Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 80

80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.

Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.

Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!

Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?

Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.

Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.

Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,

10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.

11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.

12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.

13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?

14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.

15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa

16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.

17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.

18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,

19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.

20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Sálmarnir 77

77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.

Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.

Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.

Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]

Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.

Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,

ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.

Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?

Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?

10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]

11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."

12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,

13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.

14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?

15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.

16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]

17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.

18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.

19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.

20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.

21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.

Sálmarnir 79

79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.

Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.

Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.

Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?

Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.

Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.

Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.

Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.

10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.

11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,

12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.

13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.

Nehemíabók 9:1-25

Á tuttugasta og fjórða degi þessa mánaðar söfnuðust Ísraelsmenn saman og föstuðu og klæddust hærusekk og jusu mold yfir höfuð sér.

Og niðjar Ísraels skildu sig frá öllum útlendingum, og þeir gengu fram og játuðu syndir sínar og misgjörðir feðra sinna.

Og þeir stóðu upp þar sem þeir voru, og menn lásu upp úr lögmálsbók Drottins, Guðs þeirra, fjórða hluta dagsins, og annan fjórða hluta dagsins játuðu þeir syndir sínar og féllu fram fyrir Drottni, Guði sínum.

Á levíta-pallinum stóðu þeir Jesúa, Baní, Kadmíel, Sebanja, Búnní, Serebja, Banní og Kenaní og hrópuðu með hárri röddu til Drottins, Guðs þeirra.

Og levítarnir Jesúa, Kadmíel, Baní, Hasabneja, Serebja, Hódía, Sebanja, Petahja sögðu: "Standið upp og vegsamið Drottin, Guð yðar, frá eilífð til eilífðar! Menn vegsami þitt dýrlega nafn, sem hafið er yfir alla vegsaman og lofgjörð!

Þú, Drottinn, þú einn ert Drottinn! Þú hefir skapað himininn, himnanna himna og allan þeirra her, jörðina og allt, sem á henni er, hafið og allt, sem í því er, og þú gefur því öllu líf, og himinsins her hneigir þér.

Það ert þú, Drottinn Guð, sem kjörið hefir Abram og leitt hann út frá Úr í Kaldeu og gefið honum nafnið Abraham.

Og með því að þú reyndir hann að trúmennsku gagnvart þér, þá gjörðir þú sáttmála við hann um að gefa niðjum hans land Kanaaníta, Hetíta, Amóríta, Peresíta, Jebúsíta og Gírgasíta. Og þú efndir orð þín, því að þú ert réttlátur.

Og er þú sást eymd feðra vorra í Egyptalandi og heyrðir neyðaróp þeirra við Rauðahafið,

10 þá gjörðir þú tákn og undur á Faraó og á öllum þjónum hans og á öllum lýð í landi hans, því að þú vissir að þeir höfðu sýnt þeim ofstopa. Og þannig afrekaðir þú þér mikið nafn fram á þennan dag.

11 Og þú klaufst hafið fyrir þeim, svo að þeir gengu á þurru mitt í gegnum hafið. En þeim, sem eltu þá, steyptir þú í sjávardjúpið eins og steini, í ströng vötn.

12 Og þú leiddir þá í skýstólpa um daga og í eldstólpa um nætur, til þess að lýsa þeim á veginum, sem þeir áttu að fara.

13 Og þú steigst niður á Sínaífjall og talaðir við þá af himnum og gafst þeim sanngjörn ákvæði, réttlát lög og góða setninga og boðorð.

14 Og þú gjörðir þeim kunnugan hinn heilaga hvíldardag þinn, og boðorð, setninga og lögmál settir þú þeim fyrir þjón þinn Móse.

15 Og þú gafst þeim brauð af himni við hungri þeirra og leiddir vatn af hellunni handa þeim við þorsta þeirra, og þú bauðst þeim að koma til þess að taka landið til eignar, sem þú hafðir svarið að gefa þeim.

16 En feður vorir urðu ofstopafullir og þverskölluðust og hlýddu ekki boðorðum þínum.

17 Þeir vildu ekki hlýða og minntust ekki dásemdarverka þinna, þeirra er þú hafðir á þeim gjört, en gjörðust harðsvíraðir og völdu sér í þverúð sinni fyrirliða til að snúa aftur til ánauðar sinnar. En þú ert Guð, sem fús er á að fyrirgefa, náðugur og miskunnsamur, þolinmóður og elskuríkur, og yfirgafst þá ekki.

