Book of Common Prayer
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.
74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.
75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.
76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.
77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.
78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.
79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.
80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.
81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.
82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?
83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.
84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?
85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.
86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.
87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.
88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.
89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.
90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.
91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.
92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.
93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.
94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.
95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.
96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.
4 Áður en þetta varð, hafði Eljasíb prestur, frændi Tobía, sá er settur var yfir herbergi musteris Guðs vors,
5 látið útbúa stórt herbergi handa Tobía, en þar höfðu menn áður látið matfórnina, reykelsið og áhöldin og tíund af korni, aldinlegi og olíu, hið fyrirskipaða gjald til levíta, söngvara og hliðvarða, svo og fórnargjafir til prestanna.
6 Meðan allt þetta gjörðist, var ég ekki í Jerúsalem, því að á þrítugasta og öðru ríkisári Artahsasta konungs í Babýlon fór ég til konungsins. En að nokkrum tíma liðnum beiddist ég orlofs af konungi.
7 Og er ég kom til Jerúsalem, sá ég hvílíka óhæfu Eljasíb hafði gjört vegna Tobía með því að útbúa handa honum klefa í forgörðum Guðs musteris.
8 Mér mislíkaði þetta stórum, og kastaði ég öllum húsgögnum Tobía út úr herberginu
9 og bauð að hreinsa herbergin, bar síðan aftur inn þangað áhöld Guðs musteris, matfórnina og reykelsið.
10 Ég komst og að því, að greiðslurnar til levítanna höfðu eigi verið inntar af hendi, svo að levítarnir og söngvararnir, er þjónustunni áttu að gegna, voru allir flúnir út á lendur sínar.
11 Þá taldi ég á yfirmennina og sagði: "Hvers vegna er hús Guðs yfirgefið?" Og ég stefndi þeim saman og setti þá á sinn stað.
12 Þá færðu allir Júdamenn tíundina af korni, aldinlegi og olíu í forðabúrin,
13 og ég skipaði yfir forðabúrin þá Selemja prest og Sadók fræðimann, og Pedaja af levítunum, og þeim til aðstoðar Hanan Sakkúrsson, Mattanjasonar, því að þeir voru taldir áreiðanlegir og það var þeirra skylda að útdeila bræðrum sínum.
14 Mundu mér þetta, Guð minn, og afmá eigi góðverk mín, þau er ég hefi gjört fyrir hús Guðs míns og þjónustu hans.
15 Um sömu mundir sá ég í Júda menn vera að troða vínlagarþrær á hvíldardegi og flytja heim kornbundin og aðra vera að klyfja asna víni, vínberjum, fíkjum og alls konar þungavöru og koma með þá á hvíldardegi til Jerúsalem. Og ég áminnti þá, þegar þeir seldu matvæli.
16 Og Týrusmenn, sem setst höfðu þar að, fluttu þangað fisk og alls konar torgvöru og seldu Júdamönnum það á hvíldardögum í Jerúsalem.
17 Þá taldi ég á tignarmenn Júda og sagði við þá: "Hvílík óhæfa er það, sem þér hafið í frammi, að vanhelga hvíldardaginn!
18 Hafa eigi feður yðar breytt svo og Guð vor þess vegna látið alla þessa ógæfu yfir oss dynja og yfir þessa borg? En þér aukið enn meir á reiði hans við Ísrael með því að vanhelga hvíldardaginn."
19 Og þegar myrkt var orðið í borgarhliðum Jerúsalem og hvíldardagur fór í hönd, þá bauð ég að loka skyldi hliðunum, og enn fremur bauð ég að eigi skyldi opna þau aftur fyrr en að hvíldardeginum liðnum. Og ég setti nokkra af sveinum mínum við borgarhliðin, til þess að engin þungavara kæmi inn á hvíldardegi.
20 Þá náttuðu kaupmenn og þeir, er seldu alls konar torgvöru, fyrir utan Jerúsalem, einu sinni eða tvisvar.
21 Þá áminnti ég þá og sagði við þá: "Hví náttið þér úti fyrir borgarmúrunum? Ef þér gjörið það oftar, legg ég hendur á yður." Upp frá því komu þeir ekki á hvíldardegi.
22 Þá bauð ég levítunum, að þeir skyldu hreinsa sig og koma síðan og gæta borgarhliðanna, til þess að helga þannig hvíldardaginn. Mundu mér og þetta, Guð minn, og þyrm mér af mikilli miskunn þinni.
12 Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar, og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum.
2 Hún var þunguð, og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum.
3 Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður, er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn.
4 Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt.
5 Hún fæddi son, sveinbarn, sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans.
6 En konan flýði út á eyðimörkina, þar sem Guð hefur búið henni stað og þar sem séð verður fyrir þörfum hennar í eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga.
7 Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans,
8 en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni.
9 Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.
10 Og ég heyrði mikla rödd á himni segja: "Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt.
11 Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.
12 Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma."
53 Þegar Jesús hafði lokið þessum dæmisögum, hélt hann þaðan.
54 Hann kom í ættborg sína og tók að kenna þeim í samkundu þeirra. Þeir undruðust stórum og sögðu: "Hvaðan kemur honum þessi speki og kraftaverkin?
55 Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas?
56 Og eru ekki systur hans allar hjá oss? Hvaðan kemur honum þá allt þetta?"
57 Og þeir hneyksluðust á honum. En Jesús sagði við þá: "Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu og með heimamönnum."
58 Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra.
by Icelandic Bible Society