Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 97

97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.

Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,

eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.

Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.

Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.

Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.

Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.

Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.

Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.

10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.

11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.

12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.

Sálmarnir 99-100

99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.

Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.

Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!

Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.

Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!

Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.

Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.

Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.

Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.

100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!

Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!

Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.

Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.

Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.

Sálmarnir 94-95

94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!

Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!

Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?

Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.

Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,

drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa

og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."

Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?

Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?

10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?

11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.

12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,

13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.

14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,

15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.

16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?

17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.

18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.

19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.

20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?

21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.

22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.

23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.

95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.

Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.

Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.

Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.

Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.

Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,

því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!

Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,

þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.

10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."

11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."

Síðari Kroníkubók 29:1-3

29 Hiskía varð konungur, þá er hann var tuttugu og fimm ára gamall og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Abía Sakaríadóttir.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, að öllu svo sem gjört hafði Davíð forfaðir hans.

Í fyrsta mánuði á fyrsta ríkisári sínu opnaði hann dyrnar að musteri Drottins, og gjörði við þær.

Síðari Kroníkubók 30

30 Síðan sendi Hiskía menn til alls Ísraels og Júda og ritaði einnig bréf til Efraíms og Manasse um að koma til musteris Drottins í Jerúsalem til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska.

Réð konungur það af og höfuðsmenn hans og allur söfnuðurinn í Jerúsalem, að halda páska í öðrum mánuðinum.

Því að um þetta leyti gátu þeir eigi haldið þá, sakir þess að eigi höfðu nægilega margir prestar helgað sig og lýðnum var eigi enn stefnt saman til Jerúsalem.

Leist konungi og söfnuðinum öllum þetta rétt,

og kváðu því svo á, að boða skyldi um allan Ísrael frá Beerseba til Dan, að menn skyldu koma til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska í Jerúsalem, því að þeir höfðu eigi haldið þá eins fjölmennir og fyrir var mælt.

Þá fóru hraðboðarnir með bréf frá konungi og höfuðsmönnum hans um allan Ísrael og Júda, og mæltu svo eftir boði konungs: "Þér Ísraelsmenn! Snúið aftur til Drottins, Guðs Abrahams, Ísaks og Ísraels, til þess að hann snúi sér að leifunum, er komist hafa undan af yður úr hendi Assýríukonungs.

Verið eigi sem feður yðar og frændur, er sýndu ótrúmennsku Drottni, Guði feðra sinna, svo að hann ofurseldi þá eyðileggingunni, svo sem þér sjáið.

Þverskallist því eigi svo sem feður yðar, réttið Drottni höndina og komið til helgidóms hans, er hann hefir helgað að eilífu, og þjónið Drottni, Guði yðar, svo að hin brennandi reiði hans megi hverfa frá yður.

Því að ef þér snúið yður til Drottins, þá munu bræður yðar og synir finna miskunn hjá þeim, er hafa flutt þá burt hernumda, svo að þeir megi hverfa heim aftur til þessa lands. Því að náðugur og miskunnsamur er Drottinn, Guð yðar, og hann mun eigi snúa augliti sínu frá yður, ef þér snúið yður aftur til hans."

10 Og hraðboðarnir fóru úr einni borginni í aðra í Efraím- og Manasselandi og allt til Sebúlons, en menn hlógu að þeim og gjörðu gys að þeim.

11 Þó lægðu sig nokkrir menn af Asser, Manasse og Sebúlon, og komu til Jerúsalem.

12 Einnig í Júda réð hönd Guðs, svo að hann gaf þeim eindrægni til þess að fylgja boði því, er konungur og höfuðsmennirnir höfðu látið út ganga að boði Drottins.

13 Síðan safnaðist fjöldi fólks saman í Jerúsalem til þess að halda hátíð hinna ósýrðu brauða í öðrum mánuði. Var það afar mikill söfnuður.

14 Hófust þeir þá handa og afnámu ölturun, er voru í Jerúsalem, svo afnámu þeir og öll reykelsisölturun og fleygðu í Kídronlæk.

15 Síðan slátruðu þeir páskalambinu á fjórtánda degi hins annars mánaðar, og prestarnir og levítarnir blygðuðust sín og færðu brennifórnir í musteri Drottins.

