Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 78

78 Asafs-maskíl. Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns.

Ég vil opna munn minn með orðskviði, mæla fram gátur frá fornum tíðum.

Það sem vér höfum heyrt og skilið og feður vorir sögðu oss,

það viljum vér eigi dylja fyrir niðjum þeirra, er vér segjum seinni kynslóð frá lofstír Drottins og mætti hans og dásemdarverkum og þeim undrum er hann gjörði.

Hann setti reglu í Jakob og skipaði lögmál í Ísrael, sem hann bauð feðrum vorum að kunngjöra sonum þeirra,

til þess að seinni kynslóð mætti skilja það og synir þeir er fæðast mundu, mættu ganga fram og segja sonum sínum frá því,

og setja traust sitt á Guð og eigi gleyma stórvirkjum Guðs, heldur varðveita boðorð hans,

og eigi verða sem feður þeirra, þrjósk og ódæl kynslóð, kynslóð með óstöðugu hjarta og anda sem var Guði ótrúr.

Niðjar Efraíms, herbúnir bogmenn, sneru við á orustudeginum.

10 Þeir héldu eigi sáttmála Guðs og færðust undan að fylgja lögmáli hans.

11 Þeir gleymdu stórvirkjum hans og dásemdum hans, er hann hafði látið þá horfa á.

12 Í augsýn feðra þeirra hafði hann framið furðuverk í Egyptalandi og Sóanhéraði.

13 Hann klauf hafið og lét þá fara yfir og lét vatnið standa sem vegg.

14 Hann leiddi þá með skýinu um daga og alla nóttina með eldskini.

15 Hann klauf björg í eyðimörkinni og gaf þeim gnóttir að drekka eins og úr stórvötnum,

16 hann lét læki spretta upp úr klettinum og vatnið streyma niður sem fljót.

17 Þó héldu þeir áfram að syndga í gegn honum, að rísa í gegn Hinum hæsta í eyðimörkinni.

18 Þeir freistuðu Guðs í hjörtum sínum, er þeir kröfðust matar þess er þeir girntust

19 og töluðu gegn Guði og sögðu: "Skyldi Guð geta búið borð í eyðimörkinni?

20 Víst sló hann á klettinn, svo að vatnið vall upp og lækir streymdu, en skyldi hann líka geta gefið brauð eða veitt lýð sínum kjöt?"

21 Fyrir því reiddist Drottinn, er hann heyrði þetta, eldur bálaði upp gegn Jakob og reiði steig upp gegn Ísrael,

22 af því að þeir trúðu eigi á Guð né treystu hjálp hans.

23 Og hann bauð skýjunum að ofan og opnaði hurðir himinsins,

24 lét manna rigna yfir þá til matar og gaf þeim himnakorn;

25 englabrauð fengu menn að eta, fæði sendi hann þeim til saðningar.

26 Hann lét austanvindinn taka sig upp í himninum og leiddi sunnanvindinn að með mætti sínum.

27 Hann lét kjöti rigna yfir þá sem dufti og vængjuðum fuglum sem sjávarsandi,

28 og hann lét þá falla niður í búðir sínar, umhverfis bústað sinn.

29 Átu þeir og urðu vel saddir, og græðgi þeirra sefaði hann.

30 En meðan þeir voru eigi horfnir frá græðgi sinni, meðan fæðan enn var í munni þeirra,

31 þá steig reiði Guðs upp í gegn þeim. Hann deyddi hina gildustu meðal þeirra og lagði að velli æskumenn Ísraels.

32 Þrátt fyrir allt þetta héldu þeir áfram að syndga og trúðu eigi á dásemdarverk hans.

33 Þá lét hann daga þeirra hverfa í hégóma og ár þeirra enda í skelfingu.

34 Þegar hann deyddi þá, leituðu þeir hans, sneru sér og spurðu eftir Guði

35 og minntust þess, að Guð var klettur þeirra og Guð hinn hæsti frelsari þeirra.

36 Þeir beittu við hann fagurgala með munni sínum og lugu að honum með tungum sínum.

37 En hjarta þeirra var eigi stöðugt gagnvart honum, og þeir voru eigi trúir sáttmála hans.

38 En hann er miskunnsamur, hann fyrirgefur misgjörðir og tortímir eigi, hann stillir reiði sína hvað eftir annað og hleypir eigi fram allri bræði sinni.

39 Hann minntist þess, að þeir voru hold, andgustur, sem líður burt og snýr eigi aftur.

40 Hversu oft þrjóskuðust þeir við hann í eyðimörkinni, hryggðu hann á öræfunum.

41 Og aftur freistuðu þeir Guðs og móðguðu Hinn heilaga í Ísrael.

42 Þeir minntust eigi handar hans, eður dags þess, er hann frelsaði þá frá fjandmönnum þeirra,

43 hann sem gjörði tákn sín í Egyptalandi og undur sín í Sóanhéraði.

