Book of Common Prayer
33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum,
34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna.
35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum
36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg,
37 sá akra og planta víngarða og afla afurða.
38 Og hann blessar þá, svo að þeir margfaldast stórum og fénað þeirra lætur hann eigi fækka.
39 Og þótt þeir fækki og hnígi niður sakir þrengingar af böli og harmi,
40 þá hellir hann fyrirlitning yfir tignarmenn og lætur þá villast um veglaus öræfi,
41 en bjargar aumingjanum úr eymdinni og gjörir ættirnar sem hjarðir.
42 Hinir réttvísu sjá það og gleðjast, og öll illska lokar munni sínum.
43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu, og menn taki eftir náðarverkum Drottins.
108 Ljóð. Davíðssálmur.
2 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!
3 Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.
4 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,
5 því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,
7 til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.
8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."
11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.
33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.
2 Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.
3 Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.
4 Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.
5 Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.
6 Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.
7 Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.
8 Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,
9 því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.
10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,
11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.
12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.
13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,
14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,
15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.
16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.
17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.
18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.
19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.
20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.
21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.
22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.
21 Þetta er orðið, er Drottinn hefir um hann sagt: Mærin, dóttirin Síon, fyrirlítur þig og gjörir gys að þér. Dóttirin Jerúsalem skekur höfuðið á eftir þér.
22 Hvern hefir þú smánað og spottað og gegn hverjum hefir þú hafið upp raustina og lyft augum þínum í hæðirnar? Gegn Hinum Heilaga í Ísrael!
23 Þú hefir látið sendimenn þína smána Drottin og sagt: ,Með fjölda hervagna minna steig ég upp á hæðir fjallanna, efst upp á Líbanonfjall. Ég hjó hin hávöxnu sedrustré þess og hin ágætu kýprestré þess. Ég braust upp í efsta herbergi þess, inn í aldinskóginn, þar sem hann var þéttastur.
24 Ég gróf til vatns og drakk útlent vatn, og með iljum fóta minna þurrkaði ég upp öll vatnsföll Egyptalands.`
25 Hefir þú þá ekki tekið eftir því, að ég hefi ráðstafað þessu svo fyrir löngu og hagað því svo frá öndverðu? Og nú hefi ég látið það koma fram, svo að þú mættir leggja víggirtar borgir í eyði og gjöra þær að eyðilegum grjóthrúgum.
26 En íbúar þeirra voru aflvana og skelfdust því og urðu sér til minnkunar. Jurtir vallarins og grængresið varð sem gras á þekjum og í hlaðvarpa.
27 Ég sé þig þegar þú stendur og þegar þú situr, og ég veit af því, þegar þú fer og kemur, svo og um ofsa þinn gegn mér.
28 Sökum ofsa þíns í gegn mér og af því að ofmetnaður þinn er kominn mér til eyrna, þá vil ég setja hring minn í nasir þínar og bitil minn í munn þér og færa þig aftur sama veg og þú komst.
29 Og þetta skalt þú til marks hafa: Þetta árið munuð þér eta sjálfsáið korn, annað árið sjálfvaxið korn, en þriðja árið munuð þér sá og uppskera, planta víngarða og eta ávöxtu þeirra.
30 Og leifarnar af Júda húsi, sem komist hafa undan, skulu að nýju festa rætur að neðan og bera ávöxt að ofan.
31 Því að frá Jerúsalem munu leifar út ganga og þeir, er undan komust, frá Síonfjalli. Vandlæti Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma.
32 Já, svo segir Drottinn um Assýríukonung: Eigi skal hann inn komast í þessa borg, engri ör þangað inn skjóta, engan herskjöld að henni bera og engan virkisvegg hlaða gegn henni.
33 Hann skal aftur snúa sömu leiðina sem hann kom, og inn í þessa borg skal hann ekki koma _ segir Drottinn.
34 Og ég vil vernda þessa borg og frelsa hana, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns."
35 En þessa sömu nótt fór engill Drottins og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa. Og er menn risu morguninn eftir, sjá, þá voru þeir allir liðin lík.
36 Þá tók Sanheríb Assýríukonungur sig upp, hélt af stað og sneri heim aftur og sat um kyrrt í Níníve.
10 Ég vil ekki, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um það, að feður vorir voru allir undir skýinu og fóru allir yfir um hafið.
2 Allir voru skírðir til Móse í skýinu og hafinu.
3 Allir neyttu hinnar sömu andlegu fæðu
4 og drukku allir hinn sama andlega drykk. Þeir drukku af hinum andlega kletti, sem fylgdi þeim. Kletturinn var Kristur.
5 En samt hafði Guð enga velþóknun á flestum þeirra og þeir féllu í eyðimörkinni.
6 Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það.
7 Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra. Ritað er: "Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika."
8 Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.
9 Freistum ekki heldur Drottins, eins og nokkrir þeirra freistuðu hans, þeir biðu bana af höggormum.
10 Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum.
11 Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.
12 Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.
13 Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.
18 En þegar Jesús sá mikinn mannfjölda kringum sig, bauð hann að fara yfir um vatnið.
19 Þá kom fræðimaður einn til hans og sagði: "Meistari, ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð."
20 Jesús sagði við hann: "Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla."
21 Annar, úr hópi lærisveinanna, sagði við hann: "Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn."
22 Jesús svarar honum: "Fylg þú mér, en lát hina dauðu jarða sína dauðu."
23 Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum.
24 Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf.
25 Þeir fara til, vekja hann og segja: "Herra, bjarga þú, vér förumst."
26 Hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?" Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.
27 Mennirnir undruðust og sögðu: "Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum."
by Icelandic Bible Society