16 Og þeir gengu fram á sinn ákveðna stað, eins og þeim var fyrir sett samkvæmt lögmáli guðsmannsins Móse. Stökktu prestarnir blóðinu, er þeir höfðu tekið við því hjá levítunum.

17 Því að margir voru þeir í söfnuðinum, er eigi höfðu helgað sig, en levítarnir sáu um slátrun á páskalömbunum fyrir alla þá, er eigi voru hreinir, til þess að helga þau Drottni.

18 Því að fjöldi lýðsins, margir úr Efraím, Manasse, Íssakar og Sebúlon höfðu eigi hreinsað sig, og neyttu eigi páskalambsins á þann hátt, sem fyrir er mælt, en Hiskía bað fyrir þeim og sagði: "Drottinn, sem er góður, fyrirgefi

19 hverjum er leggur hug á að leita Guðs, Drottins, Guðs feðra sinna, enda þótt hann eigi sé svo hreinn sem sæmir helgidóminum."

20 Og Drottinn bænheyrði Hiskía og þyrmdi lýðnum.

21 Svo héldu þá Ísraelsmenn, þeir er voru í Jerúsalem, hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með miklum fögnuði, og prestarnir og levítarnir lofuðu Drottin dag eftir dag af öllum mætti.

22 Og Hiskía talaði vinsamlega við alla levítana, er sýndu góðan skilning á þjónustu Drottins. Átu þeir síðan hátíðarfórnina í sjö daga og slátruðu heillafórnum og lofuðu Drottin, Guð feðra sinna.

23 Og allur söfnuðurinn réð það af að halda hátíð aðra sjö daga, og héldu þeir svo fagnaðarhátíð í sjö daga.

24 Því að Hiskía Júdakonungur hafði gefið söfnuðinum þúsund naut og sjö þúsund sauði, og höfuðsmennirnir höfðu gefið söfnuðinum þúsund naut og tíu þúsund sauði. Og fjöldi presta helgaði sig.

25 Svo fagnaði þá allur Júdasöfnuður og prestarnir og levítarnir og allur söfnuður þeirra, er komnir voru úr Ísrael, og útlendingarnir, er komnir voru úr Ísraelslandi, og þeir er bjuggu í Júda.

26 Og mikill fögnuður var í Jerúsalem, því að síðan á dögum Salómons, sonar Davíðs Ísraelskonungs, hafði slíkt eigi borið við í Jerúsalem.

27 Og levítaprestarnir stóðu upp og blessuðu lýðinn, og hróp þeirra var heyrt og bæn þeirra komst til hins heilaga bústaðar hans, til himins.

Fyrra bréf Páls til Korin 7:32-40

32 En ég vil, að þér séuð áhyggjulausir. Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, hversu hann megi Drottni þóknast.

33 En hinn kvænti ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hann megi þóknast konunni,

34 og er tvískiptur. Hin ógifta kona og mærin ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, til þess að hún megi vera heilög, bæði að líkama og anda. En hin gifta kona ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hún megi þóknast manninum.

35 Þetta segi ég sjálfum yður til gagns, ekki til þess að varpa snöru yfir yður, heldur til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við Drottin.

36 Ef einhver telur sig ekki geta vansalaust búið með heitmey sinni, enda á manndómsskeiði, þá gjöri hann sem hann vill, ef ekki verður hjá því komist. Hann syndgar ekki. Giftist þau.

37 Sá þar á móti, sem er staðfastur í hjarta sínu og óþvingaður, en hefur fullt vald á vilja sínum og hefur afráðið í hjarta sínu að hún verði áfram mey, gjörir vel.

38 Þannig gjöra þá báðir vel, sá sem kvænist mey sinni, og hinn, sem kvænist henni ekki, hann gjörir betur.

39 Konan er bundin, meðan maður hennar er á lífi. En ef maðurinn deyr, er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að það sé í Drottni.

40 Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er, það er mín skoðun. En ég þykist og hafa anda Guðs.

Matteusarguðspjall 7:1-12

Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir.

Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmdir, og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða.

Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?

Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Lát mig draga flísina úr auga þér?` Og þó er bjálki í auga sjálfs þín.

Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.

Gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín. Þau mundu troða þær undir fótum, og þeir snúa sér við og rífa yður í sig.

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð?

10 Eða höggorm, þegar hann biður um fisk?

11 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?

12 Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society