Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:145-176

145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.

146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.

147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.

148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.

149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.

150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.

151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.

152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.

153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.

154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.

155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.

156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.

157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.

158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.

159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.

160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.

161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín.

162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.

163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.

164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.

165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.

166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín.

167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.

168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir.

169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.

170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.

171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín.

172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti.

173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.

174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín.

175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið.

176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.

Sálmarnir 128-130

128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.

Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.

Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.

Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.

Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,

og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!

129 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _

þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér.

Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng,

en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra.

Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon.

Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist.

Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur,

og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: "Blessun Drottins sé með yður." Vér blessum yður í nafni Drottins!

130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!

Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?

En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.

Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.

Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.

Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.

Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.

Síðari bók konunganna 22:14-23:3

14 Þá fóru þeir Hilkía prestur, Ahíkam, Akbór, Safan og Asaja til Huldu spákonu, konu Sallúms Tikvasonar, Harhasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana.

15 Hún mælti við þá: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín:

16 Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar ógnanir bókar þessarar, er Júdakonungur hefir lesið,

17 fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, og heift mín skal upptendrast gegn þessum stað og eigi slokkna.

18 En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels:

19 Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú auðmýktir þig fyrir Drottni, er þú heyrðir, hvað ég hafði talað gegn þessum stað og íbúum hans, að þeir skyldu verða undrunarefni og formælingar, og af því að þú reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég og bænheyrt þig _ segir Drottinn.

20 Fyrir því vil ég láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað." Fluttu þeir konungi svarið.

23 Þá sendi konungur út menn til þess að safna til sín öllum öldungum í Júda og Jerúsalem.

Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn, bæði ungir og gamlir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins.

Og konungur gekk að súlunni og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta og af allri sálu til þess að fullnægja þannig orðum sáttmála þessa, þau er rituð voru í þessari bók. Og allur lýðurinn gekkst undir sáttmálann.

Fyrra bréf Páls til Korin 11:23-34

23 Því að ég hef meðtekið frá Drottni það, sem ég hef kennt yður: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð,

24 gjörði þakkir, braut það og sagði: "Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu."

25 Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: "Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu."

26 Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.

27 Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.

28 Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum.

29 Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms.

30 Fyrir því eru svo margir sjúkir og krankir á meðal yðar, og allmargir deyja.

31 Ef vér dæmdum um sjálfa oss, yrðum vér ekki dæmdir.

32 En fyrst Drottinn dæmir oss, þá er hann að aga oss til þess að vér verðum ekki dæmdir sekir ásamt heiminum.

33 Fyrir því skuluð þér bíða hver eftir öðrum, bræður mínir, þegar þér komið saman til að matast.

34 Ef nokkur er hungraður, þá eti hann heima, til þess að samkomur yðar verði yður ekki til dóms. Annað mun ég segja til um, þegar ég kem.

Matteusarguðspjall 9:9-17

Þá er hann gekk þaðan, sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum.

10 Nú bar svo við, er Jesús sat að borði í húsi hans, að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans.

11 Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: "Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?"

12 Jesús heyrði þetta og sagði: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.

13 Farið og nemið, hvað þetta merkir: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.` Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."

14 Þá koma til hans lærisveinar Jóhannesar og segja: "Hví föstum vér og farísear, en þínir lærisveinar fasta ekki?"

15 Jesús svaraði þeim: "Hvort geta brúðkaupsgestir verið hryggir, meðan brúðguminn er hjá þeim? En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn. Þá munu þeir fasta.

16 Enginn lætur bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur bótin út frá sér og verður af verri rifa.

17 Ekki láta menn heldur nýtt vín á gamla belgi, því þá springa belgirnir, og vínið fer niður, en belgirnir ónýtast. Menn láta nýtt vín á nýja belgi, og varðveitist þá hvort tveggja."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society