Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 16-17

16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.

Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."

Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.

Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.

Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.

Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.

Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.

Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.

Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,

10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.

11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.

17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.

Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.

Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.

Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.

Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.

Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.

Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.

Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna

fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.

10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.

11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.

12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.

13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.

14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.

15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.

Sálmarnir 22

22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.

"Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.

Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.

Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,

til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.

En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.

Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.

"Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"

10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.

11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.

12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.

13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.

14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.

15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;

16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.

17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.

18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,

19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.

20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,

21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.

22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!

23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!

24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!

25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.

26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.

27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.

28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.

30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,

31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,

32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.

Jeremía 38:14-28

14 Sedekía konungur sendi menn og lét sækja Jeremía spámann til sín að þriðju dyrunum, sem eru í musteri Drottins, og konungur mælti til Jeremía: "Ég vil spyrja þig nokkurs, leyn mig engu!"

15 En Jeremía mælti til Sedekía: "Hvort munt þú ekki deyða mig, ef ég segi þér það? Og þótt ég ráðleggi þér eitthvað, þá hlýðir þú mér ekki!"

16 Þá vann Sedekía konungur Jeremía eið á laun og mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er skapað hefir í oss þetta líf, skal ég ekki deyða þig né selja þig á vald þessara manna, sem sitja um líf þitt."

17 Þá sagði Jeremía við Sedekía: "Svo segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð: Ef þú gengur á vald höfðingjum Babelkonungs, þá munt þú lífi halda og borg þessi eigi verða brennd í eldi, og þú munt lífi halda og fólk þitt.

18 En gangir þú ekki á vald höfðingjum Babelkonungs, þá mun borg þessi seld verða á vald Kaldea, og þeir munu brenna hana í eldi, og þú munt ekki heldur komast undan þeim."

19 Þá sagði Sedekía konungur við Jeremía: "Ég óttast þá Júdamenn, sem þegar hafa hlaupist yfir til Kaldea, að menn kynnu að selja mig þeim á vald og þeir draga dár að mér!"

20 En Jeremía sagði: "Þeir munu eigi framselja þig. Hlýð þú boði Drottins í því, er ég segi þér, þá mun þér vel vegna og þú lífi halda.

21 En ef þú færist undan að ganga á vald þeirra, þá hefir Drottinn birt mér þetta:

22 Sjá, allar þær konur, sem eftir munu verða í höll Júdakonungs, munu fluttar verða til höfðingja Babelkonungs, og þær munu segja: ,Menn, sem voru í vináttu við þig, hafa ginnt þig og orðið þér yfirsterkari. Þegar fætur þínir sukku í foræðið, hörfuðu þeir aftur á bak!`

23 Og allar konur þínar og börn þín munu færð verða Kaldeum, og ekki munt þú heldur komast undan þeim, heldur munt þú gripinn verða og seldur á vald Babelkonungs, og þessi borg mun brennd verða í eldi."

24 Þá sagði Sedekía við Jeremía: "Enginn maður má vita af þessum viðræðum, ella verður það þinn bani.

25 En þegar höfðingjarnir frétta, að ég hafi talað við þig, og þeir koma til þín og segja við þig: ,Seg oss, hvað þú talaðir við konung, _ leyn oss engu, ella drepum vér þig _ og hvað konungur talaði við þig,`

26 þá seg við þá: ,Ég bað konung auðmjúklega að láta mig ekki fara aftur í hús Jónatans til þess að deyja þar."`

27 Og allir höfðingjarnir komu til Jeremía og spurðu hann, en hann skýrði þeim með öllu svo frá sem konungur hafði lagt fyrir. Þá gengu þeir rólegir burt frá honum, því að þetta hafði ekki orðið hljóðbært.

28 Og Jeremía sat í varðgarðinum allt til þess dags, er Jerúsalem var unnin.

Fyrra bréf Páls til Korin 15:1-11

15 Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í.

Fyrir það verðið þér og hólpnir ef þér haldið fast við orðið, fagnaðarerindið, sem ég boðaði yður, og hafið ekki ófyrirsynju trúna tekið.

Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum,

að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum

og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf.

Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir.

Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.

En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði.

Því ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli, með því að ég ofsótti söfnuð Guðs.

10 En af Guðs náð er ég það sem ég er, og náð hans við mig hefur ekki orðið til ónýtis, heldur hef ég erfiðað meira en þeir allir, þó ekki ég, heldur náð Guðs, sem með mér er.

11 Hvort sem það því er ég eða þeir, þá prédikum vér þannig, og þannig hafið þér trúna tekið.

Matteusarguðspjall 11:1-6

11 Þá er Jesús hafði mælt svo fyrir við lærisveina sína tólf, hélt hann þaðan að kenna og prédika í borgum þeirra.

Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði:

"Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?"

Jesús svaraði þeim: "Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið:

Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi.

Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society