Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 55

55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.

Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.

Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn

sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.

Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,

ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,

svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,

já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]

Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."

10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.

11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.

12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.

13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,

14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,

15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.

16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.

17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.

18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.

19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.

20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.

21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.

22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.

23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.

24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.

Sálmarnir 138:1-139:23

138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.

Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.

Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.

Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.

Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.

Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.

Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.

Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.

139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.

Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.

Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.

Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?

Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,

10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.

11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"

12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.

13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.

14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.

15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.

16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.

17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.

18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.

20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.

21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?

22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.

23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,

Nehemíabók 4

Þá er Sanballat heyrði, að vér værum að endurreisa múrinn, varð hann reiður og gramdist honum það mjög. Og hann gjörði gys að Gyðingum

og talaði í áheyrn bræðra sinna og herliðs Samaríu og mælti: "Hvað hafa Gyðingarnir fyrir stafni, þeir vesalingar? Skyldu þeir hætta við það aftur? Munu þeir fórna? Ætli þeir ljúki við það í dag? Munu þeir gjöra steinana í rústahaugunum lifandi, þar sem þeir þó eru brunnir?"

Og Tobía Ammóníti stóð hjá honum og mælti: "Hvað sem þeir nú eru að byggja _ ef refur stigi á það, þá mundi steinveggur þeirra hrynja undan honum!"

Heyr, Guð vor, hversu vér erum smánaðir! Lát háð þeirra koma þeim sjálfum í koll og framsel þá til ráns hernumda í öðru landi.

Hyl eigi misgjörð þeirra, og synd þeirra afmáist aldrei fyrir augliti þínu, því að þeir hafa egnt þig til reiði í augsýn þeirra, sem eru að byggja.

En vér héldum áfram að byggja múrinn og allur múrinn varð fullgjör upp að miðju, og hafði lýðurinn áhuga á verkinu.

En er Sanballat og Tobía og Arabar og Ammónítar og Asdódmenn heyrðu, að farið væri að gjöra við múra Jerúsalem, að skörðin væru tekin að fyllast, urðu þeir mjög reiðir.

Og þeir tóku sig allir saman um að koma og herja á Jerúsalem og gjöra þar spell.

En vér gjörðum bæn vora til Guðs vors og settum vörð gegn þeim bæði dag og nótt af ótta fyrir þeim.

10 En Gyðingar sögðu: "Burðarmennirnir gefast upp og rústirnar eru miklar og þá getum vér ekki byggt múrinn."

11 En mótstöðumenn vorir hugsuðu: "Þeir skulu ekkert vita og einskis varir verða, fyrr en vér ráðumst á þá og brytjum þá niður og gjörum enda á verkinu."

12 En er Gyðingar þeir, sem bjuggu í grennd við þá, komu og sögðu við oss sjálfsagt tíu sinnum, úr öllum áttum: "Þér verðið að koma til vor!"

13 þá lét ég staðar nema á lægstu stöðunum bak við múrinn, á sólbrunnu stöðunum, þar lét ég lýðinn nema staðar eftir ættum, með sverðum sínum, lensum og bogum.

14 Og ég litaðist um, reis upp og sagði við tignarmennina og yfirmennina og hitt fólkið: "Eigi skuluð þér óttast þá. En minnist Drottins, hins mikla og ógurlega, og berjist fyrir bræður yðar, sonu yðar, dætur yðar, konur yðar og hús yðar."

15 En er óvinir vorir heyrðu, að vér værum orðnir þess vísir og að Guð hefði ónýtt ráðagjörð þeirra, þá gátum vér allir snúið aftur að múrnum, hver til sinnar vinnu.

16 En frá þeim degi vann aðeins helmingur sveina minna að verkinu. Hinn helmingur þeirra hélt á lensunum, skjöldunum, bogunum og pönsurunum, en foringjarnir stóðu bak við alla Júdamenn, þá er voru að byggja upp múrinn.

17 En burðarmennirnir voru búnir til bardaga. Með annarri hendinni unnu þeir að verkinu, en með hinni héldu þeir á skotspjótinu.

18 Og þeir sem hlóðu voru allir gyrtir sverði um lendar sér og hlóðu þannig, en lúðursveinninn stóð hjá mér.

19 Og ég sagði við tignarmennina og yfirmennina og aðra af lýðnum: "Verkið er stórt og umfangsmikið, og vér erum tvístraðir á múrnum, langt í burtu hver frá öðrum.

20 Þar sem þér heyrið lúðurhljóminn, þangað skuluð þér safnast til vor. Guð vor mun berjast fyrir oss."

21 Þannig unnum vér að verkinu, en helmingur þeirra hélt á lensunum, frá því er morgunroðinn færðist upp á himininn og þar til er stjörnurnar komu fram.

22 Þá sagði ég og við lýðinn: "Allir skulu vera í Jerúsalem á næturnar, ásamt sveinum sínum, til þess að þeir séu vörður fyrir oss á nóttunni, en vinni að verkinu á daginn."

23 En ég og bræður mínir og sveinar mínir og varðmennirnir, er fylgdu mér, vér fórum aldrei af klæðum, og sérhver hafði skotspjót sitt við hægri hlið sér.

Opinberun Jóhannesar 7:4-17

Og ég heyrði tölu þeirra, sem merktir voru innsigli, hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir af öllum ættkvíslum Ísraelssona voru merktar innsigli.

Af Júda ættkvísl voru tólf þúsund merkt innsigli, af Rúbens ættkvísl tólf þúsund, af Gaðs ættkvísl tólf þúsund,

af Assers ættkvísl tólf þúsund, af Naftalí ættkvísl tólf þúsund, af Manasse ættkvísl tólf þúsund,

af Símeons ættkvísl tólf þúsund, af Leví ættkvísl tólf þúsund, af Íssakars ættkvísl tólf þúsund,

af Sebúlons ættkvísl tólf þúsund, af Jósefs ættkvísl tólf þúsund, af Benjamíns ættkvísl tólf þúsund menn merktir innsigli.

Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum.

10 Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.

11 Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð

12 og sögðu: Amen, lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.

13 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: "Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?"

14 Og ég sagði við hann: "Herra minn, þú veist það." Hann sagði við mig: "Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.

15 Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá.

16 Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti.

17 Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra."

Matteusarguðspjall 13:31-35

31 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn.

32 Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess."

33 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."

34 Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins, og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra.

35 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn spámannsins: Ég mun opna munn minn í dæmisögum, mæla fram það, sem hulið var frá grundvöllun heims.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society