Book of Common Prayer
26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.
2 Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.
3 Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.
4 Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.
5 Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.
6 Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,
7 til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
8 Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.
9 Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,
10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.
11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.
12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.
28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.
2 Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.
3 Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.
4 Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.
5 Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.
6 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.
7 Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.
8 Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.
9 Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.
36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.
2 Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.
3 Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.
4 Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.
5 Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.
6 Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.
7 Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.
8 Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.
9 Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.
10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.
11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.
12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.
13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.
39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."
3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.
4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:
5 "Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.
6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."
8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.
9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.
11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.
14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.
1 Æ, hversu einmana er nú borgin, sú er áður var svo fjölbyggð, orðin eins og ekkja, sú er voldug var meðal þjóðanna, furstafrúin meðal héraðanna orðin kvaðarkona.
2 Hún grætur sáran um nætur, og tárin streyma ofan vanga hennar. Enginn er sá er huggi hana af öllum ástmönnum hennar. Allir vinir hennar hafa brugðist henni, þeir eru orðnir óvinir hennar.
3 Júda hefir flúið land fyrir eymd og fyrir mikilli ánauð. Hann býr meðal heiðingjanna, finnur engan hvíldarstað. Allir ofsækjendur hans náðu honum í þrengslunum.
4 Vegirnir til Síonar syrgja, af því að engir koma til hátíðahalds. Öll hlið hennar eru eydd, prestar hennar andvarpa, meyjar hennar eru sorgbitnar, og sjálf er hún hrygg í hjarta.
5 Fjendur hennar eru orðnir ofan á, óvinir hennar lifa ánægðir. Því að Drottinn hefir hrellt hana vegna hennar mörgu synda, börn hennar fóru burt herleidd fyrir kúgaranum.
6 Þannig fór burt frá Síonarborg allt skraut hennar. Höfðingjar hennar eru orðnir eins og hrútar, sem ekkert haglendi finna, og þeir fóru magnþrota burt fyrir ofsóknaranum.
7 Jerúsalem minnist á eymdardögum sínum og mæðudögum allra kjörgripa sinna, er hún átti forðum daga. Þegar lýður hennar féll í hendur kúgarans, hjálpaði enginn henni. Kúgararnir horfðu á það, hlógu að hrakförum hennar.
8 Jerúsalem hefir syndgað stórlega, fyrir því varð hún að viðurstyggð. Allir þeir er dáðu hana, fyrirlíta hana, af því að þeir hafa séð blygðan hennar, og hún andvarpar sjálf og snýr sér undan.
9 Saurugleiki hennar loðir við klæðafald hennar, hún hugsaði ekki um endalokin. Hún féll undradjúpt, enginn verður til að hugga hana. Lít, Drottinn, á eymd mína, því að óvinirnir hrósa sigri.
10 Kúgarinn rétti út hönd sína eftir öllum dýrgripum hennar. Já, hún sá, hversu heiðingjarnir gengu inn í helgidóm hennar, sem þú hefir um boðið: "Þeir skulu ekki koma í söfnuð þinn."
11 Allur lýður hennar andvarpar, leitar sér viðurværis, gefur dýrgripi sína fyrir matbjörg til þess að draga fram lífið. Sjá þú, Drottinn, og lít á, hversu ég er fyrirlitin.
12 Komið til mín allir þér, sem um veginn farið, sjáið og skoðið, hvort til sé önnur eins kvöl og mín, sú er mér hefir verið gjörð, mér, sem Drottinn hrelldi á degi sinnar brennandi reiði.
41 Eitt er ljómi sólarinnar og annað ljómi tunglsins og annað ljómi stjarnanna, því að stjarna ber af stjörnu í ljóma.
42 Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu, en upp rís óforgengilegt.
43 Sáð er í vansæmd, en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika, en upp rís í styrkleika.
44 Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami.
45 Þannig er og ritað: "Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál," hinn síðari Adam að lífgandi anda.
46 En hið andlega kemur ekki fyrst, heldur hið jarðneska, því næst hið andlega.
47 Hinn fyrsti maður er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er frá himni.
48 Eins og hinn jarðneski var, þannig eru og hinir jarðnesku og eins og hinn himneski, þannig eru og hinir himnesku.
49 Og eins og vér höfum borið mynd hins jarðneska, munum vér einnig bera mynd hins himneska.
50 En það segi ég, bræður, að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann.
25 Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: "Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.
26 Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
27 Allt er mér falið af föður mínum, og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
28 Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.
29 Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.
30 Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt."
by Icelandic Bible Society