Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 89

89 Etans-maskíl Esraíta.

Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,

því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.

Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:

"Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]

Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.

Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?

Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.

Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.

10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.

11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.

12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.

13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.

14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.

15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.

16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.

17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu,

18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,

19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.

20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.

21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.

22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.

23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,

24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.

25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.

26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.

27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.

28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.

29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.

30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.

31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum,

32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín,

33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum,

34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni.

35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.

36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð:

37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.

38 Það skal standa stöðugt að eilífu sem tunglið, svo sannarlega sem áreiðanlegt vitni er á himnum." [Sela]

39 Og þó hefir þú útskúfað og hafnað og reiðst þínum smurða.

40 Þú hefir riftað sáttmálanum við þjón þinn, vanhelgað kórónu hans og fleygt henni til jarðar.

41 Þú hefir brotið niður alla múrveggi hans og lagt virki hans í eyði.

42 Allir vegfarendur ræna hann, hann er til háðungar orðinn nágrönnum sínum.

43 Þú hefir hafið hægri hönd fjenda hans, glatt alla óvini hans.

44 Þú hefir og látið sverðseggjar hans hörfa undan og eigi látið hann standast í bardaganum.

45 Þú hefir látið endi á verða vegsemd hans og hrundið hásæti hans til jarðar.

46 Þú hefir stytt æskudaga hans og hulið hann skömm. [Sela]

47 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að dyljast, á reiði þín ætíð að brenna sem eldur?

48 Minnst þú, Drottinn, hvað ævin er, til hvílíks hégóma þú hefir skapað öll mannanna börn.

49 Hver er sá, er lifi og sjái eigi dauðann, sá er bjargi sálu sinni úr greipum Heljar. [Sela]

50 Hvar eru þín fyrri náðarverk, ó Drottinn, þau er þú í trúfesti þinni sórst Davíð?

51 Minnst, ó Drottinn, háðungar þjóna þinna, að ég verð að bera í skauti smánan margra þjóða,

52 er óvinir þínir, Drottinn, smána mig með, smána fótspor þíns smurða. _________

53 Lofaður sé Drottinn að eilífu. Amen. Amen.

Síðari bók konunganna 17:24-41

24 Assýríukonungur flutti inn fólk frá Babýloníu, frá Kúta, frá Ava, frá Hamat og frá Sefarvaím og lét það setjast að í borgum Samaríu í stað Ísraelsmanna. Tóku þeir Samaríu til eignar og settust að í borgum hennar.

25 En með því að þeir dýrkuðu ekki Drottin, fyrst eftir að þeir voru setstir þar að, þá sendi Drottinn ljón meðal þeirra. Ollu þau manntjóni meðal þeirra.

26 Þá sögðu menn svo við Assýríukonung: "Þjóðirnar, er þú fluttir burt og lést setjast að í borgum Samaríu, vita eigi, hver dýrkun landsguðnum ber. Fyrir því hefir hann sent ljón meðal þeirra, og sjá, þau deyða þá, af því að þeir vita ekki, hvað landsguðnum ber."

27 Þá skipaði Assýríukonungur svo fyrir: "Látið einn af prestunum fara þangað, þeim er ég flutti burt þaðan, að hann fari og setjist þar að og kenni þeim, hver dýrkun landsguðnum ber."

28 Þá kom einn af prestunum, þeim er þeir höfðu flutt burt úr Samaríu, og settist að í Betel. Hann kenndi þeim, hvernig þeir ættu að dýrka Drottin.

29 Samverjar gjörðu sér sína guði, hver þjóðflokkur út af fyrir sig, og settu þá í hæðahofin, er þeir höfðu reist, hver þjóðflokkur út af fyrir sig í sínum borgum, þeim er þeir bjuggu í.

30 Babýloníumenn gjörðu líkneski af Súkkót Benót, Kútmenn gjörðu líkneski af Nergal, Hamatmenn gjörðu líkneski af Asíma,

31 Avítar gjörðu líkneski af Nibkas og Tartak, en Sefarvítar brenndu börn sín til handa Adrammelek og Anammelek, Sefarvaím-guðum.

32 Þeir dýrkuðu einnig Drottin og gjörðu menn úr sínum hóp að hæðaprestum. Báru þeir fram fórnir fyrir þá í hæðahofunum.

33 Þannig dýrkuðu þeir Drottin, en þjónuðu einnig sínum guðum að sið þeirra þjóða, er þeir höfðu verið fluttir frá.

34 Fram á þennan dag fara þeir að fornum siðum. Þeir dýrka ekki Drottin og breyta ekki eftir lögum hans og ákvæðum og lögmáli því og boðorði, er Drottinn lagði fyrir sonu Jakobs, þess er hann gaf nafnið Ísrael.

35 En Drottinn hafði gjört sáttmála við þá og boðið þeim á þessa leið: ,Þér skuluð eigi dýrka neina aðra guði, eigi falla fram fyrir þeim, eigi þjóna þeim né færa þeim fórnir,

36 en Drottin, sem leiddi yður af Egyptalandi með miklum mætti og útréttum armlegg _ hann skuluð þér dýrka, fyrir honum skuluð þér falla fram og honum skuluð þér fórnir færa.

37 En lög þau og ákvæði, lögmál og boðorð, er hann hefir ritað handa yður, skuluð þér varðveita, svo að þér haldið þau alla daga, og þér skuluð eigi dýrka aðra guði.

38 Og sáttmálanum, er ég hefi við yður gjört, skuluð þér ekki gleyma, og þér skuluð eigi dýrka aðra guði,

39 en Drottin, Guð yðar, skuluð þér dýrka, og mun hann þá frelsa yður af hendi allra óvina yðar.`

40 Samt hlýddu þeir ekki, heldur fóru þeir að fornum siðum.

41 Þannig dýrkuðu þá þessar þjóðir Drottin, en þjónuðu þó um leið skurðgoðum sínum. Börn þeirra og barnabörn breyta og enn í dag eins og feður þeirra breyttu.

Fyrra bréf Páls til Korin 7:25-31

25 Um meyjarnar hef ég enga skipun frá Drottni. En álit mitt læt ég í ljós eins og sá, er hlotið hefur þá náð af Drottni að vera trúr.

26 Mín skoðun er, að vegna yfirstandandi neyðar sé það gott fyrir mann að vera þannig.

27 Ertu við konu bundinn? Leitast þá ekki við að verða laus. Ertu laus orðinn við konu? Leita þá ekki kvonfangs.

28 En þótt þú kvongist, syndgar þú ekki, og ef mærin giftist, syndgar hún ekki. En þrenging munu slíkir hljóta hér á jörð, en ég vildi hlífa yður.

29 En það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki,

30 þeir sem gráta, eins og þeir grétu ekki, þeir sem fagna, eins og þeir fögnuðu ekki, þeir sem kaupa, eins og þeir héldu ekki því, sem þeir kaupa,

31 og þeir sem nota heiminn, eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.

Matteusarguðspjall 6:25-34

25 Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin?

26 Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?

27 Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

28 Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna.

29 En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.

30 Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir!

31 Segið því ekki áhyggjufullir: ,Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?`

32 Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa.

33 En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.

34 Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society