Book of Common Prayer
87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.
2 Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.
3 Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]
4 Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.
5 En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.
6 Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]
7 Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."
90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.
2 Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
4 Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.
5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.
6 Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.
7 Vér hverfum fyrir reiði þinni, skelfumst fyrir bræði þinni.
8 Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér, vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns.
9 Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp.
10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.
11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar og bræði þína, svo sem hana ber að óttast?
12 Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.
13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?
14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.
17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.
136 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
3 þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
4 honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu,
5 honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu,
6 honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu,
7 honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu,
8 sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu,
9 tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu,
10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu,
12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu,
13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu,
14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu,
15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu,
16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu,
17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu,
20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu,
21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu,
22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu,
23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu,
24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu,
25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu.
26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.
11 Þá er Atalía móðir Ahasía sá, að sonur hennar var dauður, fór hún til og lét drepa alla konungsættina.
2 Þá tók Jóseba, dóttir Jórams konungs, systir Ahasía, Jóas Ahasíason á laun úr hóp konungssonanna, er deyða átti, og fól hann og fóstru hans í svefnherberginu. Þannig leyndi hún honum fyrir Atalíu, svo að hann var ekki drepinn.
3 Og hann var hjá henni á laun sex ár í musteri Drottins, meðan Atalía ríkti yfir landinu.
4 En á sjöunda ári sendi Jójada prestur menn og lét sækja hundraðshöfðingja lífvarðarins og varðliðsins og lét þá koma til sín í musteri Drottins. Og hann gjörði við þá sáttmála og lét þá vinna eið í musteri Drottins. Síðan sýndi hann þeim konungsson
5 og lagði svo fyrir þá: "Svo skuluð þér gjöra: Þriðjungur yðar, þér er heim farið hvíldardaginn, skuluð halda vörð í konungshöllinni.
6 Skal einn þriðjungurinn vera í Súrhliði, annar í hliðinu bak við varðliðsmennina, svo að þér haldið vörð í konungshöllinni.
7 Og báðir hinir þriðjungsflokkar yðar, allir þeir, er fara út hvíldardaginn til þess að halda vörð í musteri Drottins hjá konunginum,
8 þér skuluð fylkja yður um konung, allir með vopn í hendi, og hver sá, er vill brjótast gegnum raðirnar, skal drepinn verða. Skuluð þér þannig vera með konungi, þá er hann fer út og þegar hann kemur heim."
9 Hundraðshöfðingjarnir fóru með öllu svo sem Jójada prestur hafði boðið, sóttu hver sína menn, bæði þá er heim fóru hvíldardaginn og þá er út fóru hvíldardaginn og komu til Jójada prests.
10 Og presturinn fékk hundraðshöfðingjunum spjótin og skjölduna, er átt hafði Davíð konungur og voru í musteri Drottins.
11 Og varðliðsmennirnir námu staðar, allir með vopn í hendi, allt í kringum konung, frá suðurhlið musterisins að norðurhlið þess, frammi fyrir altarinu og frammi fyrir musterinu.
12 Þá leiddi hann konungsson fram og setti á hann kórónuna og hringana. Tóku þeir hann til konungs og smurðu hann, klöppuðu lófum saman og hrópuðu: "Konungurinn lifi!"
13 En er Atalía heyrði ópið í varðliðsmönnunum og lýðnum, þá kom hún til lýðsins í musteri Drottins.
14 Sá hún þá, að konungur stóð við súluna, svo sem siður var til, og hún sá höfuðsmennina og lúðursveinana hjá konungi og allan landslýðinn fagnandi og blásandi í lúðrana. Þá reif Atalía klæði sín og kallaði: "Samsæri, samsæri!"
15 En Jójada prestur bauð hundraðshöfðingjunum, fyrirliðum hersins, og mælti til þeirra: "Leiðið hana út milli raðanna og drepið með sverði hvern, sem fer á eftir henni." Því að prestur hafði sagt: ,Eigi skal hana drepa í musteri Drottins.`
16 Síðan lögðu þeir hendur á hana, og er hún var komin inn í konungshöllina um hrossahliðið, var hún drepin þar.
17 Jójada gjörði sáttmála milli Drottins og konungs og lýðsins, að þeir skyldu vera lýður Drottins, svo og milli konungs og lýðsins.
18 Síðan fór allur landslýður inn í musteri Baals og reif það. Ölturu hans og líkneskjur molbrutu þeir, en Mattan, prest Baals, drápu þeir fyrir ölturunum. Síðan setti prestur varðflokka við musteri Drottins,
19 og hann tók hundraðshöfðingjana, lífvörðinn og varðliðsmennina og allan landslýðinn, og fóru þeir með konung ofan frá musteri Drottins og gengu um varðliðshliðið inn í konungshöllina, og hann settist í konungshásætið.
20 Allur landslýður fagnaði og borgin sefaðist. En Atalíu drápu þeir með sverði í konungshöllinni.
10 Þeim, sem gengið hafa í hjónaband, býð ég, þó ekki ég, heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, _
11 en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn _, og að maðurinn skuli ekki heldur skilja við konuna.
12 En við hina segi ég, ekki Drottinn: Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana.
13 Og kona, sem á vantrúaðan mann og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, skilji ekki við manninn.
14 Því að vantrúaði maðurinn er helgaður í konunni og vantrúaða konan er helguð í bróðurnum. Annars væru börn yðar óhrein, en nú eru þau heilög.
15 En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað yður að lifa í friði.
16 Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað manninn þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konuna þína?
17 Þó skal hver og einn vera í þeirri stöðu, sem Drottinn hefur úthlutað honum, eins og hann var, þegar Guð kallaði hann. Þannig skipa ég fyrir í öllum söfnuðunum.
18 Sá sem var umskorinn, þegar hann var kallaður, breyti því ekki. Sá sem var óumskorinn, láti ekki umskera sig.
19 Umskurnin er ekkert og yfirhúðin ekkert, heldur það að halda boðorð Guðs.
20 Hver og einn sé kyrr í þeirri stöðu, sem hann var kallaður í.
21 Varst þú þræll, er þú varst kallaður? Set það ekki fyrir þig, en gjör þér gott úr því, en ef þú getur orðið frjáls, þá kjós það heldur.
22 Því að sá þræll, sem kallaður er í Drottni, er frelsingi Drottins. Á sama hátt er sá, sem kallaður er sem frjáls, þræll Krists.
23 Þér eruð verði keyptir, verðið ekki þrælar manna.
24 Bræður, sérhver verði frammi fyrir Guði kyrr í þeirri stétt, sem hann var kallaður í.
19 Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.
20 Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.
21 Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.
22 Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur.
23 En sé auga þitt spillt, verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið.
24 Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.
by Icelandic Bible Society