Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 70-71

70 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.

Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar.

Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.

Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé.

En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"

Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!

71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.

Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.

Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.

Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.

Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.

Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.

Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.

Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.

Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.

10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:

11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."

12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.

13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.

14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.

15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.

16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.

17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.

18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.

19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?

20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.

21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.

22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.

23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.

24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.

Sálmarnir 74

74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?

Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.

Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!

Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.

Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,

höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.

Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.

Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.

Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.

10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?

11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?

12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.

13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,

14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.

15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.

16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.

17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.

18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.

19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.

20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.

21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.

22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.

23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.

Esrabók 7:1-26

Eftir þessa atburði, á ríkisárum Artahsasta Persakonungs, fór Esra Serajason, Asarjasonar, Hilkíasonar,

Sallúmssonar, Sadókssonar, Ahítúbssonar,

Amarjasonar, Asarjasonar, Merajótssonar,

Serahjasonar, Ússísonar, Búkkísonar,

Abísúasonar, Pínehassonar, Eleasarssonar, Aronssonar æðsta prests, _

þessi Esra fór heim frá Babýlon. En hann var fræðimaður, vel að sér í Móselögum, er Drottinn, Ísraels Guð, hefir gefið, og konungur veitti honum allar bænir hans, með því að hönd Drottins, Guðs hans, var yfir honum.

Og nokkrir af Ísraelsmönnum og af prestunum, levítunum, söngvurunum, hliðvörðunum og musterisþjónunum fóru með honum til Jerúsalem á sjöunda ríkisári Artahsasta konungs.

Og hann kom til Jerúsalem í fimmta mánuðinum, það var á sjöunda ríkisári konungs.

Því að hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar bjó hann ferð sína frá Babýlon, og hinn fyrsta dag hins fimmta mánaðar kom hann til Jerúsalem, með því að Guð hans hélt náðarsamlega hönd sinni yfir honum.

10 Því að Esra hafði snúið huga sínum að því að rannsaka lögmál Drottins og breyta eftir því og að kenna lög og rétt í Ísrael.

11 Þetta er afrit af bréfinu, sem Artahsasta konungur fékk Esra presti, fræðimanninum, sem fróður var í ákvæðum boðorða Drottins og í lögum hans, þeim er hann hafði sett Ísrael:

12 "Artahsasta, konungur konunganna, til Esra prests hins fróða í lögmáli Guðs himnanna, og svo framvegis.

13 Ég hefi gefið út skipun um, að hver sá í ríki mínu af Ísraelslýð og af prestum hans og levítum, sem vill fara til Jerúsalem, skuli fara með þér,

14 þar eð þú ert sendur af konungi og sjö ráðgjöfum hans, til þess að gjöra rannsóknir um Júda og Jerúsalem, samkvæmt lögmáli Guðs þíns, sem þú hefir í höndum,

15 og til að flytja silfur það og gull, sem konungur og ráðgjafar hans sjálfviljuglega hafa gefið Ísraels Guði, þeim er bústað á í Jerúsalem,

16 svo og allt það silfur og gull, er þú fær í öllu Babelskattlandi, ásamt sjálfviljagjöfum lýðsins og prestanna, sem og gefa sjálfviljuglega til musteris Guðs síns í Jerúsalem.

17 Fyrir því skalt þú með allri kostgæfni kaupa fyrir fé þetta naut, hrúta, lömb og matfórnir og dreypifórnir þær, er þar til heyra, og fram bera þær á altarinu í húsi Guðs yðar í Jerúsalem.

18 Og það sem þér og bræðrum þínum þóknast að gjöra við afganginn af silfrinu og gullinu, það skuluð þér gjöra samkvæmt vilja Guðs yðar.

19 En áhöldin, sem þér munu verða fengin til guðsþjónustunnar í húsi Guðs þíns, þeim skalt þú skila óskertum frammi fyrir Guði í Jerúsalem.

20 Og annað það, er með þarf við hús Guðs þíns og þú kannt að þurfa að greiða, það skalt þú greiða úr féhirslu konungs.

21 Og ég, Artahsasta konungur, hefi gefið út skipun til allra féhirða í héraðinu hinumegin Fljóts: Allt það, er Esra prestur, sá er fróður er í lögmáli Guðs himnanna, biður yður um, það skal kostgæfilega í té látið,

22 allt að hundrað talentur silfurs og allt að hundrað kór af hveiti og allt að hundrað bat af víni og allt að hundrað bat af olífuolíu og salt ómælt.

