Book of Common Prayer
8 Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.
2 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.
3 Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.
4 Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,
5 hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?
6 Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.
7 Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:
8 sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,
9 fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.
10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!
148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.
38 Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:
2 Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs með óskynsamlegum orðum?
3 Gyrð lendar þínar eins og maður, þá mun ég spyrja þig, og þú skalt fræða mig.
4 Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? Seg fram, ef þú hefir þekkingu til.
5 Hver ákvað mál hennar _ þú veist það! _ eða hver þandi mælivaðinn yfir hana?
6 Á hvað var stólpum hennar hleypt niður, eða hver lagði hornstein hennar,
7 þá er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu?
1 Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna.
2 En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört.
3 Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði oss af syndum vorum og settist til hægri handar hátigninni á hæðum.
4 Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir.
5 Því við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig. Eða: Ég vil vera honum faðir, og hann skal vera mér sonur!
6 Og aftur er hann leiðir hinn frumgetna inn í heimsbyggðina segir hann: Og allir englar Guðs skulu tilbiðja hann.
7 Og um englana segir hann: Hann sem gjörir engla sína að vindum og þjóna sína að eldslogum.
8 En um soninn: Hásæti þitt, ó Guð, er um aldir alda, og sproti réttvísinnar er sproti ríkis þíns.
9 Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti. Því hefur Guð, þinn Guð, smurt þig gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja.
10 Og: Þú, Drottinn, hefur í upphafi grundvallað jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
11 Þeir munu farast, en þú varir. Allir munu þeir fyrnast sem fat,
12 og þú munt þá saman vefja eins og möttul, um þá verður skipt sem klæði. En þú ert hinn sami, og þín ár taka aldrei enda.
13 En við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Set þig mér til hægri handar, uns ég gjöri óvini þína að fótskör þinni?
14 Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?
34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.
2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.
5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.
9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.
10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.
11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.
12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.
13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,
15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.
16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.
17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.
18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.
20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.
150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!
2 Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!
3 Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!
4 Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!
5 Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!
104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.
2 Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.
3 Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.
4 Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.
5 Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6 Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,
7 en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
8 Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.
9 Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.
10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,
11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.
12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.
13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.
14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni
15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.
16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett
17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.
18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.
19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.
20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.
21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.
22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,
23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.
24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.
26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.
27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.
30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.
31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,
32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.
33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.
35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.
21 Og ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur,` eða: ,Þar,` þá trúið því ekki.
22 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra tákn og undur til að leiða afvega hina útvöldu ef orðið gæti.
23 Verið varir um yður. Ég hef sagt yður allt fyrir.
24 En á þeim dögum, eftir þrenging þessa, mun sólin sortna og tunglið hætta að skína.
25 Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.
26 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð.
27 Og hann mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta.
by Icelandic Bible Society