Book of Common Prayer
66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,
2 syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.
3 Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.
4 Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]
5 Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.
6 Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.
7 Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]
8 Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.
9 Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.
10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.
11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.
12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.
13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,
14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.
15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]
16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.
17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.
18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.
19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.
20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.
67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.
2 Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]
3 svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.
4 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
5 Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]
6 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
7 Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.
8 Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.
2 Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.
3 Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.
4 Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]
5 Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.
6 Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.
7 Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.
8 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]
9 Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.
10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.
11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."
12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]
17 Á tólfta ríkisári Akasar Júdakonungs varð Hósea Elason konungur í Samaríu yfir Ísrael og ríkti níu ár.
2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, þó ekki eins og Ísraelskonungar þeir, er verið höfðu á undan honum.
3 Salmaneser Assýríukonungur fór herför í móti honum, og varð Hósea lýðskyldur honum og galt honum skatt.
4 En er Assýríukonungur varð þess var, að Hósea bjó yfir svikum við hann, þar sem hann gjörði menn á fund Só Egyptalandskonungs og greiddi Assýríukonungi eigi framar árlega skattinn, eins og verið hafði, þá tók Assýríukonungur hann höndum og lét fjötra hann í dýflissu.
5 Og Assýríukonungur herjaði landið allt og fór til Samaríu og sat um hana í þrjú ár.
6 En á níunda ríkisári Hósea vann Assýríukonungur Samaríu og herleiddi Ísrael til Assýríu. Fékk hann þeim bústað í Hala og við Habór, fljótið í Gósan, og í borgum Meda.
7 Þannig fór, af því að Ísraelsmenn höfðu syndgað gegn Drottni, Guði sínum, þeim er leiddi þá út af Egyptalandi, undan valdi Faraós Egyptalandskonungs, og dýrkað aðra guði.
8 Þeir fóru og að siðum þeirra þjóða, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum, og að siðum Ísraelskonunga, er þeir sjálfir höfðu sett.
9 Þá gjörðu og Ísraelsmenn það, er rangt var gagnvart Drottni, Guði þeirra, og byggðu sér fórnarhæðir í öllum borgum sínum, jafnt varðmannaturnum sem víggirtum borgum.
10 Þeir reistu sér merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré
11 og fórnuðu þar reykelsisfórnum á öllum hæðum eins og þjóðirnar, er Drottinn hafði rekið burt undan þeim. Aðhöfðust þeir það sem illt var og egndu Drottin til reiði.
12 Og þeir dýrkuðu skurðgoð, er Drottinn hafði sagt um við þá: ,Þér skuluð eigi gjöra slíkt.`
13 Og þó hafði Drottinn aðvarað Ísrael og Júda fyrir munn allra spámannanna, allra sjáandanna, og sagt: ,Snúið aftur frá yðar vondu vegum og varðveitið skipanir mínar og boðorð í öllum greinum samkvæmt lögmálinu, er ég lagði fyrir feður yðar, og því er ég bauð yður fyrir munn þjóna minna, spámannanna.`
14 En þeir hlýddu ekki, heldur þverskölluðust eins og feður þeirra, er eigi treystu Drottni, Guði sínum.
15 Þeir virtu að vettugi lög hans og sáttmála, þann er hann hafði gjört við feður þeirra, og boðorð hans, þau er hann hafði fyrir þá lagt, og eltu fánýt goð og breyttu heimskulega að dæmi þjóðanna, er umhverfis þá voru, þótt Drottinn hefði bannað þeim að breyta eftir þeim.
16 Þeir yfirgáfu öll boð Drottins, Guðs síns, og gjörðu sér steypt líkneski, tvo kálfa, og þeir gjörðu asérur, féllu fram fyrir öllum himinsins her og dýrkuðu Baal.
17 Þeir létu sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn, fóru með galdur og fjölkynngi og ofurseldu sig til að gjöra það, sem illt var í augum Drottins, til þess að egna hann til reiði.
18 Þá reiddist Drottinn Ísrael ákaflega og rak þá burt frá augliti sínu. Ekkert varð eftir nema Júdaættkvísl ein.
36 Í Joppe var lærisveinn, kona að nafni Tabíþa, á grísku Dorkas. Hún var mjög góðgerðasöm og örlát við snauða.
37 En á þeim dögum tók hún sótt og andaðist. Var hún lauguð og lögð í loftstofu.
38 Nú er Lýdda í grennd við Joppe, og höfðu lærisveinarnir heyrt, að Pétur væri þar. Sendu þeir tvo menn til hans og báðu hann: "Kom án tafar til vor."
39 Pétur brá við og fór með þeim. Þegar þangað kom, fóru þeir með hann upp í loftstofuna, og allar ekkjurnar komu til hans grátandi og sýndu honum kyrtla og yfirhafnir, sem Dorkas hafði gjört, meðan hún var hjá þeim.
40 En Pétur lét alla fara út, féll á kné og baðst fyrir. Síðan sneri hann sér að líkinu og sagði: "Tabíþa, rís upp." En hún opnaði augun, sá Pétur og settist upp.
41 Og hann rétti henni höndina og reisti hana á fætur, kallaði síðan á hina heilögu og ekkjurnar og leiddi hana fram lifandi.
42 Þetta varð hljóðbært um alla Joppe, og margir tóku trú á Drottin.
43 Var Pétur um kyrrt í Joppe allmarga daga hjá Símoni nokkrum sútara.
5 Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.
2 Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín.
3 Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.
4 Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: "Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar."
5 Símon svaraði: "Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin."
6 Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.
7 Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.
8 Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: "Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður."
9 En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið.
10 Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: "Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða."
11 Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.
by Icelandic Bible Society