Book of Common Prayer
102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.
2 Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.
3 Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.
4 Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.
5 Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.
6 Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.
7 Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.
8 Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.
9 Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.
10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum
11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.
12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.
13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.
14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.
15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.
16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,
17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.
18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.
19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.
20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar
21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,
22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,
23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.
24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.
25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.
26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.
28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.
29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.
107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum
3 og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.
4 Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,
5 þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.
6 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra
7 og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.
8 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
9 því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum.
10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu, bundnir eymd og járnum,
11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta,
12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim.
13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,
14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni og braut sundur fjötra þeirra.
15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
16 því að hann braut eirhliðin og mölvaði járnslárnar.
17 Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni og vegna misgjörða sinna voru þjáðir,
18 þeim bauð við hverri fæðu og voru komnir nálægt hliðum dauðans.
19 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,
20 hann sendi út orð sitt og læknaði þá og bjargaði þeim frá gröfinni.
21 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
22 og færa þakkarfórnir og kunngjöra verk hans með fögnuði.
23 Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum,
24 þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu.
25 Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess.
26 Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni.
27 Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin.
28 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra.
29 Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar.
30 Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu.
31 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
32 vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna.
19 Þegar Hiskía konungur heyrði þetta, reif hann klæði sín, huldi sig hærusekk og gekk í hús Drottins.
2 En Eljakím dróttseta og Sébna kanslara og prestaöldungana sendi hann klædda hærusekk til Jesaja spámanns Amozsonar,
3 og skyldu þeir segja við hann: "Svo segir Hiskía: Þessi dagur er neyðar-, hirtingar- og háðungardagur, því að barnið er komið í burðarliðinn, en krafturinn er enginn til að fæða.
4 Vera má, að Drottinn Guð þinn heyri öll orð marskálksins, er sendur er af Assýríukonungi herra sínum til að spotta hinn lifandi Guð, og láti hegnt verða þeirra orða, er Drottinn Guð þinn hefir heyrt. En bið þú fyrir leifunum, sem enn eru eftir."
5 Þegar þjónar Hiskía konungs komu til Jesaja,
6 sagði Jesaja við þá: "Segið svo herra yðar: Svo segir Drottinn: Óttast þú eigi smánaryrði þau, er þú hefir heyrt sveina Assýríukonungs láta sér um munn fara í gegn mér.
7 Sjá, ég læt hann verða þess hugar, að þegar hann spyr tíðindi, skal hann hverfa aftur heim í land sitt, og þá skal ég láta hann fyrir sverði falla í sínu eigin landi."
8 Síðan sneri marskálkurinn aftur og hitti Assýríukonung, þar sem hann sat um Líbna, því að hann hafði frétt, að hann væri farinn burt frá Lakís.
9 Þar kom honum svolátandi fregn af Tírhaka Blálandskonungi: "Hann er lagður af stað til þess að berjast við þig." Gjörði Assýríukonungur þá aftur sendimenn til Hiskía með þessari orðsending:
10 "Segið svo Hiskía Júdakonungi: Lát eigi Guð þinn, er þú treystir á, tæla þig, er þú hugsar: ,Jerúsalem verður eigi seld í hendur Assýríukonungi.`
11 Sjá, þú hefir sjálfur heyrt, hverju Assýríukonungar hafa fram farið við öll lönd, hversu þeir hafa gjöreytt þau, og munt þú þá frelsaður verða?
12 Hvort hafa guðir þjóðanna, er feður mínir hafa að velli lagt, frelsað þær _ Gósan, Haran og Resef og Edenmenn, sem voru í Telessar?
13 Hvar er nú konungurinn í Hamat og konungurinn í Arpad og konungurinn í Sefarvaímborg, Hena og Íva?"
14 Hiskía tók við bréfinu af sendimönnunum og las það. Síðan gekk hann upp í hús Drottins og rakti það sundur frammi fyrir Drottni.
15 Og Hiskía gjörði bæn sína frammi fyrir Drottni og sagði: "Drottinn, Ísraels Guð, þú sem situr uppi yfir kerúbunum, þú einn ert Guð yfir öllum konungsríkjum jarðar, þú hefir gjört himin og jörð.
16 Hneig, Drottinn, eyra þitt og heyr. Opna, Drottinn, auga þitt og sjá! Heyr þú orð Sanheríbs, er hann hefir sent til að smána með hinn lifandi Guð.
17 Satt er það, Drottinn, að Assýríukonungar hafa gjöreytt öllum þjóðum og löndum þeirra
18 og kastað guðum þeirra á eld, því að þeir voru ekki guðir, heldur handaverk manna, stokkar og steinar, svo að þeir gátu gjört þá að engu.
19 En Drottinn, Guð vor, frelsa oss nú af hans hendi, svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, Drottinn, einn ert Guð!"
20 Þá sendi Jesaja Amozson til Hiskía og lét segja honum: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Þar sem þú hefir beðið til mín um hjálp gegn Sanheríb Assýríukonungi, þá hefi ég heyrt það.
16 Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.
17 Því að gjöri ég þetta af frjálsum vilja, þá fæ ég laun, en gjöri ég það tilknúður, þá hefur mér verið trúað fyrir ráðsmennsku.
18 Hver eru þá laun mín? Að ég boða fagnaðarerindið án endurgjalds og hagnýti mér ekki það, sem ég á rétt á.
19 Þótt ég sé öllum óháður, hef ég gjört sjálfan mig að þræli allra, til þess að ávinna sem flesta.
20 Ég hef verið Gyðingunum sem Gyðingur, til þess að ávinna Gyðinga. Þeim, sem eru undir lögmálinu, hef ég verið eins og sá, sem er undir lögmálinu, enda þótt ég sjálfur sé ekki undir lögmálinu, til þess að ávinna þá, sem eru undir lögmálinu.
21 Hinum lögmálslausu hef ég verið sem lögmálslaus, þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs, heldur bundinn lögmáli Krists, til þess að ávinna hina lögmálslausu.
22 Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra.
23 Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.
24 Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.
25 Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan.
26 Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær.
27 Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.
8 Nú gekk Jesús niður af fjallinu, og fylgdi honum mikill mannfjöldi.
2 Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: "Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."
3 Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!" Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni.
4 Jesús sagði við hann: "Gæt þess að segja þetta engum, en far þú, sýn þig prestinum, og færðu þá fórn, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar."
5 Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann:
6 "Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn."
7 Jesús sagði: "Ég kem og lækna hann."
8 Þá sagði hundraðshöfðinginn: "Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða.
9 Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,` og hann fer, og við annan: ,Kom þú,` og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,` og hann gjörir það."
10 Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: "Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael.
11 En ég segi yður: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki,
12 en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna."
13 Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: "Far þú, verði þér sem þú trúir." Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.
14 Jesús kom í hús Péturs og sá, að tengdamóðir hans lá með sótthita.
15 Hann snart hönd hennar, og sótthitinn fór úr henni. Hún reis á fætur og gekk honum fyrir beina.
16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann.
17 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: "Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora."
by Icelandic Bible Society