44 Hann breytti ám þeirra í blóð og lækjum þeirra, svo að þeir fengu eigi drukkið.

45 Hann sendi flugur meðal þeirra, er bitu þá, og froska, er eyddu þeim.

46 Hann gaf engisprettunum afurðir þeirra og jarðvörgunum uppskeru þeirra.

47 Hann eyddi vínvið þeirra með haglhríð og mórberjatré þeirra með frosti.

48 Hann ofurseldi haglhríðinni fénað þeirra og eldingunni hjarðir þeirra.

49 Hann sendi heiftarreiði sína í gegn þeim, æði, bræði og nauðir, sveitir af sendiboðum ógæfunnar.

50 Hann ruddi braut reiði sinni, þyrmdi eigi sálum þeirra við dauðanum og ofurseldi drepsóttinni líf þeirra.

51 Hann laust alla frumburði í Egyptalandi, frumgróða styrkleikans í tjöldum Kams.

52 Hann lét lýð sinn leggja af stað sem sauði og leiddi þá eins og hjörð í eyðimörkinni.

53 Hann leiddi þá öruggt, svo að þeir óttuðust eigi, en óvini þeirra huldi hafið.

54 Hann fór með þá til síns helga héraðs, til fjalllendis þess, er hægri hönd hans hafði aflað.

55 Hann stökkti þjóðum undan þeim, skipti þeim niður eins og erfðahlut og lét kynkvíslir Ísraels setjast að í tjöldum þeirra.

56 En þeir freistuðu í þrjósku sinni Guðs hins hæsta og gættu eigi vitnisburða hans.

57 Þeir viku af leið, rufu trúnað sinn, eins og feður þeirra, brugðust eins og svikull bogi.

58 Þeir egndu hann til reiði með fórnarhæðum sínum, vöktu vandlæti hans með skurðgoðum sínum.

59 Guð heyrði það og reiddist og fékk mikla óbeit á Ísrael.

60 Hann hafnaði bústaðnum í Síló, tjaldi því, er hann hafði reist meðal mannanna,

61 hann ofurseldi hernáminu vegsemd sína og fjandmannshendi prýði sína.

62 Hann seldi lýð sinn undir sverðseggjar og reiddist arfleifð sinni.

63 Æskumönnum hans eyddi eldurinn og meyjar hans misstu brúðsöngs síns.

64 Prestar hans féllu fyrir sverðseggjum, og ekkjur hans fengu engan líksöng flutt.

65 Þá vaknaði Drottinn eins og af svefni, eins og hetja, sem hefir látið sigrast af víni.

66 Hann barði fjandmenn sína á bakhlutina, lét þá sæta eilífri háðung.

67 Samt hafnaði hann tjaldi Jósefs og útvaldi eigi kynkvísl Efraíms,

68 heldur útvaldi hann Júda kynkvísl, Síonfjall, sem hann elskar.

69 Hann reisti helgidóm sinn sem himinhæðir, grundvallaði hann að eilífu eins og jörðina.

70 Hann útvaldi þjón sinn Davíð og tók hann frá fjárbyrgjunum.

71 Hann sótti hann frá lambánum til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn, og fyrir Ísrael, arfleifð sína.

72 Og Davíð var hirðir fyrir þá af heilum hug og leiddi þá með hygginni hendi.

Nehemíabók 9:26-38

26 En þeir gjörðust þverbrotnir og gjörðu uppreisn gegn þér og vörpuðu lögmáli þínu að baki sér, og spámenn þína, þá er áminntu þá til þess að snúa þeim aftur til þín, þá drápu þeir og frömdu miklar guðlastanir.

27 Þá gafst þú þá í hendur óvina þeirra, og þeir þjáðu þá. En þegar þeir voru í nauðum staddir, hrópuðu þeir til þín, og þú heyrðir þá af himnum og gafst þeim frelsara af mikilli miskunn þinni, er frelsuðu þá úr höndum óvina þeirra.

28 En er þeir höfðu fengið hvíld, tóku þeir aftur að gjöra það sem illt var fyrir augliti þínu. Þá ofurseldir þú þá óvinum þeirra, svo að þeir drottnuðu yfir þeim. Þá hrópuðu þeir aftur til þín, og þú heyrðir þá af himnum og bjargaðir þeim af miskunn þinni mörgum sinnum.

