Book of Common Prayer
137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.
2 Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.
3 Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"
4 Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?
5 Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.
6 Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.
7 Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"
8 Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!
9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.
144 Eftir Davíð. Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu.
2 Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf, hann leggur þjóðir undir mig.
3 Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann, mannsins barn, að þú gefir því gaum.
4 Maðurinn er sem vindblær, dagar hans sem hverfandi skuggi.
5 Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður, snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.
6 Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum, skjót örvum þínum og skelf þá.
7 Rétt út hönd þína frá hæðum, hríf mig burt og bjarga mér úr hinum miklu vötnum, af hendi útlendinganna.
8 Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
9 Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.
10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.
11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.
13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,
14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.
15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.
104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.
2 Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.
3 Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.
4 Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.
5 Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6 Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,
7 en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
8 Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.
9 Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.
10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,
11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.
12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.
13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.
14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni
15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.
16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett
17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.
18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.
19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.
20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.
21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.
22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,
23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.
24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.
26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.
27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.
30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.
31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,
32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.
33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.
35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.
35 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á dögum Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs:
2 "Gakk til ættflokks Rekabíta og tala við þá og kom með þá í musteri Drottins, inn í eitt herbergið, og gef þeim vín að drekka."
3 Þá sótti ég Jaasanja Jeremíason, Habasinjasonar, og bræður hans og alla sonu hans og allan Rekabíta-ættflokkinn
4 og fór með þá í musteri Drottins, inn í herbergi sona Hanans, Jigdaljasonar, guðsmannsins, sem er við hliðina á herbergi höfðingjanna, uppi yfir herbergi Maaseja Sallúmssonar þröskuldsvarðar.
5 Og ég setti skálar fullar af víni og bikara fyrir ættmenn Rekabíta-flokksins og sagði við þá: "Drekkið vín!"
6 Þá sögðu þeir: "Vér drekkum ekki vín, því að Jónadab Rekabsson ættfaðir vor hefir lagt svo fyrir oss: ,Þér skuluð aldrei drekka vín að eilífu, hvorki þér né synir yðar,
7 og þér skuluð ekki reisa hús, né sá sæði, né planta víngarða, né eiga nokkuð slíkt, heldur skuluð þér búa í tjöldum alla ævi yðar, til þess að þér lifið langa ævi í því landi, þar er þér dveljið sem útlendingar.`
8 Og vér höfum hlýtt skipun Jónadabs Rekabssonar ættföður vors í öllu því, er hann bauð oss, svo að vér drekkum alls ekki vín alla ævi vora, hvorki vér sjálfir, konur vorar, synir vorir né dætur vorar,
9 og reisum oss ekki hús til að búa í og eigum hvorki víngarða, akra né sáð.
10 Vér höfum því búið í tjöldum og hlýtt og farið eftir öllu því, er Jónadab ættfaðir vor bauð oss.
11 En er Nebúkadresar Babelkonungur braust inn í landið, sögðum vér: ,Komið, vér skulum halda inn í Jerúsalem undan her Kaldea og undan her Sýrlendinga!` og settumst að í Jerúsalem."
12 Þá kom orð Drottins til Jeremía:
13 "Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Far og seg við Júdamenn og Jerúsalembúa: Viljið þér ekki taka umvöndun, svo að þér hlýðið á orð mín? _ segir Drottinn.
14 Orð Jónadabs Rekabssonar eru haldin, þau er hann lagði fyrir sonu sína, að drekka ekki vín. Þeir hafa ekki vín drukkið allt fram á þennan dag, af því að þeir hafa hlýtt skipun ættföður síns. En ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki hlýtt mér.
15 Og ég hefi sent til yðar alla þjóna mína, spámennina, seint og snemma, til þess að segja: "Snúið yður, hver frá sínum vonda vegi, og bætið gjörðir yðar og eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem ég gaf yður og feðrum yðar!" _ en þér lögðuð ekki við eyrun og hlýdduð ekki á mig.
16 Já, niðjar Jónadabs Rekabssonar hafa haldið skipun ættföður síns, þá er hann fyrir þá lagði, en þessi lýður hefir ekki hlýtt mér.
17 Fyrir því segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð, svo: Sjá, nú leiði ég yfir Júda og alla Jerúsalembúa alla ógæfuna, er ég hefi hótað þeim, af því að þeir hafa ekki hlýtt, þótt ég hafi talað til þeirra, né svarað, þótt ég hafi kallað til þeirra.
18 En við ættflokk Rekabíta sagði Jeremía: "Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Af því að þér hafið hlýtt skipun Jónadabs ættföður yðar og haldið allar skipanir hans og farið í öllu eftir því, er hann fyrir yður lagði,
19 fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, svo: Jónadab Rekabsson skal aldrei vanta mann, er standi frammi fyrir mér."
27 Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig.
28 Guð hefur sett nokkra í kirkjunni, fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, sumum hefur hann veitt gáfu að gjöra kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum.
29 Hvort eru allir postular? Hvort eru allir spámenn? Hvort eru allir fræðarar? Hvort eru allir kraftaverkamenn?
30 Hvort hafa allir hlotið lækningagáfu? Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir tungutal?
31 Nei, sækist heldur eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég yður á enn þá miklu ágætari leið.
13 Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
2 Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.
3 Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.
35 Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi.
36 En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.
37 Þá sagði hann við lærisveina sína: "Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir.
38 Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar."
10 Og hann kallaði til sín lærisveina sína tólf og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum, að þeir gætu rekið þá út og læknað hvers kyns sjúkdóm og veikindi.
2 Nöfn postulanna tólf eru þessi: Fyrstur Símon, sem kallast Pétur, og Andrés bróðir hans, þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróðir hans,
3 Filippus og Bartólómeus, Tómas og Matteus tollheimtumaður, Jakob Alfeusson og Taddeus,
4 Símon vandlætari og Júdas Ískaríot, sá er sveik hann.
by Icelandic Bible Society