18 Jafnvel þá, er þeir gjörðu sér steyptan kálf og sögðu: ,Þetta er guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi,` og frömdu miklar guðlastanir,

19 þá yfirgafst þú þá ekki á eyðimörkinni vegna þinnar miklu miskunnar. Skýstólpinn veik ekki frá þeim um daga, til þess að leiða þá á veginum, né eldstólpinn um nætur, til þess að lýsa þeim á veginum, sem þeir áttu að fara.

20 Og þú gafst þeim þinn góða anda til þess að fræða þá, og þú hélst ekki manna þínu frá munni þeirra og gafst þeim vatn við þorsta þeirra.

21 Fjörutíu ár ólst þú önn fyrir þeim á eyðimörkinni, svo að þá skorti ekkert. Föt þeirra slitnuðu ekki og fætur þeirra þrútnuðu ekki.

22 Og þú gafst þeim konungsríki og þjóðir og skiptir þeim til ystu takmarka, og þeir lögðu undir sig land Síhons og land konungsins í Hesbon og land Ógs, konungs í Basan.

23 Og þú gjörðir niðja þeirra svo marga sem stjörnur á himni og leiddir þá inn í það land, er þú hafðir heitið feðrum þeirra, að þeir skyldu komast inn í til þess að taka það til eignar.

24 Og niðjarnir komust þangað og tóku landið til eignar, og þú lagðir íbúa landsins, Kanaanítana, undir þá og gafst þá á þeirra vald, bæði konunga þeirra og íbúa landsins, svo að þeir gætu með þá farið eftir geðþótta sínum.

25 Og þeir unnu víggirtar borgir og feitt land og tóku til eignar hús, full af öllum góðum hlutum, úthöggna brunna, víngarða og olífugarða og ógrynni af aldintrjám. Og þeir átu og urðu saddir og feitir og lifðu í sællífi fyrir þína miklu gæsku.

Opinberun Jóhannesar 18:1-8

18 Eftir þetta sá ég annan engil stíga ofan af himni, og hafði hann mikið vald og jörðin ljómaði af dýrð hans.

Og hann hrópaði með sterkri röddu og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla og orðin að djöfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla.

Því að hún hefur byrlað öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns, og konungar jarðarinnar drýgðu saurlifnað með henni og kaupmenn jarðarinnar auðguðust af gnóttum munaðar hennar."

Og ég heyrði aðra rödd af himni, sem sagði: "Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.

Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.

Gjaldið henni eins og hún hefur goldið og tvígjaldið henni eftir verkum hennar, byrlið henni tvöfalt í bikarinn, sem hún hefur byrlað.

Veitið henni eins mikla kvöl og sorg og hennar stærilæti og óhóf hefur verið. Hún segir í hjarta sínu: ,Hér sit ég og er drottning, ekkja er ég eigi, sorg mun ég aldrei sjá.`

Fyrir því munu plágur hennar koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er Drottinn Guð, sem hana dæmdi."

Matteusarguðspjall 15:1-20

15 Nú komu til Jesú farísear og fræðimenn frá Jerúsalem og sögðu:

"Hvers vegna brjóta lærisveinar þínir erfikenning forfeðranna? Þeir taka ekki handlaugar, áður en þeir neyta matar."

Hann svaraði þeim: "Hvers vegna brjótið þér sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar?

Guð hefur sagt: ,Heiðra föður þinn og móður,` og: ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.`

En þér segið: Hver sem segir við föður sinn eða móður: ,Það sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er musterisfé,`

hann á ekki að heiðra föður sinn [eða móður]. Þér ógildið orð Guðs með erfikenning yðar.

Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir:

Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.

Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar."

10 Og hann kallaði til sín mannfjöldann og sagði: "Heyrið og skiljið.

11 Ekki saurgar það manninn, sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn, sem út fer af munni."

12 Þá komu lærisveinar hans og sögðu við hann: "Veistu, að farísearnir hneyksluðust, þegar þeir heyrðu orð þín?"

13 Hann svaraði: "Sérhver jurt, sem faðir minn himneskur hefur eigi gróðursett, mun upprætt verða.

14 Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju."

15 Þá sagði Pétur við hann: "Skýrðu fyrir oss líkinguna."

16 Hann svaraði: "Eruð þér líka skilningslausir ennþá?

17 Skiljið þér ekki, að allt sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni?

18 En það sem út fer af munni, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn.

19 Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi.

20 Þetta er það, sem saurgar manninn. En að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society