Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 56-58

56 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.

Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.

Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.

Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.

Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?

Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.

Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.

Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.

Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.

10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.

11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.

12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,

14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.

57 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál.

Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.

Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.

Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti.

Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!

Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela]

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.

Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

11 því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.

12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.

58 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam.

Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir? Dæmið þér mennina með sanngirni?

Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu, hendur yðar vega út ofbeldi.

Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið, lygarar fara villir vegar frá móðurskauti.

Eitur þeirra er eins og höggormseitur, þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum

til þess að heyra ekki raust særingamannsins né hins slungna töframanns.

Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra, mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn!

Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt; miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir,

eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur, ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina.

10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum, hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi, feykir hann hinum illa burt.

11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina, hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu.

12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt; það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.

Sálmarnir 64-65

64 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Heyr, ó Guð, raust mína, er ég kveina, varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins.

Skýl mér fyrir bandalagi bófanna, fyrir óaldarflokki illvirkjanna,

er hvetja tungur sínar sem sverð, leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng

til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda, skjóta á hann allt í einu, hvergi hræddir.

Þeir binda fastmælum með sér ill áform, tala um að leggja leynisnörur, þeir hugsa: "Hver ætli sjái það?"

Þeir upphugsa ranglæti: "Vér erum tilbúnir, vel ráðin ráð!" því að hugskot hvers eins og hjarta er fullt véla.

Þá lýstur Guð þá með örinni, allt í einu verða þeir sárir,

og tunga þeirra verður þeim að falli. Allir þeir er sjá þá, munu hrista höfuðið.

10 Þá mun hver maður óttast og kunngjöra dáðir Guðs og gefa gætur að verkum hans.

11 Hinn réttláti mun gleðjast yfir Drottni og leita hælis hjá honum, og allir hjartahreinir munu sigri hrósa.

65 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd.

Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.

Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.

Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.

Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda,

þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika,

þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,

svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.

10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.

11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.

12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.

13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.

14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.

Nehemíabók 6

Þegar þeir Sanballat, Tobía og Gesem hinn arabíski og aðrir óvinir vorir spurðu það, að ég hefði byggt upp múrinn og að ekkert skarð væri framar í hann, þótt ég þá hefði eigi enn sett hurðir í hliðin,

þá sendu þeir Sanballat og Gesem til mín og létu segja mér: "Kom þú, svo að vér megum eiga fund með oss í einhverju af þorpunum í Ónódalnum." En þeir höfðu í hyggju að gjöra mér illt.

Þá gjörði ég menn til þeirra og lét segja þeim: "Ég hefi mikið starf með höndum og get því eigi komið ofan eftir. Hví ætti verkið að bíða, af því að ég yfirgæfi það og færi ofan til ykkar?"

Fjórum sinnum sendu þeir til mín á þennan hátt, og ég svaraði þeim á sömu leið.

Þá sendi Sanballat enn í fimmta sinn til mín, og það svein sinn með opið bréf í hendi.

Í því var ritað: "Sú saga gengur hjá þjóðunum, og Gasmú segir hið sama, að þú og Gyðingar hyggið á uppreisn _ fyrir því sért þú að byggja upp múrinn _ og þú ætlir að verða konungur þeirra, eins og sjá megi á öllu.

Þú hefir og sett spámenn til þess að gjöra það hljóðbært um þig í Jerúsalem og segja: ,Hann sé konungur í Júda.` Og nú mun slíkur orðrómur berast konungi til eyrna. Kom því, og skulum vér eiga fund með oss."

Þá sendi ég til hans og lét segja honum: "Ekkert slíkt á sér stað, sem þú talar um, heldur hefir þú spunnið það upp frá eigin brjósti."

Því að þeir ætluðu allir að gjöra oss hrædda og hugsuðu: "Þeim munu fallast hendur og hætta við verkið, svo að því verður eigi lokið." Styrk því nú hendur mínar!

