Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 118

118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.

Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.

Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,

betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.

10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.

14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.

15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,

16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.

17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.

18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.

19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.

20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.

21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.

22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.

23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.

24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.

25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!

26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.

27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.

28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.

29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Sálmarnir 145

145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.

Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.

Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.

Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."

Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."

Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.

10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.

11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.

12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.

13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.

14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.

15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.

17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.

18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.

19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.

20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.

21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.

Síðari bók konunganna 20

20 Um þær mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá kom Jesaja Amozson spámaður til hans og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Ráðstafa húsi þínu, því að þú munt deyja og eigi lifa."

Þá sneri Hiskía andliti sínu til veggjar, bað til Drottins og mælti:

"Æ, Drottinn, minnstu þess, að ég hefi gengið fyrir augliti þínu með trúmennsku og einlægu hjarta og gjört það, sem þér er þóknanlegt." Og hann grét sáran.

En áður en Jesaja var kominn út úr miðforgarði hallarinnar, kom orð Drottins til hans, svolátandi:

"Snú aftur og seg Hiskía, höfðingja lýðs míns: Svo segir Drottinn, Guð Davíðs forföður þíns: Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég mun lækna þig. Á þriðja degi munt þú ganga upp í hús Drottins.

Og ég mun enn leggja fimmtán ár við aldur þinn, og ég mun frelsa þig og þessa borg af hendi Assýríukonungs, og ég mun vernda þessa borg, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns."

Þá bauð Jesaja: "Komið með fíkjudeig." Sóttu þeir það og lögðu á kýlið. Þá batnaði honum.

En Hiskía sagði við Jesaja: "Hvað skal ég hafa til marks um, að Drottinn muni lækna mig og að ég megi aftur ganga upp í hús Drottins á þriðja degi?"

Þá svaraði Jesaja: "Þetta skalt þú til marks hafa af Drottni, að hann muni efna það, sem hann hefir heitið: Á skugginn að færast tíu stig fram, eða á hann að færast aftur um tíu stig?"

10 Hiskía svaraði: "Það er hægðarleikur fyrir skuggann að færast niður um tíu stig _ nei, skugginn skal færast aftur um tíu stig."

11 Þá hrópaði Jesaja spámaður til Drottins, og hann lét skuggann á stigunum, sem færst hafði niður á sólskífu Akasar, færast aftur um tíu stig.

12 Um þær mundir sendi Meródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjafir til Hiskía, því að hann hafði frétt, að hann hefði verið sjúkur, en væri nú aftur heill orðinn.

13 Og Hiskía fagnaði komu þeirra og sýndi þeim alla féhirslu sína, silfrið og gullið, ilmjurtirnar og hina dýru olíu og vopnabúr sitt og allt sem til var í fjársjóðum hans. Var enginn sá hlutur í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans, að eigi sýndi hann þeim.

14 Þá kom Jesaja spámaður til Hiskía konungs og sagði við hann: "Hvert var erindi þessara manna og hvaðan eru þeir til þín komnir?" Hiskía svaraði: "Af fjarlægu landi eru þeir komnir, frá Babýlon."

15 Þá sagði hann: "Hvað sáu þeir í höll þinni?" Hiskía svaraði: "Allt, sem í höll minni er, hafa þeir séð. Enginn er sá hlutur í fjársjóðum mínum, að eigi hafi ég sýnt þeim."

16 Þá sagði Jesaja við Hiskía: "Heyr þú orð Drottins:

17 Sjá, þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon. Ekkert skal eftir verða _ segir Drottinn.

18 Og nokkrir af sonum þínum, sem af þér munu koma og þú munt geta, munu teknir verða og gjörðir að hirðsveinum í höll konungsins í Babýlon."

19 En Hiskía sagði við Jesaja: "Gott er það orð Drottins, er þú hefir talað." Því að hann hugsaði: "Farsæld og friður helst þó meðan ég lifi."

20 Það sem meira er að segja um Hiskía og öll hreystiverk hans, hversu hann bjó til tjörnina og vatnsstokkinn og leiddi vatnið inn í borgina, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

21 Og Hiskía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum. Og Manasse sonur hans tók ríki eftir hann.

Postulasagan 12:1-17

12 Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim.

Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði.

Og er hann sá, að Gyðingum líkaði vel, lét hann einnig taka Pétur. Þá voru dagar ósýrðu brauðanna.

Þegar hann hafði handtekið hann, lét hann setja hann í fangelsi og fól fjórum fjögurra hermanna varðflokkum að gæta hans. Ætlaði hann eftir páska að leiða hann fram fyrir lýðinn.

Sat nú Pétur í fangelsinu, en söfnuðurinn bað heitt til Guðs fyrir honum.

Nóttina áður en Heródes ætlaði að leiða hann fram svaf Pétur milli tveggja hermanna, bundinn tveim fjötrum, og varðmenn fyrir dyrum úti gættu fangelsisins.

Allt í einu stóð engill Drottins hjá honum og ljós skein í klefanum. Laust hann á síðu Pétri, vakti hann og mælti: "Rís upp skjótt!" Og fjötrarnir féllu af höndum hans.

Þá sagði engillinn við hann: "Gyrð þig og bind á þig skóna!" Hann gjörði svo. Síðan segir engillinn: "Far þú í yfirhöfn þína og fylg mér!"

Hann gekk út og fylgdi honum. En ekki vissi hann, að það var raunverulegt, sem gjörst hafði við komu engilsins, hann hélt sig sjá sýn.

10 Þeir gengu nú fram hjá innri og ytri verðinum og komu að járnhliðinu, sem farið er um til borgarinnar. Laukst það upp af sjálfu sér fyrir þeim. Þeir fóru út um það og gengu eitt stræti, en þá hvarf engillinn allt í einu frá honum.

11 Þegar Pétur kom til sjálfs sín, sagði hann: "Nú veit ég sannlega, að Drottinn hefur sent engil sinn og bjargað mér úr hendi Heródesar og frá allri ætlan Gyðingalýðs."

12 Og er hann hafði áttað sig, gekk hann að húsi Maríu, móður Jóhannesar, er kallast Markús. Þar höfðu margir safnast saman og voru á bæn.

13 Hann knúði hurð fordyrisins, og stúlka að nafni Róde gekk til dyra.

14 Þegar hún þekkti málróm Péturs, gáði hún eigi fyrir fögnuði að ljúka upp fordyrinu, heldur hljóp inn og sagði, að Pétur stæði fyrir dyrum úti.

15 Þeir sögðu við hana: "Þú ert frávita." En hún stóð fast á því, að svo væri sem hún sagði. "Það er þá engill hans," sögðu þeir.

16 En Pétur hélt áfram að berja, og þegar þeir luku upp, sáu þeir hann og urðu furðu lostnir.

17 Hann benti þeim með hendinni að vera hljóðir, skýrði þeim frá, hvernig Drottinn hafði leitt hann út úr fangelsinu, og bað þá segja Jakobi og bræðrunum frá þessu. Síðan gekk hann út og fór í annan stað.

Lúkasarguðspjall 7:11-17

11 Skömmu síðar bar svo við, að Jesús hélt til borgar, sem heitir Nain, og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi.

12 Þegar hann nálgaðist borgarhliðið, þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni.

13 Og er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: "Grát þú eigi!"

14 Og hann gekk að og snart líkbörurnar, en þeir, sem báru, námu staðar. Þá sagði hann: "Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!"

15 Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans.

16 En ótti greip alla, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Spámaður mikill er risinn upp meðal vor," og "Guð hefur vitjað lýðs síns."

17 Og þessi fregn um hann barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society