Book of Common Prayer
63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.
2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.
5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.
9 Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.
10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.
11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.
12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.
98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.
4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
1 Á öðru ríkisári Daríusar konungs, hinn fyrsta dag hins sjötta mánaðar, kom orð Drottins fyrir munn Haggaí spámanns til Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og til Jósúa Jósadakssonar æðsta prests, svo hljóðandi:
2 Svo segir Drottinn allsherjar: Þessi lýður segir: "Enn er ekki tími kominn til að endurreisa hús Drottins."
3 Þá kom orð Drottins fyrir munn Haggaí spámanns, svo hljóðandi:
4 Er þá tími fyrir yður að búa í þiljuðum húsum, meðan þetta hús liggur í rústum?
5 Og nú segir Drottinn allsherjar svo: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer!
6 Þér sáið miklu, en safnið litlu, etið, en verðið eigi saddir, drekkið, en fáið eigi nægju yðar, klæðið yður, en verðið þó ekki varmir, og sá sem vinnur fyrir kaupi, vinnur fyrir því í götótta pyngju.
7 Svo segir Drottinn allsherjar: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer!
8 Farið upp í fjöllin, sækið við og reisið musterið, þá mun ég hafa velþóknun á því og gjöra mig vegsamlegan! _ segir Drottinn.
9 Þér búist við miklu, en fáið lítið í aðra hönd, og þó þér flytjið það heim, þá blæs ég það burt. Hvers vegna? segir Drottinn allsherjar. Vegna húss míns, af því að það liggur í rústum, meðan sérhver yðar flýtir sér með sitt hús.
10 Fyrir því heldur himinninn uppi yfir yður aftur dögginni og fyrir því heldur jörðin aftur gróðri sínum.
11 Ég kallaði þurrk yfir landið og yfir fjöllin, yfir kornið, vínberjalöginn og olíuna og yfir það, sem jörðin af sér gefur, yfir menn og skepnur og yfir allan handafla.
12 Þá hlýddi Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson æðsti prestur og allt það, er eftir var orðið lýðsins, röddu Drottins Guðs þeirra og orðum Haggaí spámanns, þeim er Drottinn Guð þeirra hafði sent hann með, og lýðurinn óttaðist Drottin.
13 Þá sagði Haggaí, sendiboði Drottins, við lýðinn, samkvæmt boðskap Drottins: Ég er með yður! _ segir Drottinn.
14 Og Drottinn vakti hug Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og hug Jósúa Jósadakssonar æðsta prests og hug alls þess, er eftir var orðið lýðsins, svo að þeir komu og hófu að byggja hús Drottins allsherjar, Guðs þeirra,
15 á tuttugasta og fjórða degi hins sjötta mánaðar, á öðru ríkisári Daríusar konungs.
2 Á tuttugasta og fyrsta degi hins sjöunda mánaðar talaði Drottinn fyrir munn Haggaí spámanns á þessa leið:
2 Mæl þú til Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og til Jósúa Jósadakssonar æðsta prests og til þeirra sem eftir eru af lýðnum, á þessa leið:
3 Hver er sá af yður eftir orðinn, er séð hefir þetta hús í sinni fyrri vegsemd, og hversu virðist yður það nú? Er það ekki einskisvert í yðar augum?
4 En ver samt hughraustur, Serúbabel _ segir Drottinn _ og ver hughraustur, Jósúa Jósadaksson æðsti prestur, og ver hughraustur, allur landslýður _ segir Drottinn _ og haldið áfram verkinu, því að ég er með yður _ segir Drottinn allsherjar _
5 samkvæmt heiti því, er ég gjörði við yður, þá er þér fóruð af Egyptalandi, og andi minn dvelur meðal yðar. Óttist ekki.
6 Því að svo segir Drottinn allsherjar: Eftir skamma hríð mun ég hræra himin og jörð, haf og þurrlendi.
7 Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð _ segir Drottinn allsherjar.
8 Mitt er silfrið, mitt er gullið _ segir Drottinn allsherjar.
9 Hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri verða en hin fyrri var _ segir Drottinn allsherjar _ og ég mun veita heill á þessum stað _ segir Drottinn allsherjar.
24 En Gyðingur nokkur, Apollós að nafni, ættaður frá Alexandríu, kom til Efesus. Hann var maður vel máli farinn og fær í ritningunum.
25 Hann hafði verið fræddur um veg Drottins, og brennandi í andanum talaði hann og kenndi kostgæfilega um Jesú. Þó þekkti hann aðeins skírn Jóhannesar.
26 Þessi maður tók nú að tala djarflega í samkunduhúsinu. Priskilla og Akvílas heyrðu til hans, tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg.
27 Hann fýsti að fara yfir til Akkeu. Bræðurnir hvöttu hann til þess og rituðu lærisveinunum þar að taka honum vel. Hann kom þangað og varð til mikillar hjálpar þeim, sem fyrir Guðs náð höfðu tekið trú,
28 því hann hrakti skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum, að Jesús væri Kristur.
19 Meðan Apollós var í Korintu, fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina.
2 Hann sagði við þá: "Fenguð þér heilagan anda, er þér tókuð trú?" Þeir svöruðu: "Nei, vér höfum ekki einu sinni heyrt, að heilagur andi sé til."
3 Hann sagði: "Upp á hvað eruð þér þá skírðir?" Þeir sögðu: "Skírn Jóhannesar."
4 Þá mælti Páll: "Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði lýðnum að trúa á þann, sem eftir sig kæmi, það er á Jesú."
5 Þegar þeir heyrðu þetta, létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú.
6 Er Páll hafði lagt hendur yfir þá, kom heilagur andi yfir þá, og þeir töluðu tungum og spáðu.
7 Þessir menn voru alls um tólf.
25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
26 Jesús sagði við hann: "Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?"
27 Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig."
28 Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa."
29 En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: "Hver er þá náungi minn?"
30 Því svaraði Jesús svo: "Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona.
31 Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá.
32 Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá.
33 En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann,
34 gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann.
35 Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.`
36 Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?"
37 Hann mælti: "Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum." Jesús sagði þá við hann: "Far þú og gjör hið sama."
by Icelandic Bible Society