Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 103

103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,

lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,

leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.

Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.

Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.

Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.

10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,

11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.

12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.

14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.

15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,

16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.

17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,

18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.

19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.

20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.

21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.

22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.

Esekíel 47:1-12

47 Nú leiddi hann mig aftur að musterisdyrunum. Þá sá ég að vatn spratt upp undan þröskuldi hússins mót austri, því að framhlið musterisins vissi til austurs. Og vatnið rann niður undan suðurhlið musterisins, sunnanvert við altarið.

Síðan leiddi hann mig út um norðurhliðið og fór með mig í kring að utanverðu að ytra hliðinu, sem snýr í austurátt. Þá sá ég að vatn vall upp undan suðurhliðinni.

Maðurinn gekk nú í austur með mælivað í hendi sér og mældi þúsund álnir. Og hann lét mig vaða yfir um vatnið, og tók það mér í ökkla.

Þessu næst mældi hann þúsund álnir og lét mig vaða yfir um vatnið, tók vatnið mér þá til knés. Þá mældi hann enn þúsund álnir og lét mig vaða yfir um, tók vatnið mér þá í mjöðm.

Þá mældi hann enn þúsund álnir. Var þá vatnið orðið að fljóti, svo að ég mátti ekki yfir það komast, því að vatnið var of djúpt, var orðið sundvatn, óvætt fljót.

Hann sagði þá við mig: "Hefir þú séð þetta, mannsson?" Og hann leiddi mig aftur upp á fljótsbakkann.

Og er ég kom þangað aftur, sá ég mjög mörg tré á fljótsbökkunum beggja vegna.

Þá sagði hann við mig: "Þetta vatn rennur út á austurhéraðið og þaðan ofan á sléttlendið, og þegar það fellur í Dauðahafið, í salt vatnið, verður vatnið í því heilnæmt.

Og allar lifandi skepnur, allt sem hrærist, fær nýtt fjör alls staðar þar sem fljótið kemur, og fiskurinn mun verða mjög mikill, því að þegar þetta vatn kemur þangað, verður vatnið í því heilnæmt, og allt lifnar við, þar sem fljótið kemur.

10 Og fiskimenn munu standa við það frá En Gedí alla leið til En Eglaím, og vötn þess munu verða veiðistöðvar, þar sem net verða lögð. Og fiskurinn í því mun verða mjög mikill, eins og í hafinu mikla.

11 En pyttirnir og síkin þar hjá munu ekki vera heilnæm, þau eru ætluð til saltfengjar.

12 En meðfram fljótinu, á bökkunum beggja vegna, munu upp renna alls konar aldintré. Laufblöð þeirra munu ekki visna og ávextir þeirra ekki dvína. Á hverjum mánuði munu þau bera nýja ávöxtu, af því að vötnin, sem þau lifa við, koma frá helgidóminum. Og ávextir þeirra munu hafðir verða til matar og laufblöð þeirra til lyfja."

Lúkasarguðspjall 1:1-4

Margir hafa tekið sér fyrir hendur að rekja sögu þeirra viðburða, er gjörst hafa meðal vor,

samkvæmt því, sem oss hafa flutt þeir menn, er frá öndverðu voru sjónarvottar og þjónar orðsins.

Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu fyrir þig, göfugi Þeófílus,

svo að þú megir ganga úr skugga um sannindi þeirra frásagna, sem þú hefur fræðst um.

Sálmarnir 67

67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.

Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]

svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.

Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.

Sálmarnir 96

96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!

Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.

Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.

Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.

Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,

fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!

10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,

12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,

13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.

Postulasagan 1:1-8

Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt, sem Jesús gjörði og kenndi frá upphafi,

allt til þess dags, er hann gaf postulunum, sem hann hafði valið, fyrirmæli sín fyrir heilagan anda og varð upp numinn.

Þeim birti hann sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki.

Er hann var með þeim, bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem, heldur bíða eftir fyrirheiti föðurins, "sem þér," sagði hann, "hafið heyrt mig tala um.

Því að Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga."

Meðan þeir voru saman, spurðu þeir hann: "Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?"

Hann svaraði: "Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.

En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society