Book of Common Prayer
106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?
3 Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.
4 Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,
5 að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.
6 Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.
7 Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.
8 Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn.
9 Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.
10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna.
11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan.
12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof.
13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans.
14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum.
15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð.
16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins.
17 Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams,
18 eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu.
19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,
20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.
21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,
22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.
23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.
24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans.
25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins.
26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni,
27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin.
28 Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða.
29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra.
30 En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan.
31 Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu.
32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,
33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum.
34 Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim,
35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra.
36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru,
37 þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum
38 og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.
39 Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.
40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.
41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.
42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.
43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.
44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.
45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar
46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.
47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.
48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.
21 Manasse var tólf ára gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hefsíba.
2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar sem þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.
3 Hann byggði að nýju fórnarhæðirnar, er Hiskía faðir hans hafði afmáð, reisti Baal ölturu og lét gjöra aséru, eins og Akab Ísraelskonungur hafði gjöra látið, dýrkaði allan himinsins her og þjónaði þeim.
4 Hann reisti og ölturu í musteri Drottins, því er Drottinn hafði um sagt: "Í Jerúsalem vil ég láta nafn mitt búa."
5 Og hann reisti ölturu fyrir allan himinsins her í báðum forgörðum musteris Drottins.
6 Hann lét og son sinn ganga gegnum eldinn, fór með spár og fjölkynngi og skipaði særingamenn og spásagna. Hann aðhafðist margt það, sem illt er í augum Drottins, og egndi hann til reiði.
7 Hann setti asérulíkneskið, er hann hafði gjöra látið, í musterið, er Drottinn hafði sagt um við Davíð og Salómon, son hans: "Í þessu húsi og í Jerúsalem, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels, vil ég láta nafn mitt búa að eilífu.
8 Og ég vil eigi framar láta Ísrael fara landflótta úr landi því, er ég gaf feðrum þeirra, svo framarlega sem þeir gæta þess að breyta að öllu svo sem ég hefi boðið þeim, að öllu eftir lögmáli því, er Móse þjónn minn fyrir þá lagði."
9 En þeir hlýddu eigi, og Manasse leiddi þá afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er Drottinn hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum.
10 Þá talaði Drottinn fyrir munn þjóna sinna, spámannanna, á þessa leið:
11 "Sakir þess að Manasse Júdakonungur hefir drýgt þessar svívirðingar, sem verri eru en allt það, sem Amorítar aðhöfðust, þeir er á undan honum voru, og einnig komið Júda til að syndga með skurðgoðum sínum _
12 fyrir því mælir Drottinn, Ísraels Guð, svo: Ég mun leiða ógæfu yfir Jerúsalem og Júda, svo að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra.
13 Ég mun draga mælivað yfir Jerúsalem, eins og fyrrum yfir Samaríu, og mælilóð, eins og yfir Akabsætt, og þurrka Jerúsalem burt, eins og þegar þurrkað er af skál og skálinni síðan hvolft, þegar þurrkað hefir verið af henni.
14 Og ég mun útskúfa leifum arfleifðar minnar og gefa þá í hendur óvinum þeirra, svo að þeir verði öllum óvinum sínum að bráð og herfangi,
15 vegna þess að þeir hafa gjört það, sem illt er í augum mínum, og egnt mig til reiði frá þeim degi, er feður þeirra fóru burt af Egyptalandi, allt fram á þennan dag."
16 Manasse úthellti og mjög miklu saklausu blóði, þar til er hann hafði fyllt Jerúsalem með því enda á milli, auk þeirrar syndar sinnar, að hann kom Júda til að gjöra það sem illt var í augum Drottins.
17 Það sem meira er að segja um Manasse og allt, sem hann gjörði, og synd hans, þá er hann drýgði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.
18 Og Manasse lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í gröf sinni í garði Ússa. Og Amón sonur hans tók ríki eftir hann.
14 Fyrir því, mínir elskuðu, flýið skurðgoðadýrkunina.
15 Ég tala til yðar sem skynsamra manna. Dæmið þér um það, sem ég segi.
16 Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists?
17 Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.
18 Lítið á Ísraelsþjóðina. Eiga þeir, sem fórnirnar eta, ekki hlut í altarinu?
19 Hvað segi ég þá? Að kjöt fórnað skurðgoðum sé nokkuð? Eða skurðgoð sé nokkuð?
20 Nei, heldur að það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði. En ég vil ekki, að þér hafið samfélag við illa anda.
21 Ekki getið þér drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda.
22 Eða eigum vér að reita Drottin til reiði? Munum vér vera máttugri en hann?
23 Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt, en ekki byggir allt upp.
24 Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.
25 Allt það, sem selt er á kjöttorginu, getið þér etið án nokkurra eftirgrennslana vegna samviskunnar.
26 Því að jörðin er Drottins og allt, sem á henni er.
27 Ef einhver hinna vantrúuðu býður yður og ef þér viljið fara, þá etið af öllu því, sem fyrir yður er borið, án eftirgrennslana vegna samviskunnar.
28 En ef einhver segir við yður: "Þetta er fórnarkjöt!" þá etið ekki, vegna þess, er gjörði viðvart, og vegna samviskunnar.
29 Samviskunnar, segi ég, ekki eigin samvisku, heldur samvisku hins. En hvers vegna skyldi frelsi mitt eiga að dæmast af samvisku annars?
30 Ef ég neyti fæðunnar með þakklæti, hvers vegna skyldi ég sæta lasti fyrir það, sem ég þakka fyrir?
31 Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.
32 Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar.
33 Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag, heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir.
11 Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.
28 Þegar hann kom yfir um, í byggð Gadarena, komu á móti honum frá gröfunum tveir menn haldnir illum öndum, svo skæðir, að enginn mátti þann veg fara.
29 Þeir æpa: "Hvað vilt þú okkur, sonur Guðs? Komstu hingað að kvelja okkur fyrir tímann?"
30 En langt frá þeim var mikil svínahjörð á beit.
31 Illu andarnir báðu hann og sögðu: "Ef þú rekur okkur út, sendu okkur þá í svínahjörðina."
32 Hann sagði: "Farið!" Út fóru þeir og í svínin, og öll hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og týndist þar.
33 En hirðarnir flýðu, komu til borgarinnar og sögðu öll tíðindin, líka frá mönnunum, sem haldnir voru illum öndum.
34 Og allir borgarmenn fóru út til móts við Jesú, og þegar þeir sáu hann, báðu þeir hann að fara burt úr héruðum þeirra.
by Icelandic Bible Society