23 Allt það, sem þörf er á samkvæmt skipun Guðs himnanna, skal kostgæfilega gjört fyrir hús Guðs himnanna, til þess að reiði komi ekki yfir ríki konungs og sona hans.

24 En yður gefst til vitundar, að engum er heimilt að leggja skatt, toll eða vegagjald á nokkurn prest eða levíta, söngvara, dyravörð, musterisþjón eða starfsmann við þetta musteri Guðs.

25 En þú, Esra, skipa þú samkvæmt visku Guðs þíns, þeirri er þú hefir í hendi þér, dómendur og stjórnendur, til þess að þeir dæmi mál manna hjá öllum lýð í héraðinu hinumegin Fljóts _ hjá þeim er þekkja lög Guðs þíns. Og þeim, er ekki þekkir þau, honum skuluð þér kenna.

26 En hver sá, er eigi breytir eftir lögmáli Guðs þíns og lögmáli konungsins, á honum skal dómur vendilega framkvæmdur verða, hvort heldur er til dauða eða til útlegðar eða til fjárútláta eða til fangelsisvistar."

Opinberun Jóhannesar 14:1-13

14 Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér.

Og ég heyrði rödd af himni sem nið margra vatna og sem gný mikillar þrumu, og röddin, sem ég heyrði, var eins og hörpuhljómur hörpuleikara, sem slá hörpur sínar.

Og þeir syngja nýjan söng frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir verunum fjórum og öldungunum. Og enginn gat numið sönginn nema þær hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, þeir sem út eru leystir frá jörðunni.

Þetta eru þeir, sem ekki hafa saurgast með konum, því að þeir eru sem meyjar. Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu.

Og í munni þeirra var enga lygi að finna, þeir eru lýtalausir.

Og ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð,

og sagði hárri röddu: "Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna."

Og enn annar engill kom á eftir og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla, sem byrlað hefur öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns."

Á eftir þeim kom hinn þriðji engill og sagði hárri röddu: "Ef einhver tilbiður dýrið og líkneski þess og fær merki á enni sitt eða hönd sína,

10 þá skal sá hinn sami drekka af reiði-víni Guðs, sem byrlað er óblandað í reiðibikar hans, og hann mun kvalinn verða í eldi og brennisteini í augsýn heilagra engla og í augsýn lambsins.

11 Og reykurinn frá kvalastað þeirra stígur upp um aldir alda, og eigi hafa þeir hvíld dag eða nótt, þeir sem dýrið tilbiðja og líkneski þess, hver sá sem ber merki nafns þess."

12 Hér reynir á þolgæði hinna heilögu, þeirra er varðveita boð Guðs og trúna á Jesú.

13 Og ég heyrði rödd af himni, sem sagði: "Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu, því að verk þeirra fylgja þeim."

Matteusarguðspjall 14:1-12

14 Um þessar mundir spyr Heródes fjórðungsstjóri tíðindin af Jesú.

Og hann segir við sveina sína: "Þetta er Jóhannes skírari, hann er risinn frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum."

En Heródes hafði látið taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar bróður síns,

því Jóhannes hafði sagt við hann: "Þú mátt ekki eiga hana."

Heródes vildi deyða hann, en óttaðist lýðinn, þar eð menn töldu hann vera spámann.

En á afmælisdegi Heródesar dansaði dóttir Heródíasar dans frammi fyrir gestunum og hreif Heródes svo,

að hann sór þess eið að veita henni hvað sem hún bæði um.

Að undirlagi móður sinnar segir hún: "Gef mér hér á fati höfuð Jóhannesar skírara."

Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna bauð hann að veita henni þetta.

10 Hann sendi í fangelsið og lét hálshöggva Jóhannes þar.

11 Höfuð hans var borið inn á fati og fengið stúlkunni, en hún færði móður sinni.

12 Lærisveinar hans komu, tóku líkið og greftruðu, fóru síðan og sögðu Jesú.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society