29 Og þú áminntir þá til þess að snúa þeim aftur til lögmáls þíns. En þeir voru hrokafullir og hlýddu ekki boðorðum þínum og syndguðu gegn skipunum þínum, þeim er hver sá skal af lifa, er breytir eftir þeim. Þeir þverskölluðust, gjörðust harðsvíraðir og hlýddu ekki.

30 Og þú umbarst þá í mörg ár og áminntir þá með anda þínum fyrir spámenn þína, en þeir heyrðu ekki. Þá ofurseldir þú þá á vald heiðinna þjóða,

31 en sökum þinnar miklu miskunnar gjörðir þú eigi alveg út af við þá og yfirgafst þá eigi, því að þú ert náðugur og miskunnsamur Guð.

32 Og nú, Guð vor, þú mikli, voldugi og ógurlegi Guð, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina, lát þér eigi litlar þykja allar þær þrautir, er vér höfum orðið að sæta: konungar vorir, höfðingjar vorir, prestar vorir, spámenn vorir, feður vorir og gjörvallur lýður þinn, frá því á dögum Assýríukonunga og fram á þennan dag.

33 En þú ert réttlátur í öllu því, sem yfir oss hefir komið, því að þú hefir auðsýnt trúfesti, en vér höfum breytt óguðlega.

34 Konungar vorir, höfðingjar vorir, prestar vorir og feður vorir hafa ekki heldur haldið lögmál þitt né hlýtt skipunum þínum og aðvörunum, er þú hefir aðvarað þá með.

35 Og þótt þeir byggju í sínu eigin konungsríki og við mikla velsæld, er þú veittir þeim, og í víðlendu og frjósömu landi, er þú gafst þeim, þá þjónuðu þeir þér ekki og létu eigi af illskubreytni sinni.

36 Sjá, nú erum vér þrælar, og landið, sem þú gafst feðrum vorum, til þess að þeir nytu ávaxta þess og gæða, _ sjá, í því erum vér þrælar.

37 Það veitir konungunum sinn mikla ávöxt, þeim er þú settir yfir oss vegna synda vorra. Þeir drottna yfir líkömum vorum og fénaði eftir eigin hugþótta, og vér erum í miklum nauðum."

38 Sakir alls þessa gjörðum vér fasta skuldbindingu og skrifuðum undir hana. Og á hinu innsiglaða skjali stóðu nöfn höfðingja vorra, levíta og presta.

Opinberun Jóhannesar 18:9-20

Og konungar jarðarinnar, sem með henni drýgðu saurlifnað og lifðu í munaði, munu gráta og kveina yfir henni er þeir sjá reykinn af brennu hennar.

10 Af ótta fyrir kvöl hennar munu þeir standa langt frá og segja: "Vei, vei, borgin mikla, Babýlon, borgin volduga, á einni stundu kom dómur þinn."

11 Og kaupmenn jarðarinnar gráta og harma yfir henni, því að enginn kaupir nú framar vörur þeirra,

12 farma af gulli og silfri, gimsteinum og perlum, dýru líni og purpura, silki og skarlati og alls konar ilmvið og alls konar muni af fílabeini og alls konar muni af hinum dýrasta viði og af eiri og járni og marmara,

13 og kanelbörk og balsam, ilmjurtir og smyrsl, reykelsi, vín og olíu og fínt mjöl, og hveiti og eyki og sauði og hesta og vagna og man og mannasálir.

14 Og ávöxturinn, sem sála þín girnist, hefur brugðist þér, öll sæld og glys þér horfið og enginn mun framar örmul af því finna.

15 Seljendur þessara hluta, sem auðgast hafa á henni, munu standa álengdar af ótta yfir kvöl hennar, grátandi og harmandi

16 og segja: "Vei, vei, borgin mikla, sem klæddist dýru líni, purpura og skarlati og var gulli roðin og gimsteinum og perlum.

17 Á einni stundu eyddist allur þessi auður." Og allir skipstjórar, allir farmenn og hásetar og allir þeir, sem atvinnu reka á sjónum, stóðu álengdar

18 og hrópuðu, er þeir sáu reykinn af brennu hennar, og sögðu: "Hvaða borg jafnast við borgina miklu?"

19 Og þeir jusu mold yfir höfuð sér og hrópuðu grátandi og harmandi: "Vei, vei, borgin mikla, sem allir þeir, er skip eiga á sjónum, auðguðust á vegna auðæfa hennar. Á einni stundu var hún í eyði lögð."

20 Fagna yfir henni, þú himinn og þér heilögu og þér postular og spámenn, því að Guð hefur rekið réttar yðar á henni.

Matteusarguðspjall 15:21-28

21 Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar.

22 Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda."

23 En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum."

24 Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt."

25 Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!"

26 Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."

27 Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra."

28 Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society