Book of Common Prayer
93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.
2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.
3 Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.
4 Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.
5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.
2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.
5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.
9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.
10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.
11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.
12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.
13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,
15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.
16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.
17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.
18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.
20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.
10 Meðan Esra baðst þannig fyrir og bar fram játning sína grátandi og knéfallandi frammi fyrir musteri Guðs, safnaðist til hans mjög mikill skari Ísraelsmanna, karlar og konur og börn, því að fólkið grét hástöfum.
2 Þá tók Sekanja Jehíelsson, af niðjum Elams, til máls og sagði við Esra: "Vér höfum brotið á móti Guði vorum, þar sem vér höfum gengið að eiga útlendar konur af hinum heiðnu íbúum landsins. Þó er ekki öll von úti fyrir Ísrael í þessu efni.
3 Fyrir því skulum vér nú gjöra sáttmála við Guð vorn um að reka burt allar þessar konur og börn þau, er af þeim eru fædd, eftir ráðum herra míns og þeirra manna, er óttast boðorð Guðs vors, og það skal verða farið eftir lögmálinu.
4 Rís upp, því að mál þetta hvílir á þér, og vér munum styðja þig. Hertu nú upp hugann og framkvæmdu þetta."
5 Þá reis Esra upp og lét presta- og levítahöfðingjana og allan Ísrael vinna eið að því, að þeir skyldu hegða sér eftir þessu, og unnu þeir eiðinn.
6 Og Esra reis upp og gekk burt þaðan er hann hafði verið, fyrir framan musteri Guðs, og inn í herbergi Jóhanans Eljasíbssonar. Þar var hann um nóttina og neytti hvorki brauðs né drakk vatn, því að hann var hryggur yfir tryggðrofi hinna herleiddu.
7 Og menn létu boð út ganga um Júda og Jerúsalem til allra þeirra, er heim voru komnir úr herleiðingunni, að safnast saman í Jerúsalem.
8 Og hver sá, er eigi kæmi innan þriggja daga, samkvæmt ráðstöfun höfðingjanna og öldunganna _ allar eigur hans skyldu banni helgaðar og hann sjálfur rekinn úr söfnuði hinna herleiddu.
9 Þá söfnuðust allir Júdamenn og Benjamíns saman í Jerúsalem á þriðja degi, það var í níunda mánuðinum, á tuttugasta degi mánaðarins. Og allt fólkið sat á auða svæðinu fram undan musteri Guðs, skjálfandi út af þessu og af því að stórrigning var.
10 Þá stóð Esra prestur upp og mælti til þeirra: "Þér hafið rofið tryggðir, með því að ganga að eiga útlendar konur, til þess að auka á sekt Ísraels.
11 Gjörið því játningu frammi fyrir Drottni, Guði feðra yðar, og gjörið hans vilja og skiljið yður frá hinum heiðnu íbúum landsins og frá hinum útlendu konum."
12 Og allur söfnuðurinn svaraði og sagði með hárri röddu: "Svo sem þú hefir sagt, þannig er oss skylt að breyta.
13 En fólkið er margt og rigningatími, svo að vér getum ekki staðið úti. Þetta er og meira en eins eða tveggja daga verk, því að vér höfum margfaldlega brotið í þessu efni.
14 Gangi því höfðingjar vorir fram fyrir allan söfnuðinn, og allir þeir í borgum vorum, er gengið hafa að eiga útlendar konur, skulu koma hver á tilteknum tíma, og með þeim öldungar hverrar borgar og dómarar hennar, þar til er þeir hafa snúið hinni brennandi reiði Guðs vors frá oss að því er mál þetta snertir."
15 Þeir Jónatan Asahelsson og Jahseja Tikvason einir mótmæltu þessu, og Mesúllam og Sabtaí levíti studdu þá.
16 Þeir, sem heim voru komnir úr herleiðingunni, gjörðu svo, og Esra prestur valdi sér menn, ætthöfðingja hinna einstöku ætta, og þá alla með nafni, og settust þeir á ráðstefnu hinn fyrsta dag hins tíunda mánaðar til þess að rannsaka málið.
17 Og þeir höfðu að öllu leyti útkljáð mál þeirra manna, er gengið höfðu að eiga útlendar konur, fyrir fyrsta dag hins fyrsta mánaðar.
10 Landstjórinn benti þá Páli að taka til máls. Hann sagði: "Kunnugt er mér um, að þú hefur verið dómari þessarar þjóðar í mörg ár. Mun ég því ótrauður verja mál mitt.
11 Þú getur og gengið úr skugga um, að ekki eru nema tólf dagar síðan ég kom upp til Jerúsalem að biðjast fyrir.
12 Og enginn hefur staðið mig að því að vera að stæla við neinn eða æsa fólk til óspekta, hvorki í samkunduhúsunum né neins staðar í borginni.
13 Þeir geta ekki heldur sannað þér það, sem þeir eru nú að kæra mig um.
14 En hitt skal ég játa þér, að ég þjóna Guði feðra vorra samkvæmt veginum, sem þeir kalla villu, og trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum.
15 Og þá von hef ég til Guðs, sem þeir og sjálfir hafa, að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.
16 Því tem ég mér og sjálfur að hafa jafnan hreina samvisku fyrir Guði og mönnum.
17 Eftir margra ára fjarveru kom ég til að færa fólki mínu ölmusugjafir og til að fórna.
18 Þetta var ég að gjöra í helgidóminum og hafði látið hreinsast, og enginn var þá mannsöfnuður né uppþot, þegar menn komu að mér.
19 Þar voru Gyðingar nokkrir frá Asíu. Þeir hefðu átt að koma fyrir þig og bera fram kæru, hefðu þeir fundið mér eitthvað til saka.
20 Annars skulu þessir, sem hér eru, segja til, hvað saknæmt þeir fundu, þegar ég stóð fyrir ráðinu.
21 Nema það sé þetta eina, sem ég hrópaði, þegar ég stóð meðal þeirra: ,Fyrir upprisu dauðra er ég lögsóttur í dag frammi fyrir yður."`
12 Þá sagði hann við gestgjafa sinn: "Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur, og þú færð endurgjald.
13 Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum,
14 og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra."
15 Þegar einn þeirra, er að borði sátu, heyrði þetta, sagði hann við Jesú: "Sæll er sá, sem neytir brauðs í Guðs ríki."
16 Jesús sagði við hann: "Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum.
17 Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: ,Komið, nú er allt tilbúið.`
18 En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: ,Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.`
19 Annar sagði: ,Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.`
20 Og enn annar sagði: ,Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.`
21 Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: ,Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta.`
22 Og þjónninn sagði: ,Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm.`
23 Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: ,Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist.
24 Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína."`
by Icelandic Bible Society