Book of Common Prayer
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.
2 Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.
3 Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.
5 Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,
6 því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.
7 Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.
8 Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.
9 Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.
10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.
113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.
2 Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.
3 Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.
4 Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.
5 Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt
6 og horfir djúpt á himni og á jörðu.
7 Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum
8 og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.
9 Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.
36 Á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni:
2 Tak þér bókrollu og rita á hana öll þau orð, sem ég hefi til þín talað um Ísrael og Júda og allar þjóðir, frá þeim degi er ég talaði við þig, frá dögum Jósía, og allt fram á þennan dag;
3 vera má að Júda hús hlýði á alla þá ógæfu, sem ég hygg að leiða yfir þá, svo að þeir snúi sér, hver og einn frá sínum vonda vegi, og þá mun ég fyrirgefa þeim misgjörð þeirra og synd.
4 Þá kallaði Jeremía á Barúk Neríason, og Barúk ritaði af munni Jeremía á bókrolluna öll orð Drottins, þau er hann hafði til hans talað.
5 Og Jeremía skipaði Barúk og mælti: "Mér er tálmað, ég get ekki farið í musteri Drottins.
6 Far þú því og lestu upphátt úr bókrollunni það, er þú hefir ritað af munni mér, orðin Drottins, fyrir lýðnum í musteri Drottins á föstu-degi. Þú skalt og lesa þau upphátt fyrir öllum Júdamönnum, sem komnir eru hingað úr borgum sínum.
7 Vera má, að þeir gjöri auðmjúkir bæn sína til Drottins og snúi sér hver og einn frá sínum vonda vegi, því að mikil er reiðin og heiftin, sem Drottinn hefir hótað þessum lýð."
8 Og Barúk Neríason gjörði með öllu svo sem Jeremía spámaður lagði fyrir hann og las orð Drottins upphátt úr bókinni í musteri Drottins.
9 En á fimmta ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, í níunda mánuðinum, boðuðu menn allan lýðinn í Jerúsalem og allt það fólk, sem komið var úr Júdaborgum til Jerúsalem, til föstuhalds fyrir Drottni.
10 Þá las Barúk upphátt fyrir öllum lýðnum úr bókinni orð Jeremía í musteri Drottins, í herbergi Gemaría Safanssonar kanslara, í efra forgarðinum, við nýja hliðið á musteri Drottins.
8 Í Lýstru var maður nokkur máttvana í fótum, lami frá móðurlífi, og hafði aldrei getað gengið.
9 Maður þessi heyrði á mál Páls, en Páll horfði á hann og sá, að hann hafði trú til þess að verða heill,
10 og sagði hárri raustu: "Rís upp og stattu í fæturna!" Hann spratt upp og tók að ganga.
11 Múgurinn sá, hvað Páll hafði gjört, og tók að hrópa á lýkaónsku: "Guðirnir eru í manna líki stignir niður til vor."
12 Kölluðu þeir Barnabas Seif, en Pál Hermes, því að hann hafði orð fyrir þeim.
13 En prestur í hofi Seifs utan borgar kom með naut og kransa að borgarhliðunum og vildi færa fórnir ásamt fólkinu.
14 Þegar postularnir, Barnabas og Páll, heyrðu þetta, rifu þeir klæði sín, stukku inn í mannþröngina og hrópuðu:
15 "Menn, hví gjörið þér þetta? Menn erum vér sem þér, yðar líkar, og flytjum yður þau fagnaðarboð, að þér skuluð hverfa frá þessum fánýtu goðum til lifanda Guðs, sem skapaði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er.
16 Hann hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu.
17 En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði."
18 Með þessum orðum fengu þeir með naumindum fólkið ofan af því að færa þeim fórnir.
36 Farísei nokkur bauð honum að eta hjá sér, og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs.
37 En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís, að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum,
38 nam staðar að baki honum til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum.
39 Þegar faríseinn, sem honum hafði boðið, sá þetta, sagði hann við sjálfan sig: "Væri þetta spámaður, mundi hann vita, hver og hvílík sú kona er, sem snertir hann, að hún er bersyndug."
40 Jesús sagði þá við hann: "Símon, ég hef nokkuð að segja þér." Hann svaraði: "Seg þú það, meistari."
41 "Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara, en hinn fimmtíu.
42 Nú gátu þeir ekkert borgað, og þá gaf hann báðum upp. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?"
43 Símon svaraði: "Sá, hygg ég, sem hann gaf meira upp." Jesús sagði við hann: "Þú ályktaðir rétt."
44 Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: "Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt, og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína, en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu.
45 Ekki gafst þú mér koss, en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína, allt frá því ég kom.
46 Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu, en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum.
47 Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið, en sá elskar lítið, sem lítið er fyrirgefið."
48 Síðan sagði hann við hana: "Syndir þínar eru fyrirgefnar."
49 Þá tóku þeir, sem til borðs sátu með honum, að segja með sjálfum sér: "Hver er sá, er fyrirgefur syndir?"
50 En hann sagði við konuna: "Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði."
by Icelandic Bible Society