Book of Common Prayer
61 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.
2 Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni.
3 Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.
4 Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum.
5 Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]
6 Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.
7 Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns.
8 Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann.
9 Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.
62 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt.
3 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.
4 Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman gegn einum manni til að fella hann eins og hallan vegg, eins og hrynjandi múr?
5 Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans, þeir hafa yndi af lygi, þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. [Sela]
6 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín.
7 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.
8 Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd, minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði.
9 Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli. [Sela]
10 Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman.
11 Treystið eigi ránfeng og alið eigi fánýta von til rændra muna, þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum.
12 Eitt sinn hefir Guð talað, tvisvar hefi ég heyrt það: "Hjá Guði er styrkleikur."
13 Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn, því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.
68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.
2 Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.
3 Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.
4 En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.
5 Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.
6 Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.
7 Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.
8 Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]
9 þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.
10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.
11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.
12 Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her:
13 "Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi.
14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli."
15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon.
16 Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall.
17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?
18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.
19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.
20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]
21 Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.
22 Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna, hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni.
23 Drottinn hefir sagt: "Ég vil sækja þá til Basan, flytja þá frá djúpi hafsins,
24 að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum."
25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.
26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.
27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.
28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.
29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss
30 frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir.
31 Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!
32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.
33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, [Sela]
34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.
35 Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum.
36 Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum, Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin. Lofaður sé Guð!
27 Þá er vígja skyldi múra Jerúsalem, sóttu menn levítana frá öllum stöðum þeirra til þess að fara með þá til Jerúsalem, svo að þeir mættu halda vígsluhátíð með fagnaðarlátum og þakkargjörð og með söng, skálabumbum, hörpum og gígjum.
28 Þá söfnuðust söngflokkarnir saman, bæði úr nágrenninu kringum Jerúsalem og úr þorpum Netófatíta
29 og frá Bet Gilgal og Gebasveitum og Asmavet, því að söngvararnir höfðu byggt sér þorp kringum Jerúsalem.
30 Og prestarnir og levítarnir hreinsuðu sig og hreinsuðu því næst lýðinn og hliðin og múrana.
31 Og ég lét höfðingja Júda stíga upp á múrinn og fylkti tveimur stórum lofgjörðarsöngflokkum og skrúðsveitum. Gekk annar söngflokkurinn til hægri uppi á múrnum til Mykjuhliðs,
42 og Maaseja, Semaja, Eleasar, Ússí, Jóhanan, Malkía, Elam og Eser. Og söngvararnir létu til sín heyra, og Jisrahja var yfirmaður þeirra.
43 Og menn fórnuðu miklum fórnum þennan dag og glöddust, því að Guð hafði veitt þeim mikla gleði, og konur og börn glöddust líka, svo að gleði Jerúsalem spurðist víðsvegar.
44 Þennan sama dag voru skipaðir tilsjónarmenn yfir klefana, sem hafðir voru að forðabúrum fyrir fórnargjafir, frumgróðafórnir og tíundir, til þess að þangað væri safnað greiðslum þeim af ökrunum umhverfis borgirnar, er prestunum og levítunum báru eftir lögmálinu, því að Júda gladdist yfir prestunum og levítunum, þeim er þjónustu gegndu.
45 Þeir gættu þess, sem gæta átti við Guð þeirra, og þess sem gæta átti við hreinsunina. Svo gjörðu og söngvararnir og hliðverðirnir, samkvæmt fyrirmælum Davíðs og Salómons sonar hans,
46 því að þegar forðum, á dögum Davíðs og Asafs, yfirmanns söngvaranna, var til lofgjörðar- og þakkargjörðarsöngur til handa Guði.
47 Og allir Ísraelsmenn inntu af hendi á dögum Serúbabels og á dögum Nehemía greiðslurnar til söngvaranna og hliðvarðanna, það er með þurfti á degi hverjum, og þeir greiddu levítunum helgigjafir, og levítarnir greiddu Arons niðjum helgigjafir.
11 Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt var: "Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja.
2 Og láttu forgarðinn, sem er fyrir utan musterið, vera fyrir utan og mæl hann ekki, því að hann er fenginn heiðingjunum, og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði.
3 Vottana mína tvo mun ég láta flytja spádómsorð í eitt þúsund tvö hundruð og sextíu daga, sekkjum klædda."
4 Þetta eru olíuviðirnir tveir og ljósastikurnar tvær, sem standa frammi fyrir Drottni jarðarinnar.
5 Og ef einhver vill granda þeim, gengur eldur út úr munni þeirra og eyðir óvinum þeirra. Ef einhver skyldi vilja granda þeim, skal hann með sama hætti deyddur verða.
6 Þeir hafa vald til að loka himninum, til þess að eigi rigni um spádómsdaga þeirra. Og þeir hafa vald yfir vötnunum, að breyta þeim í blóð og slá jörðina með hvers kyns plágu, svo oft sem þeir vilja.
7 Og er þeir hafa lokið vitnisburði sínum, mun dýrið, sem upp stígur úr undirdjúpinu, heyja stríð við þá og mun sigra þá og deyða þá.
8 Og lík þeirra munu liggja á strætum borgarinnar miklu, sem andlega heitir Sódóma og Egyptaland, þar sem og Drottinn þeirra var krossfestur.
9 Menn af ýmsum lýðum, kynkvíslum, tungum og þjóðum sjá lík þeirra þrjá og hálfan dag og leyfa ekki að þau verði lögð í gröf.
10 Og þeir, sem á jörðunni búa, gleðjast yfir þeim og fagna og senda hver öðrum gjafir, því að þessir tveir spámenn kvöldu þá, sem á jörðunni búa.
11 Og eftir dagana þrjá og hálfan fór lífsandi frá Guði í þá, og þeir risu á fætur. Og ótti mikill féll yfir þá, sem sáu þá.
12 Og þeir heyrðu rödd mikla af himni, sem sagði við þá: "Stígið upp hingað." Og þeir stigu upp til himins í skýi og óvinir þeirra horfðu á þá.
13 Á þeirri stundu varð landskjálfti mikill, og tíundi hluti borgarinnar hrundi og í landskjálftanum deyddust sjö þúsundir manna. Og þeir, sem eftir voru, urðu ótta slegnir og gáfu Guði himinsins dýrðina.
14 Veiið hið annað er liðið hjá. Sjá, veiið hið þriðja kemur brátt.
15 Og sjöundi engillinn básúnaði. Þá heyrðust raddir miklar á himni er sögðu: "Drottinn og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda."
16 Og öldungarnir tuttugu og fjórir, þeir er sitja frammi fyrir Guði í hásætum sínum, féllu fram á ásjónur sínar, tilbáðu Guð
17 og sögðu: Vér þökkum þér, Drottinn Guð, þú alvaldi, þú sem ert og þú sem varst, að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla og gjörst konungur.
18 Heiðingjarnir reiddust, en reiði þín kom, sá tími, er dauðir skulu dæmdir verða, og tíminn til að gefa laun þjónum þínum, spámönnunum og hinum heilögu og þeim, sem óttast nafn þitt, smáum og stórum, og til að eyða þeim, sem jörðina eyða.
19 Og musteri Guðs opnaðist, það sem á himni er, og sáttmálsörk hans birtist í musteri hans. Og eldingar komu og dunur og þrumur og landskjálfti og hagl mikið.
44 Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.
45 Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum.
46 Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.
47 Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski.
48 Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt.
49 Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum
50 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.
51 Hafið þér skilið allt þetta?" "Já," svöruðu þeir.
52 Hann sagði við þá: "Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu."
by Icelandic Bible Society