Book of Common Prayer
80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.
2 Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.
3 Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!
4 Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
5 Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?
6 Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.
7 Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.
8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,
10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.
11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.
12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.
13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?
14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.
15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.
20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.
2 Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.
3 Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.
4 Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]
5 Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.
6 Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,
7 ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.
8 Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?
9 Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?
10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]
11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."
12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,
13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.
14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?
15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.
16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]
17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.
18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.
19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.
20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.
21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.
79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.
2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.
3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.
4 Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?
6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.
7 Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.
8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.
9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.
10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.
11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,
12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.
13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.
5 Naaman, hershöfðingi Sýrlandskonungs, var í miklum metum hjá herra sínum og í hávegum hafður, því að undir forustu hans hafði Drottinn veitt Sýrlendingum sigur. Var maðurinn hinn mesti kappi, en líkþrár.
2 Sýrlendingar höfðu farið herför í smáflokkum og haft burt af Ísraelslandi unga stúlku. Þjónaði hún konu Naamans.
3 Hún sagði við húsmóður sína: "Ég vildi óska að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi losa hann við líkþrána."
4 Þá fór Naaman og sagði herra sínum frá á þessa leið: "Svo og svo hefir stúlkan frá Ísraelslandi talað."
5 Þá mælti Sýrlandskonungur: "Far þú, ég skal senda Ísraelskonungi bréf." Lagði Naaman þá af stað og tók með sér tíu talentur silfurs, sex þúsund sikla gulls og tíu alklæðnaði.
6 Hann færði Ísraelskonungi bréfið, er var á þessa leið: "Þegar bréf þetta kemur þér í hendur, þá skalt þú vita, að ég hefi sent til þín Naaman þjón minn, og skalt þú losa hann við líkþrá hans."
7 En er Ísraelskonungur hafði lesið bréfið, reif hann klæði sín og mælti: "Er ég þá Guð, er deytt geti og lífgað, fyrst hann gjörir mér orð um að losa mann við líkþrá hans? Megið þér þar sjá og skynja, að hann leitar saka við mig."
8 En er Elísa, guðsmaðurinn, frétti, að Ísraelskonungur hefði rifið klæði sín, sendi hann til konungs og lét segja honum: "Hví rífur þú klæði þín? Komi hann til mín, þá skal hann komast að raun um, að til er spámaður í Ísrael."
9 Þá kom Naaman með hesta sína og vagna og nam staðar úti fyrir húsdyrum Elísa.
10 Þá sendi Elísa mann til hans og lét segja honum: "Far og lauga þig sjö sinnum í Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða!"
11 Þá varð Naaman reiður og gekk burt og mælti: "Ég hugði þó, að hann mundi koma út til mín og ganga að mér og ákalla nafn Drottins, Guðs síns, veifa hendinni í áttina til helgistaðarins og koma þannig líkþránni burt.
12 Eru ekki Abana og Farfar, fljótin hjá Damaskus, betri en allar ár í Ísrael? Gæti ég ekki laugað mig í þeim og orðið hreinn?" Sneri hann sér þá við og hélt burt í reiði.
13 Þá gengu þjónar hans til hans, töluðu til hans og sögðu: "Ef spámaðurinn hefði skipað þér eitthvað erfitt, mundir þú þá ekki hafa gjört það? Hve miklu fremur þá, er hann hefir sagt þér: ,Lauga þig og munt þú hreinn verða`?"
14 Þá fór hann ofan eftir og dýfði sér sjö sinnum niður í Jórdan, eins og guðsmaðurinn hafði sagt. Varð þá hold hans aftur sem hold á ungum sveini, og hann varð hreinn.
15 Þá hvarf hann aftur til guðsmannsins og allt hans föruneyti, og er hann kom þangað, gekk hann fyrir hann og mælti: "Nú veit ég, að enginn Guð er til í neinu landi nema í Ísrael, og þigg nú gjöf af þjóni þínum."
16 En Elísa mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er ég þjóna: Ég tek ekki við neinu!" Og þótt hann legði að honum að taka við því, þá færðist hann undan.
17 Þá mælti Naaman: "Ef ekki, þá lát þó gefa þjóni þínum mold á tvo múla, því að þjónn þinn mun eigi framar færa brennifórnir og sláturfórnir neinum guðum öðrum en Drottni.
18 Það eitt verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum: Þegar herra minn gengur í musteri Rimmons til þess að biðjast þar fyrir, og hann þá styðst við hönd mína, svo að ég fell fram í musteri Rimmons, þegar hann fellur fram í musteri Rimmons, _ það verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum."
19 En Elísa mælti til hans: "Far þú í friði." En er Naaman var kominn spölkorn frá honum,
8 Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður!
9 Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.
10 Vér erum heimskir sökum Krists, en þér vitrir fyrir samfélag yðar við Krist! Vér erum veikir, en þér sterkir, þér eruð í hávegum hafðir, en vér óvirtir.
11 Allt til þessarar stundar þolum vér hungur, þorsta og klæðleysi, oss er misþyrmt, vér höfum engan samastað,
12 og vér stöndum í erfiði og verðum að vinna með eigin höndum.
13 Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér. Vér erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa.
14 Ekki rita ég þetta til þess að gjöra yður kinnroða, heldur til að áminna yður eins og elskuleg börn mín.
15 Enda þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður. Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið.
16 Ég bið yður: Verið eftirbreytendur mínir.
17 Þess vegna sendi ég Tímóteus til yðar, sem er elskað og trútt barn mitt í Drottni. Hann mun minna yður á vegu mína í Kristi, eins og ég kenni alls staðar í hverjum söfnuði.
18 En nokkrir hafa gjörst hrokafullir, rétt eins og ég ætlaði ekki að koma til yðar,
19 en ég mun brátt koma til yðar, ef Drottinn vill, og mun ég þá kynna mér, ekki orð hinna stærilátu, heldur kraft þeirra.
20 Því að Guðs ríki er ekki fólgið í orðum, heldur í krafti.
21 Hvað viljið þér? Á ég að koma til yðar með hirtingarvönd eða í kærleika og hógværðar anda?
21 Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur, skal svara til saka fyrir dómi.`
22 En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis.
23 Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér,
24 þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.
25 Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi.
26 Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.
by Icelandic Bible Society