfrum þínum.
24 Og í henni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni."
29 Þaðan fór Jesús og kom að Galíleuvatni. Og hann gekk upp á fjall og settist þar.
30 Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans, og hann læknaði þá.
31 Fólkið undraðist, þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá. Og þeir lofuðu Guð Ísraels.
32 Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði: "Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Ég vil ekki láta þá fara fastandi frá mér, þeir gætu örmagnast á leiðinni."
33 Lærisveinarnir sögðu: "Hvar fáum vér nóg brauð til að metta allt þetta fólk hér í óbyggðum?"
34 Jesús spyr: "Hve mörg brauð hafið þér?" Þeir svara: "Sjö, og fáeina smáfiska."
35 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina,
36 tók brauðin sjö og fiskana, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinunum, en lærisveinarnir fólkinu.
37 Allir neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur fullar.
38 En þeir, sem neytt höfðu, voru fjórar þúsundir karlmanna auk kvenna og barna.
39 Síðan lét hann fólkið fara, sté í bátinn og kom í Magadanbyggðir.
by Icelandic Bible Society