Book of Common Prayer
131 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin.
2 Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér.
3 Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.
132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.
8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.
11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."
13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
134 Já, lofið Drottin, allir þjónar Drottins, þér er standið í húsi Drottins um nætur.
2 Fórnið höndum til helgidómsins og lofið Drottin.
3 Drottinn blessi þig frá Síon, hann sem er skapari himins og jarðar.
135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,
2 er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.
3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.
4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.
5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.
6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.
7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.
8 Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,
9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.
10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:
11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,
12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.
13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.
15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.
16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.
19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!
20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!
21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.
4 Síðan bauð konungur Hilkía æðsta presti og óæðri prestunum og dyravörðunum að taka burt úr aðalhúsi musteris Drottins öll áhöld, þau er gjörð höfðu verið handa Baal og Aséru og öllum himinsins her. Og hann lét brenna þau fyrir utan Jerúsalem á Kídronvöllum, og askan af þeim var flutt til Betel.
5 Hann rak og burt skurðgoðaprestana, er Júdakonungar höfðu skipað og fært höfðu reykelsisfórnir á fórnarhæðunum í borgum Júda og í grenndinni við Jerúsalem, svo og þá er fært höfðu Baal fórnir og sólinni, tunglinu, stjörnumerkjunum og öllum himinsins her.
6 Hann lét flytja aséruna burt úr musteri Drottins, út fyrir Jerúsalem, og brenndi hana í Kídrondal, muldi hana mjölinu smærra og stráði duftinu á grafir múgamanna.
7 Þá braut hann og niður hús þeirra manna, er helgað höfðu sig saurlifnaði, þau er voru við musteri Drottins, þar sem konur ófu hjúpa á aséruna.
8 Hann lét alla presta koma frá borgunum í Júda og afhelgaði fórnarhæðirnar, þar sem prestarnir höfðu fórnað, frá Geba til Beerseba. Hann braut og niður hæðir hafurlíkneskjanna, sem stóðu úti fyrir hliði Jósúa borgarstjóra, en það er á vinstri hönd, þá er inn er gengið um borgarhliðið.
9 Þó máttu hæðaprestarnir eigi ganga upp að altari Drottins í Jerúsalem, heldur átu þeir ósýrð brauð meðal bræðra sinna.
10 Hann afhelgaði brennslugrófina í Hinnomssonardal, til þess að enginn léti framar son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn Mólok til handa.
11 Hann tók og burt hesta þá, sem Júdakonungar höfðu sett til vegsemdar sólinni við innganginn að musteri Drottins, nálægt herbergi Netan Meleks hirðmanns, sem var í forgarðinum. En vagna sólarinnar brenndi hann í eldi.
12 Og ölturun, sem voru á þakinu yfir veggsvölum Akasar, er Júdakonungar höfðu reist, og ölturun, er Manasse hafði reist í báðum forgörðum musteris Drottins, reif konungur niður, og hann skundaði þaðan og kastaði öskunni af þeim í Kídrondal.
13 Konungur afhelgaði og fórnarhæðirnar, sem voru fyrir austan Jerúsalem, sunnanvert við Skaðræðisfjall, og Salómon Ísraelskonungur hafði reist Astarte, viðurstyggð Sídoninga, og Kamos, viðurstyggð Móabíta, og Milkóm, svívirðing Ammóníta.
14 Hann braut og sundur merkissteinana og hjó sundur asérurnar og fyllti staðinn, þar sem þær höfðu verið, með mannabeinum.
15 Sömuleiðis altarið í Betel, fórnarhæðina, sem Jeróbóam Nebatsson hafði gjöra látið, sá er kom Ísrael til að syndga _ einnig þetta altari og fórnarhæðina reif hann niður. Og hann brenndi aséruna og muldi hana mjölinu smærra.
16 En er Jósía sneri sér við og sá grafirnar, sem voru þar á fjallinu, þá sendi hann menn og lét sækja beinin í grafirnar, brenndi þau á altarinu og afhelgaði það samkvæmt orði Drottins, því er guðsmaðurinn hafði boðað, sá er boðaði þessa hluti.
