Book of Common Prayer
31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,
3 hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.
4 Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.
5 Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.
6 Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!
7 Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en Drottni treysti ég.
8 Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni
9 og eigi ofurselt mig óvinunum, en sett fót minn á víðlendi.
10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur, döpruð af harmi eru augu mín, sál mín og líkami.
11 Ár mín líða í harmi og líf mitt í andvörpum, mér förlast kraftur sakir sektar minnar, og bein mín tærast.
12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum, til háðungar nábúum mínum og skelfing kunningjum mínum: þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.
13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker.
14 Ég heyri illyrði margra, _ skelfing er allt um kring _ þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi.
15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"
16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.
17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku þinnar.
18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig. Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar.
19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu.
20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.
21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.
22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.
23 Ég hugsaði í angist minni: "Ég er burtrekinn frá augum þínum." En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín.
24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.
25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin.
35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.
2 Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.
3 Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"
4 Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.
5 Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.
6 Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.
7 Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.
8 Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.
9 En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.
10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"
11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.
12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.
13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,
14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.
15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.
16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.
17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.
18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.
19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.
20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.
21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"
22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.
23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.
24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,
25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."
26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.
27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"
28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.
3 En er sjöundi mánuðurinn kom, og Ísraelsmenn voru í borgunum, safnaðist lýðurinn saman eins og einn maður í Jerúsalem.
2 Þá tóku þeir sig til, Jósúa Jósadaksson og bræður hans, prestarnir, og Serúbabel Sealtíelsson og bræður hans, og reistu altari Ísraels Guðs, til þess að á því yrðu færðar brennifórnir eftir því, sem fyrir er mælt í lögmáli guðsmannsins Móse.
3 Og þeir reistu altarið þar, er það áður hafði staðið, því að þeim stóð ótti af landsbúum, og færðu Drottni brennifórnir á því, morgunbrennifórnir og kveldbrennifórnir.
4 Og þeir héldu laufskálahátíðina, eftir því sem fyrir er mælt, og báru fram brennifórnir á degi hverjum með réttri tölu, að réttum sið, það er við átti á hverjum degi,
5 og því næst hinar stöðugu brennifórnir, og fórnir tunglkomuhátíðanna og allra hinna helgu löghátíða Drottins, svo og fórnir allra þeirra, er færðu Drottni sjálfviljafórn.
6 Frá fyrsta degi hins sjöunda mánaðar byrjuðu þeir að færa Drottni brennifórnir, og hafði þá eigi enn verið lagður grundvöllur að musteri Drottins.
7 Og þeir gáfu steinsmiðunum og trésmiðunum silfur og Sídoningum og Týrusmönnum mat og drykk og olífuolíu til að flytja sedrusvið frá Líbanon sjóleiðis til Jafó samkvæmt leyfi Kýrusar Persakonungs þeim til handa.
8 Á öðru ári eftir heimkomu þeirra til húss Guðs í Jerúsalem, í öðrum mánuðinum, byrjuðu þeir Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson og aðrir bræður þeirra, prestarnir og levítarnir og allir þeir, er komnir voru úr útlegðinni til Jerúsalem, að setja levíta, tvítuga og þaðan af eldri, til að hafa eftirlit með byggingu húss Drottins.
9 Og þannig gengu þeir Jósúa, synir hans og bræður hans, Kadmíel og synir hans, synir Hódavja, synir Henadads, svo og synir þeirra og bræður þeirra, levítarnir, sem einn maður að því verki að hafa eftirlit með þeim, er unnu að byggingu Guðs húss.
10 Og er smiðirnir lögðu grundvöllinn að musteri Drottins, námu prestarnir þar staðar í embættisskrúða með lúðra og levítarnir, niðjar Asafs, með skálabumbur, til þess að vegsama Drottin eftir tilskipun Davíðs Ísraelskonungs.
11 Og þeir hófu að lofa og vegsama Drottin fyrir það, að hann er góður og að miskunn hans við Ísrael er eilíf. Og allur lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi og lofaði Drottin fyrir það, að grundvöllur var lagður að húsi Drottins.
12 En margir af prestunum og levítunum og ætthöfðingjunum _ öldungar þeir, er séð höfðu hið fyrra musterið _ grétu hástöfum, þegar grundvöllur þessa húss var lagður að þeim ásjáandi, en margir æptu líka fagnaðar- og gleðióp.
13 Og lýðurinn gat ekki greint fagnaðarópin frá gráthljóðunum í fólkinu, því að lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi, og heyrðist ómurinn langar leiðir.
10 Ef Tímóteus kemur, þá sjáið til þess, að hann geti óttalaust hjá yður verið, því að hann starfar að verki Drottins eins og ég.
11 Þess vegna lítilsvirði enginn hann, greiðið heldur ferð hans í friði, til þess að hann geti komist til mín. Því að ég vænti hans með bræðrunum.
12 En hvað snertir bróður Apollós, þá hef ég mikillega hvatt hann til að verða bræðrunum samferða til yðar. En hann var alls ófáanlegur til að fara nú, en koma mun hann, er hentugleikar hans leyfa.
13 Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir og styrkir.
14 Allt sé hjá yður í kærleika gjört.
15 Um eitt bið ég yður, bræður. Þér vitið að Stefanas og heimili hans er frumgróði Akkeu og að þeir hafa helgað sig þjónustu heilagra.
16 Sýnið slíkum mönnum undirgefni og hverjum þeim er starfar með og leggur á sig erfiði.
17 Ég gleðst yfir návist þeirra Stefanasar, Fortúnatusar og Akkaíkusar, af því að þeir hafa bætt mér upp fjarvist yðar.
18 Þeir hafa bæði glatt mig og yður. Hafið mætur á slíkum mönnum.
19 Söfnuðirnir í Asíu biðja að heilsa yður. Akvílas og Priska ásamt söfnuðinum í húsi þeirra biðja kærlega að heilsa yður í Drottins nafni.
20 Allir bræðurnir biðja að heilsa yður. Heilsið hver öðrum með heilögum kossi.
21 Kveðjan er með eigin hendi minni, Páls.
22 Ef einhver elskar ekki Drottin, hann sé bölvaður. Marana ta!
23 Náðin Drottins Jesú sé með yður.
22 Þá var færður til hans maður haldinn illum anda, blindur og mállaus. Hann læknaði hann, svo að hinn dumbi gat talað og séð.
23 Allt fólkið varð furðu lostið og sagði: "Hann er þó ekki sonur Davíðs?"
24 Þegar farísear heyrðu það, sögðu þeir: "Þessi rekur ekki út illa anda nema með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda."
25 En Jesús vissi hugsanir þeirra og sagði við þá: "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hver sú borg eða heimili, sem er sjálfu sér sundurþykkt, fær ekki staðist.
26 Ef Satan rekur Satan út, er hann sjálfum sér sundurþykkur. Hvernig fær ríki hans þá staðist?
27 Og ef ég rek illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar.
28 En ef ég rek illu andana út með Guðs anda, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.
29 Eða hvernig fær nokkur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans.
30 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.
31 Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.
32 Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.
by Icelandic Bible Society