10 Og ég gekk inn í hús Semaja Delajasonar, Mehetabeelssonar, en hann hafði lokað sig inni. Hann sagði: "Við skulum fara saman inn í musteri Guðs, inn í aðalhúsið, og loka síðan dyrum aðalhússins, því að þeir munu koma til að drepa þig, já, um nótt munu þeir koma til að drepa þig."

11 En ég sagði: "Ætti slíkur maður sem ég að flýja? Og hver er sá minn líki, sem geti farið inn í aðalhúsið og haldið lífi? Ég fer hvergi."

12 Og ég sá, að Guð hafði ekki sent hann, heldur hafði hann spáð mér þessu, af því að Tobía og Sanballat höfðu keypt hann.

13 Til þess var hann keyptur, að ég skyldi verða hræddur og gjöra þetta og drýgja synd. Og það hefði orðið þeim tilefni til ills umtals, til þess að þeir gætu ófrægt mig.

14 Mundu, Guð minn, þeim Tobía og Sanballat þessar aðgjörðir þeirra, svo og spákonunni Nóadja og hinum spámönnunum, sem ætluðu að hræða mig.

15 Og múrinn var fullgjör hinn tuttugasta og fimmta elúlmánaðar, á fimmtíu og tveim dögum.

16 Og er allir óvinir vorir spurðu þetta, urðu allar þjóðirnar, sem bjuggu umhverfis oss, hræddar, og þær lækkuðu mjög í eigin áliti, því að þær könnuðust við, að fyrir hjálp Guðs vors hafði verki þessu orðið lokið.

17 Í þann tíð rituðu og tignarmenn Júdalýðs mörg bréf og sendu Tobía, og frá Tobía komu líka bréf til þeirra.

18 Því að margir í Júda voru bundnir honum með eiði, því að hann var tengdasonur Sekanja Arasonar, og Jóhanan sonur hans hafði gengið að eiga dóttur Mesúllams Berekíasonar.

19 Þeir töluðu og um mannkosti hans við mig og báru honum aftur orð mín. Bréf hafði og Tobía sent til þess að hræða mig.

Opinberun Jóhannesar 10

10 Og ég sá annan sterkan engil stíga af himni ofan, hjúpaðan skýi. Regnboginn var yfir höfði honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur hans sem eldstólpar.

Hann hafði í hendi sér litla bók opna. Hægra fæti stóð hann á hafinu, en vinstra fæti á jörðinni.

Hann kallaði hárri röddu, eins og þegar ljón öskrar. Er hann hafði kallað, töluðu þrumurnar sjö sínum raustum.

Og er þrumurnar sjö höfðu talað, ætlaði ég að fara að rita. Þá heyrði ég rödd af himni, sem sagði: "Innsigla þú það, sem þrumurnar sjö töluðu, og rita það ekki."

Og engillinn, sem ég sá standa á hafinu og á jörðinni, hóf upp hægri hönd sína til himins

og sór við þann, sem lifir um aldir alda, hann sem himininn skóp og það sem í honum er, jörðina og það sem á henni er, og hafið og það sem í því er: Enginn frestur skal lengur gefinn verða,

en þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað þjónum sínum, spámönnunum.

Og röddina, sem ég heyrði af himni, heyrði ég aftur tala við mig. Hún sagði: "Far og tak opnu bókina úr hendi engilsins, sem stendur á hafinu og á jörðunni."

Ég fór til engilsins og bað hann að fá mér litlu bókina. Og hann segir við mig: "Tak og et hana eins og hún er, hún mun verða beisk í kviði þínum, en í munni þínum mun hún verða sæt sem hunang."

10 Ég tók litlu bókina úr hendi engilsins og át hana upp, og í munni mér var hún sæt sem hunang. En er ég hafði etið hana, fann ég til beiskju í kviði mínum.

11 Þá segja þeir við mig: "Enn átt þú að spá um marga lýði og þjóðir og tungur og konunga."

Matteusarguðspjall 13:36-43

36 Þá skildi hann við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: "Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum."

37 Hann mælti: "Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn,

38 akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda.

39 Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar.

40 Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar.

41 Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja,

42 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

43 Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society