17 Síðan sagði hann: "Hvaða legsteinn er þetta, sem ég sé?" Og borgarmenn svöruðu honum: "Það er gröf guðsmannsins, sem kom frá Júda og boðaði þessa hluti, sem þú hefir nú gjört, gegn altarinu í Betel."
18 Þá mælti hann: "Látið hann vera, enginn ónáði bein hans!" Þannig létu þeir bein hans og bein spámannsins, sem kominn var frá Samaríu, vera í friði.
19 Auk þess afnam Jósía öll hæðahofin, sem voru í borgum Samaríu, þau er Ísraelskonungar höfðu reist til þess að egna Drottin til reiði, og fór alveg eins með þau eins og hann hafði gjört í Betel.
20 Og hann slátraði öllum hæðaprestunum, sem þar voru, á ölturunum og brenndi mannabein á þeim. Síðan sneri hann aftur til Jerúsalem.
21 Konungur bauð öllum lýðnum á þessa leið: "Haldið Drottni Guði yðar páska, eins og ritað er í sáttmálsbók þessari."
22 Engir slíkir páskar höfðu haldnir verið frá því á dögum dómaranna, er dæmt höfðu í Ísrael, né heldur alla daga Ísraelskonunga og Júdakonunga,
23 en á átjánda ríkisári Jósía konungs voru Drottni haldnir þessir páskar í Jerúsalem.
24 Enn fremur eyddi Jósía þeim mönnum, er höfðu þjónustuanda, svo og spásagnamönnum, húsgoðum og skurðgoðum og öllum þeim viðurstyggðum, er sáust í Júda og Jerúsalem, til þess að fullnægja fyrirmælum lögmálsins, þeim er rituð voru í bókinni, sem Hilkía prestur hafði fundið í musteri Drottins.
25 Og hans maki hafði enginn konungur verið á undan honum, er svo hafði snúið sér til Drottins af öllu hjarta sínu, allri sálu sinni og öllum mætti sínum, alveg eftir lögmáli Móse, og eftir hann kom enginn honum líkur.
12 En svo ég minnist á gáfur andans, bræður, þá vil ég ekki að þér séuð fáfróðir um þær.
2 Þér vitið, að þegar þér voruð heiðingjar, þá létuð þér leiða yður til mállausra skurðgoðanna, rétt eins og verkast vildi.
3 Fyrir því læt ég yður vita, að enginn, sem talar af Guðs anda, segir: "Bölvaður sé Jesús!" og enginn getur sagt: "Jesús er Drottinn!" nema af heilögum anda.
4 Mismunur er á náðargáfum, en andinn er hinn sami,
5 og mismunur er á embættum, en Drottinn hinn sami,
6 og mismunur er á hæfileikum að framkvæma, en Guð hinn sami, sem öllu kemur til leiðar í öllum.
7 Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er.
8 Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda.
9 Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu
10 og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal.
11 En öllu þessu kemur til leiðar eini og sami andinn, og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni.
18 Meðan hann var að segja þetta við þá, kom forstöðumaður einn, laut honum og sagði: "Dóttir mín var að skilja við, kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna."
19 Jesús stóð upp og fór með honum og lærisveinar hans.
20 Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki honum og snart fald klæða hans.
21 Hún hugsaði með sér: "Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða."
22 Jesús sneri sér við, og er hann sá hana, sagði hann: "Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefur bjargað þér." Og konan varð heil frá þeirri stundu.
23 Þegar Jesús kom að húsi forstöðumannsins og sá pípuleikara og fólkið í uppnámi,
24 sagði hann: "Farið burt! Stúlkan er ekki dáin, hún sefur." En þeir hlógu að honum.
25 Þegar fólkið hafði verið látið fara, gekk hann inn og tók hönd hennar, og reis þá stúlkan upp.
26 Og þessi tíðindi bárust um allt það hérað.
by Icelandic Bible Society